17.03.1965
Sameinað þing: 32. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í D-deild Alþingistíðinda. (3015)

124. mál, tækniaðstoð við nýjungar í vinnslu og veiði sjávarafla

Flm. (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Á þskj. 250 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um tækniaðstoð við nýjungar í vinnslu og veiði sjávarafla, en tillgr. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fram fara ýtarlega rannsókn á því, með hvaða hætti bezt verði stuðlað að auknum nýjungum í veiði og vinnslu sjávarafurða. Við rannsókn þessa verði lögð sérstök áherzla á þá athugun, með hvaða hætti bezt verði séð fyrir framhaldi á tilraunum innlendra aðila í smíði véla og tækja til veiði og vinnslu sjávarafurða.“

Frá því að till. þessi var lögð fram hér á hv. Alþ. fyrir um það bil 8 vikum, hefur hæstv. ríkisstj. ákveðið að beita sér fyrir verulegri tollalækkun á innfluttum fiskiðnaðarvélum, sem að sjálfsögðu er verulega til hagsbóta fyrir alla þá aðila, er við fiskverkun fást og þá ekki sízt þegar horfzt er í augu við þær staðreyndir, að mannaflsskorturinn virðist ávallt mestur, þegar mest berst að af afla, með þeim augljósu afleiðingum, að þá verður tjónið af þessum völdum einnig mest. Með þessari ákvörðun hæstv. ríkisstj. um tollalækkun á innfluttum vélum til fiskiðnaðar hefur tvímælalaust verið stigið eitt merkilegasta skref síðari ára til betri nýtingar sjávaraflans í landi. Óleystur er þó eftir sem áður hinn mikli vandi íslenzkra hugvitsmanna, sem helgað hafa að meira eða minna leyti starfskrafta sína því að fullkomna erlendar uppfinningar í véltækni fiskiðnaðarins, miðað við íslenzkar aðstæður, að ekki sé minnzt á þá, sem gert hafa tíma- og fjárfrekar tilraunir, sem að lokum hafa sannað tilverurétt sinn í raun og eru algerlega íslenzkar frá grunni. Á þessar hugmyndir er drepið í grg. till, og sakar ekki, þótt nefndar verði hér. En það er í fyrsta lagi flotvarpan, línulagningarennan, handfæravélin, línumatið, beituskurðarvél. þorskhausunarvél, síldarflokkunarvél og síldardæla, auk síldarflökunarvélar, sem fullkomnuð hefur verið hér með mjög góðum árangri. Hinar framantöldu vélar og tæki, sem þegar hafa sannað ágæti sitt í reynd, eiga þó að sjálfsögðu fyrir sér að fullkomnast enn betur, þegar tímar líða fram. Þá hefur einnig vitnazt, að í undirbúningi og tilraunum séu fiskspyrðingarvél og fiskþvottavél og jafnvel línubeitingarvél. Flestar þessar uppgötvanir íslenzkra hugvitsmanna hafa notið nokkurs fjárhagslegs stuðnings fiskimálasjóðs og síldarútvegsnefndar og eiga þeir aðilar verulegar þakkir skildar fyrir þá aðstoð, því að án hennar hefðu ýmis þessara tækja enn ekki séð dagsins ljós.

Nú er á allra vitorði, að fyrrgreindir aðilar hafa yfir takmörkuðu fé að ráða, er þeir geta til þessara hluta varið og jafnframt er þeim vart mögulegt að veita slíka fjárhagslega aðstoð í formi lána eða styrkja, fyrr en nokkur reynsla er af tækinu fengin. Óhjákvæmileg afleiðing þessa er, að of fáar hugmyndir hinna íslenzku hugvitsmanna fá að komast í hina raunverulegu reynslu vegna persónulegs fjárskorts þeirra, sem að því standa. Ekki kjósum við hér á hv. Alþ. menn í stjórn fiskimálasjóðs eða síldarútvegsnefnd með sérstakri hliðsjón af því, að þeir séu tæknimenn í vélvæðingu fiskiðnaðarins, enda er þeim ætlað annað aðalstarf samkv. l. um þessar stofnanir. Það er því mín persónulega skoðun, að vel komi til athugunar að setja upp eins konar tækniverkstæði, með eða án sérstakrar tæknistjórnar, er þrautprófaði hugmyndir hinna ýmsu íslenzku hugvitsmanna og felldi úrskurð um hæfni tækjanna og benti á ágalla þeirra og með hvaða hætti mætti fullkomna tækin. Jafnframt þessum prófunum tækjanna gæti slíkt verkstæði orðið fyrrnefndum aðilum, t.d. fiskimálasjóði og síldarútvegsnefnd, sem hér hefur verið nefnd, eða öðrum þeim stofnunum, sem lánuðu fé til þessara hluta, tæknilegur leiðbeiningaraðili um mat á lánshæfni. Í beinu framhaldi af fyrrgreindri tollalækkun á innfluttum fiskiðnaðarvélum ætti einnig að koma aukinn fjárhagslegur stuðningur við þetta stórmerka starf íslenzkra hugvitsmanna. Aukið fé er þó ekki einhlítt, ef þess er ekki kostur að fá fram raunhæft mat og prófun á gildi uppfinninganna.

Ekki verður mér svo tíðrætt um íslenzka hugvitsmenn í þessu sambandi vegna þess, að störf þeirra taki fram erlendum uppfinningum, sem kostað hefur verið stórfé til, jafnvel svo að milljónum skiptir og ekkert til sparað, heldur er ástæðan hin, að þeir miða störf sín og framkvæmdir við íslenzka staðhætti, sem um flest eru verulega frábrugðnir staðháttum erlendis. Til stuðnings þessari skoðun minni nægir að benda á hinar fjölmörgu breytingar, er þeir hafa þurft að gera og gert á mörgum hinna innfluttu tækja með mjög góðum árangri, enda þekkja þeir bezt til um hinar íslenzku aðstæður.

Síðan till. þessi kom fram hér á hv. Alþ., hef ég fengið send allmörg bréf og átt viðtöl við ýmsa þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli og eru þeir einróma um nauðsyn þess, að till. þessi nái fram að ganga, þannig að opinber rannsókn fari fram á því, með hvaða hætti bezt verði séð fyrir áframhaldi á starfi íslenzkra hugvitsmanna í þessum efnum. Hér er um stórkostlegt þjóðhagsmál að ræða, miðað við sérstöðu Íslands í útflutningi og staðháttum öllum. Í þessu sambandi nægir að benda á mikilvægi síldarflokkunarvélanna s.l. sumar, en fróðustu menn fullyrða, að án tilkomu þeirra hefði aðeins verið saltað brot af þeim afla, sem á land barst og þó var saltað, vegna þess hve síld var blönduð og ógerlegt með handafli einu saman að flokka hana í sundur, bæði vegna mannaflsskorts og eins vegna þess, hve langan tíma það hefði tekið.

Framangreind atriði ásamt fjölmörgum öðrum sanna, að enginn kostur er að meta til fjár þessi störf, en án allra öfga skiptir tilkoma þessara véla, sem fundnar hafa verið upp af íslenzkum aðilum, áreiðanlega milljónum, ef ekki milljónatugum og nægir í því sambandi einu að vitna til s.l. sumars. Með hliðsjón af framansögðu eru það einlæg tilmæli mín, að till. þessi um þessa rannsókn fái greiðan framgang hér á hv. Alþ.

Herra forseti. Ég legg til að, að loknum umr. nú verði umr. frestað og málinu vísað til hv. allshn.