07.04.1965
Sameinað þing: 40. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í D-deild Alþingistíðinda. (2991)

99. mál, lánveitingar til íbúðarbygginga

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki í tilefni af ræðu hv. 4. þm. Vestf. að fara að lengja þessar umr. að neinu ráði. Það kom fram af hans máli, að við erum í öllum verulegum atriðum sammála um það, sem gera þarf í húsnæðismálunum og aðal meiningarmunur okkar er sá, hvort skipa eigi nú n. til þess að athuga þau mál öll enn frekar, en gert hefur verið og á þann hátt að reyna að skapa samstöðu um lausn þessara mjög svo þýðingarmiklu mála. Á því verður náttúrlega hver að hafa sína skoðun og ég ætla mér ekki að fara að ónotast við hv. 4. þm. Vestf., þótt hann hafi aðra skoðun á málinu en ég. En ég undirstrika það, sem ég sagði í minni ræðu áðan, að ég tel, að þrátt fyrir þær endurbætur, sem eru í frv. hæstv. ríkisstj., séu svo mörg atriði húsnæðismálanna þó enn illa á vegi stödd, að það sé full ástæða til þess, að þingheimur reyni allt, sem unnt er, til þess að ráða á því bót.

Hv. 4. þm. Vestf. sagðist ekki skilja nokkra liði þáltill. Hann sagðist t.d. ekki skilja 3. lið hennar. En þó held ég, að það hafi komið fram af máli hans síðar, að hann skildi mætavel, hvað þar var um að ræða og skildi það algerlega rétt. Hann sagði hins vegar, að fjármagnið væri takmarkað og það er alveg rétt og þess vegna væri ekki hægt að gera allt, sem menn þó viðurkenndu að þyrfti að gera. En ég nefni þennan lið vegna þess, að ég tel, að hann mundi á margan hátt vera hagkvæmari og ódýrari til þess að leysa húsnæðisvandamálin í ýmsum atriðum heldur en lán til nýbyggingar íbúða. Þess vegna bendi ég á hann, ekki vegna þess að mér sé ekki ljóst, að jafnframt þarf að veita lán til nýbyggingar.

Það er alveg rétt, sem hann sagði, að byggingarvísitalan segir ekki alla söguna. Hún segir vissulega mikla sögu, en hún segir náttúrlega ekki allan sannleikann. Það þarf að athuga, eins og hann benti á, margt annað, t.d. kaup og kjör fólksins. Og hann upplýsti það, sem við raunar vissum, að byggingarkostnaðurinn og vísitalan hefur hækkað um 77% frá því 1958, en kaupið hefur ekki hækkað tilsvarandi. Verkamannakaup hefur ekki hækkað síðan 1958 nema um rúm 50%, svo að það er þó augljóst, að þrátt fyrir þessa lánahækkun eru menn í miklum erfiðleikum og meiri að byggja yfir sig eftir en áður.

Hann minntist á ákvæðin um lækkun byggingarkostnaðar og taldi, að þau væru dauður bókstafur, sem ég hafði raunar áður tekið fram, svo að um það erum við sammála. Ég held þó, að ákvæðin sjálf séu ekki neinar hömlur fyrir því, að endurbætur fáist í þessu efni, heldur hitt, að það hefur ekki verið tryggt nægilegt fjármagn eða visst fjármagn til að framkvæma það, sem þar um ræðir. Og þess vegna tel ég, að það sé alveg rétt, sem hv. 4. þm. Vestf. sagði, að það er það fyrst og fremst, sem þarf til að koma, að sú stofnun, sem þetta verkefni er falið, hafi til þess ákveðið fjármagn, sem henni beri að verja í þessu skyni. Og í því sambandi vil ég leyfa mér að benda á það, að á þingi 1960, þegar ég var hér um stundarsakir sem varamaður, flutti ég einmitt frv. um sérstaka fjáröflun til þess að kosta rannsóknir til lækkunar á byggingarkostnaðinum. Þetta frv. var fellt af hv. stjórnarliðum. Ég held, að með þeim skilningi, sem málsvarar hæstv. ríkisstj., hv. 4. þm. Vestf. o.fl., hafa nú á þessu máli, mundi þetta frv., ef það væri borið fram í dag, ná samþykki. Og ég held, að það sé m.a. þetta, sem þessi þáltill., sem hér um ræðir, gerir ráð fyrir, að í því skyni að lækka byggingarkostnaðinn séu virkilega lagðir til hliðar fjármunir, sem í það eigi að fara.

Ég skal svo ekki, herra forseti, vera að lengja þessar umr., því að við, sem hér höfum tekið til máls um þessa till., erum henni í öllum meginatriðum sammála og ég vil taka það fram, að eins og hv. 4. þm. Vestf. efast ekki um minn góða vilja í málinu, þannig efast ég ekki heldur um hans.