21.04.1965
Sameinað þing: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í D-deild Alþingistíðinda. (3003)

112. mál, svæðaskipulagning

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Till. til þál. um svæðaskiptingu er á þskj. 229 og er Unnar Stefánsson 1. flm. hennar. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta undirbúa og leggja fyrir næsta Alþ. frv. til l. um kerfisbundna svæðaskipulagningu í öllum landsfjórðungum.“

Unnar Stefánsson hefur flutt mál þetta nokkrum sinnum í ýmsu formi á undanförnum þingum. Nú virðist vera vaxandi áhugi á áætlanagerð og skipulagningu, aðallega í atvinnu- og framkvæmdamálum og er því ástæða til að ætla, að þessi till, sé nú enn tímabærari en áður.

Núverandi ríkisstjórn hefur látið gera víðtækar framkvæmdir á tilteknum svæðum með það fyrir augum að byggja þessi svæði upp, þó að oft hafi ekki verið gerðar heildaráætlanir um þær aðgerðir. Nægir að benda á vega- og hafnarframkvæmdir á Snæfellsnesi sem dæmi um þetta. Nú hefur ríkisstj. stigið einu skrefi framar og látið gera víðtæka áætlun um framkvæmdir á Vestfjörðum, Vestfjarðaáætlun svonefnda og hefur þegar verið birtur einn kafli hennar, sá er fjallar um samgöngumál. Þarf ekki að efast um, að á eftir munu fleiri slíkar áætlanir koma og þessi starfsaðferð verði í framtíðinni mikið notuð til þess að byggja upp atvinnulíf og bæta lífabaráttu fólksins á einstökum svæðum. Er því ástæða til að láta athuga vandlega, hvort ekki er rétt að setja löggjöf um þau mál og búa þannig til ramma, sem hægt væri að hagnýta í hvert skipti, sem verkefnin kalla. Virðist því vera tími til þess kominn að samþykkja tillögu eins og þessa og láta fram fara ýtarlega athugun á þessum málum, sem væntanlega leiddi þá til þess, að sett yrði löggjöf um þau.

Herra forseti. Ég legg til, að málinu verði vísað til allshn.