17.03.1965
Sameinað þing: 32. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í D-deild Alþingistíðinda. (3020)

124. mál, tækniaðstoð við nýjungar í vinnslu og veiði sjávarafla

Flm. (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég fagna. innilega þeim undirtektum, sem þessi till. mín til þál. hefur fengið hjá hv. ræðumönnum, sem hér hafa talað, síðan ég flutti mína frumræðu. Ég vil vænta þess, að einlægur vilji liggi að baki orðum þeirra allra um, að úrbætur fáist á þessu sviði og hef það fyrir satt, þar til annað kynni að reynast, sem ég vænti að ekki verði.

Varðandi þá till. hv. 5. þm. Reykv., að hér yrði aukið athafnasvið stjórnar fiskimálasjóðs, þá vildi ég aðeins minna á það, sem ég sagði í minni frumræðu um það. Ég þakkaði það stjórn fiskimálasjóðs, fiskimálanefnd, eins og hún hét í upphafi og síldarútvegsnefnd, að margar af þeim tilraunum, sem séð hafa dagsins ljós í reynd, hafa náð fram að ganga, það væri til komið vegna stuðnings þeirra. Hins vegar er það ofur augljóst hverjum, sem fylgzt hefur með gangi mála í sjávarútvegsmálum, eins og svo mörgum öðrum hjá okkur, að þar hafa orðið stórfelldar og stórstígar breytingar, þótt ekki sé farið aftur um 30 ár, eins og hv. þm. minntist á, að þá hefði verið ákveðið í hlutverki þessarar stofnunar. En hvað sem því líður og hver sem endanleg niðurstaða hv. nefndar, sem þetta mál fær, kann að verða í þessum efnum, þá vænti ég þess, að um það verði samstaða, að úrbætur fáist í þessum efnum, svo mjög sem það hefur sýnt sig að vera arðbært fyrir þjóðina að stuðla að nýjungum og bættri tækni í þessum efnum, ekki sízt þegar hliðsjón er af því höfð, hve mannaflsskorturinn hefur verið okkur erfiður og þá erfiðastur, þegar mest berst að af afla og mest verðmæti eru í húfi. Ég treysti fullkomlega hv. n. til að ráða þessum málum svo til lykta, að þjóðinni megi verða til heilla í þessum efnum, en það er bakgrunnur þeirrar till., sem ég hef hér flutt.