07.04.1965
Sameinað þing: 40. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í D-deild Alþingistíðinda. (2992)

99. mál, lánveitingar til íbúðarbygginga

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil nú gefa svipaða yfirlýsingu og tveir hv. síðustu ræðumenn, að ég skal ekki að óþörfu teygja lopann um þetta mál, enda hafa gefizt næg tækifæri undanfarna daga til að ræða það í Ed. Alþ., og hv. Nd. á einnig eftir að fjalla um þessi mál verulega. Ég vil aðeins í sambandi við sjálft formið á þessari till., sem hér liggur fyrir, sem fer í fyrsta lagi fram á endurskoðun þessara mála, skýra hug minn til þess hluta till.

Ég hygg, að það hafi komið fram í umr. hér í fyrravetur um þessi mál þá, að þá stóð yfir og stóð yfir reyndar hátt í 5 mánuði á vegum húsnæðismálastjórnar endurskoðun þessara laga. Í húsnæðismálastjórn eiga fulltrúar allra þingflokka sæti og gátu þar komið að sínum sjónarmiðum og endanleg niðurstaða þeirrar endurskoðunar var send hæstv. ríkisstj. með nál. öllum, þau voru þrjú, þannig að gefizt hefur kostur á því að fá fram sjónarmið a.m.k. allra þingflokkanna um þessi mál. Það er einnig á það að benda, að samstarf í húsnæðismálastjórn um framkvæmd l. hefur af þessum allra flokka mönnum verið með ágætum. Og það hefur yfirleitt verið einróma álit okkar, að okkur hafi ekki skort góðan vilja og samvinnuhæfni til þess að vinna að þessum málum, þótt engum sé ljósara, en okkur sjálfum, að margt mætti þar betur fara. En til þess liggja aðrar ástæður en þær, að þar hafi ekki ríkt ágætt samstarf. Ég hygg því, að það, sem sé fyrst og fremst naglhald í, í sambandi við umr. um þessi mál. séu meiri fjárveitingar til þessara hluta, það er að gera þær greinar laganna og þær greinar frv., sem hér liggur fyrir Alþ., raunhæfari en raun ber vitni um. Og við höfum heyrt, að þeir hv. ræðumenn, sem um þetta mál hafa fjallað nú, séu einnig sammála um það. En spurningin kemur þá alltaf aftur, sú hin sama: Hvar á að taka þetta viðbótarfé? Mér hefur virzt af þeim umr., sem þegar hafa farið fram hér á hv. Alþ. um það frv., sem liggur fyrir í Ed., að nægjanlega erfiðlega gangi að koma fram þar þeim tekjuöflunum, sem eiga að tryggja þá fjármuni, sem gert er ráð fyrir í frv. nú, hvað þá ef farið yrði lengra í þeim efnum. Það hvílir nefnilega sú skylda á mér og öðrum, sem hækkunartill. gera í þeim efnum, að láta ekki einungis í ljós óskhyggjuna um meira fé, heldur hvar eigi að taka það. Og um það væri gott að fá fram álit manna, hvar ætti næst að bera að garði um aukið fé til ráðstöfunar í þessu skyni.

Það greinir heldur enga á um það, eins og fram kom hjá hv. 11. þm. Reykv., að það væri mjög æskilegt að geta lánað til endurbóta á eldra húsnæði. Það mætti áreiðanlega oft koma í veg fyrir það, að tilteknar fjölskyldur legðu út í nýbyggingar, ef þær fengju lán til hóflegra og hæfilegra endurbóta á því húsnæði, sem þær þá eiga. En allt frá því að l. voru sett og þær tvennar eða þrennar endurbætur, sem átt hafa sér stað á l. síðan, hefur þrátt fyrir aukið fé í hvert skipti, aldrei verið leyft, að út í frekari fjárveitingar til annarra hluta, en nýbyggingar væri hægt að komast. Vandinn hefur því verið nákvæmlega sá sami í hugsanlegri fjárútvegun til rannsóknarstarfsemi og lækkun á byggingarkostnaði, eins og til þess að lána á enn breiðara grundvelli, en gert hefur verið, það hefur skort til þess fé.

Ég vil undirstrika það með hv. ræðumönnum báðum, 4. þm. Vestf. og 11. þm. Reykv., að grundvöllurinn að öllum hugsanlegum endurbótum á byggingarháttum landsmanna verður fyrst og fremst að hvíla á aukinni rannsóknarstarfsemi. Til þessara mála hefur verið of lítið aflögu hjá húsnæðismálastjórn. Þó hefur hún af vanmætti sínum og fjárhagslegum erfiðleikum látið til þessara mála, í tilraunastarfsemi og rannsóknarstarfsemi, á undanförnum árum 2.4 millj. kr. og ákvað nú fyrir skömmu að láta til byggingarefnarannsóknardeildar háskólans 400 þús. kr. í ár og líkur eru á, að þar sé aðeins um byrjun að ræða.

Ástæðan til þess, að ég minnist á þessi atriði hér, er ekki sú, að þau hafi ekki komið að einhverju leyti fram í þeim ræðum, sem hér hafa verið fluttar og hljóta að koma fram í þeim ræðum og þeim umr., sem hér eiga eftir að vera um þessi mjög svo viðamiklu mál. En ástæðan er miklu fremur sú, að ég vil draga fram þessi höfuðgrundvallaratriði. Það er út af fyrir sig ágætt að berjast fyrir því, að lán séu hækkuð, að lánakjör séu bætt. Hitt er þó höfuðnauðsyn og ég vil segja, að ætti að sitja í fyrirrúmi að byggingarkostnaðurinn sjálfur verði lækkaður, að þau lán, sem af hálfu hins opinbera eru veitt í þessu skyni, verði nýtt betur með lækkuðum byggingarkostnaði og lækkuðum húsnæðiskostnaði. Þar á ég við rekstur húsnæðisins alls, bæði afborganir og daglegan rekstur, að hann verði lækkaður frá því, sem verið hefur. Hann er óhóflegur, miðað við launakjör almennings í landinu og tekur langtum stærri hluta af launakjörum almennings hér, en hann gerir víðast hvar erlendis. Ég mundi því segja, að það væri fórnandi allhárri upphæð af útlánagetu húsnæðismálastofnunarinnar til þess að fá þennan grundvöll lagðan að lækkuðum byggingarkostnaði. Að því atriði þyrftum við að snúa okkur og ég held, að til þess séu nægar heimildir í núgildandi l. og endurskoðun sem slík á þessum málum mundi ekki betrumbæta þá hlið málsins, því að heimild, eins og ég áðan sagði, skortir ekki til athafnanna, það skortir heldur fjármunina, aflgjafann í þeim framkvæmdum. Ef um endurskoðun ætti að vera að ræða, ætti hún að mínu viti langtum frekar að snúast um það, hvar ætti að auka tekjur húsnæðismálastjórnar frá því, sem nú er og nú er lagt fyrir í núv. frv., en við þurfum ekki endurskoðun á almennum heimildum 1l. Til þess eru þær nógar í dag.