17.03.1965
Sameinað þing: 32. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í D-deild Alþingistíðinda. (3021)

124. mál, tækniaðstoð við nýjungar í vinnslu og veiði sjávarafla

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins í tilefni af því, sem hv. 5. þm. Reykv. (ÞÞ) sagði í sambandi við það, að e.t.v. væri rétta skrefið í þessum efnum að efla fiskimálasjóð og fela honum þetta hlutverk, þá vildi ég aðeins lýsa því sem skoðun minni, að enda þótt þessi sjóður og fiskimálanefnd á sínum tíma eigi miklar þakkir skilið fyrir frumkvæði, sem þessir aðilar höfðu í ýmsum efnum og stuðning sérstaklega við tilteknar rannsóknir, þá held ég, að þetta sé ekki sú leið, sem æskilegast væri að fara, miðað við nútíma aðstæður.

Ég er ekki í neinum efa um, að það kemst aldrei æskileg skipan á þessi mál, fyrr en sérstakri stofnun, sem gæti ráðið til sín sérfræðinga um þessi tæknilegu atriði, verður falið að vinna að staðaldri að þessum málum og fengið hóflegt fjármagn til að starfa. Það er því enginn efi á því, að þetta er það, sem hlýtur að koma og ég held, að það sé ekki nema til að seinka því, sem hlýtur að koma og á að koma, ef ætti nú að fara að fela einhverjum aðila, jafnvel þótt góður sé, að hafa þessi mál að einhverju leyti með höndum til hliðar við sitt aðalverkefni. Þetta verður að vera í höndum stofnunar, sem lítur á það sem sitt eina og stóra verkefni að sinna þessum málum. Þau eru fjölþætt og það er mikið í húfi, að þeim sé vel sinnt.

Þess vegna vil ég leggja á það ríka áherzlu enn einu sinni, að sérstök stofnun verður að koma, sem hefur þessi mál öll í sínum höndum. Hitt er svo mjög til athugunar og er sennilega eðlilegast, að löggjöf um slíka tæknistofnun sjávarútvegsins falli inn í heildarlöggjöfina um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, ef sú löggjöf kæmist þá á hér á hv. Alþingi. En það hefur gengið heldur erfiðlega að fá því lagafrv. þokað áfram. Þetta er stjórnarfrv., sem hefur legið fyrir a.m.k. þremur eða fjórum þingum nú að undanförnu og það hefur legið fyrir þessu þingi, var eitt af fyrstu frv., sem fram voru lögð og það er ekki enn komið úr n. í fyrri d. En fari svo, að því frv. þoki nú áfram og líkur séu til þess, að það nái fram að ganga, þá teldi ég mjög eðlilegt, að það sé athugað í sambandi við þær till. um tækniþjónustu fyrir sjávarútveginn, sem hér hafa verið til umr., að fella löggjöf um það efni inn í þessa heildarlöggjöf um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. En þó að það yrði gert, þá skiptir að mínu viti höfuðmáli, að þannig verði frá þeirri löggjöf gengið, að tæknistofnun sjávarútvegsins verði a.m.k. mjög fljótlega algerlega sjálfstæð deild, en hún verði ekki, þessi fjölþætta og mikilvæga starfsemi, falin einhverri annarri deild og það verði eins konar aukahlutverk annarrar deildar, sem hefði allt önnur höfuðviðfangsefni.

Þetta tel ég aðalatriði málsins, en að því fullnægðu væri mjög eðlilegt, að löggjöfin um tæknistofnun sjávarútvegsins félli inn í heildarlöggjöfina um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.