17.03.1965
Sameinað þing: 32. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í D-deild Alþingistíðinda. (3033)

127. mál, útfærsla fiskveiðilandhelginnar fyrir Vestfjörðum

Flm (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 3. þm. Vestf. (SE) að flytja till. til þál. um útfærslu fiskveiðalandhelginnar fyrir Vestfjörðum. Það mun hafa verið hinn 11. febr., sem till. var útbýtt hér á hv. Alþ. og er því liðið nokkuð á annan mánuð, síðan hún var flutt og það er því ekki vonum fyrr, að hún komi til umr. Till. er á þskj. 254 og er hún þannig orðuð, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að breyta reglugerð þeirri um fiskveiðalandhelgi, sem sett er skv. l. nr. 44 frá 5. apríl 1948, um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, þannig að fiskveiðalandhelgin fyrir Vestfjörðum taki til vestfirzka landgrunnsins alls, austan frá Húnaflóa og suður á Breiðafjörð. Breyting þessi á fiskveiðalandhelginni fyrir Vestfjörðum taki gildi eigi síðar en 15. okt. 1965.“

Það er auðvitað öllum hv. þm. ljóst, að með þessari till. er hreyft því máli, er grundvallarþýðingu hefur fyrir lífsafkomu fólksins, sem Vestfirðina byggir. Málið er því stórmál. a.m.k. í augum allra hugsandi Vestfirðinga, og það tel ég fjarstæðu, að afstaða manna í þeim landshluta til slíks máls eigi eða megi mótast af flokkspólitískum sjónarmiðum. Mér urðu það því mikil vonbrigði, þegar það kom í ljós, að engir af stuðningsmönnum stj. í liði Vestfjarðaþm. fengust til að gerast meðflm. að till., en eftir því var þó vissulega leitað. Hefði eitthvað í búningi till. eða orðalagi verið því til fyrirstöðu, að þeir gætu staðið að flutningi hennar, mundi það auðvitað hafa verið auðsótt mál að koma til móts við þá um breytingar, svo að þeir gætu orðið með, en þeir báru slíkt alls ekki fyrir sig. Á þeim mátti öllum heyra, að þeim væri synjað um aðild að slíkri till. af forustu Sjálfstfl. og Alþfl. Einn þeirra tjáði mér, að hann hefði leitað fast eftir því að mega vera meðflm. að till., en fengið þvert nei. Annar þeirra kvaðst vita, að hann fengi ekki heimild síns flokks til að standa að flutningi slíkrar till., en hann áliti málið samt svo mikils vert, að hann teldi rétt, að það væri þrátt fyrir það flutt inn í þingið.

Þannig voru undirtektir samþingismanna minna í Vestfjarðakjördæmi, þegar málið var lagt fyrir þá. Aðdróttanir á opinberum vettvangi um, að við flm. séum sekir um að nota landhelgismálið til áróðurs innanlands og til framdráttar einstaklingum eða flokkum, eins og það var orðað í forustugrein í Morgunblaðinu 14. febr. s.l., eru því í senn ómaklegar með öllu og ósannar sakargiftir.

Í þessum geðvonzkuleiðara Morgunblaðsins 14. febr. segir, að við höfum hent fram till. um að skipa ríkisstj. að breyta landhelginni þannig, að hún taki til landgrunnsins alls fyrir Vestfjörðum frá 14. okt. n.k. og þetta allt án þess að tillögumenn hafi ráðfært sig við nokkurn mann, sem sérþekkingu hafi í landhelgismálum og þjóðarétti. Svo mörg voru þau orð. En málið var þó borið undir hv. forseta Nd. og einnig hæstv. forseta Sþ. og stendur það því sem fullyrðing Morgunblaðsins, en ekki mín, að þeir séu þekkingarsnauðir í landhelgismáli og þjóðarétti. Hverjir þessir þjóðréttarfræðingar, sem bera hefði átt málið undir, kunna að vera, það er mér ekki fullljóst.

Till. er orðuð á venjulegan og fullkomlega þinglegan hátt. Upphaf till. er svo: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj.“ — og síðan áfram: „að breyta reglugerð þeirri, sem fiskveiðalandhelgin, sem sett hefur verið skv. lögunum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins,“ o.s.frv., fela ríkisstj. að setja reglugerð á grundvelli gildandi laga. Og til þessa er ríkisstj. ætlaður mjög rúmur tími, nefnilega fullir sjö mánuðir og mætti ætla, að henni entist sá tími og þá hugsanlegt, ef hún bæði um hann lengri, af einhverri ríkri nauðsyn, að fallizt hefði verið á að breyta því ákvæði till. Orðin „að henda fram“ og „að skipa ríkisstjórninni“ eru því Morgunblaðshæverska, sem því einu málgagni hæfir um slíkt stórmál sem hér er um að ræða.

Í umræddri forustugrein Morgunblaðsins segir, að í slíku máli beri að leitast við að hafa sem víðtækasta samvinnu. Var það nú ekki einmitt það, sem gert var, þótt slíkri samvinnu væri hafnað? En hverra sök er það? Ég segi: A.m.k. ekki okkar flm., sem samvinnu leituðum um málið, svo mikið er víst. Hitt er aldrei nema hárrétt, að um slíkt mál sem þetta á að reyna að fá sem fullkomnasta samvinnu. Það hefur verið gert.

Enn segir leiðarahöfundur Morgunblaðsins, hver sem sá ágæti maður er, hvort sem hann er Vestfjarðaþm. eða ekki, hann segir 14. febr., að ekkert megi gera í landhelgismálinu, nema það sé áður grandskoðað af færustu sérfræðingum stjórnarinnar, sem séu, eins og þar stendur, meðal hinna fremstu í heimi, enda hafi þeir sýnt, að þeir hafi bæði vit og þroska, gengið undir ýmiss konar gáfnapróf, til þess að koma málum okkar áleiðis. Ja, það er ekki ónýtt að eiga fremstu sérfræðingum heimsins í landhelgismálum á að skipa, gæddum viti og þroska til þess að koma málum okkar áleiðis og örugglega í höfn. Hún er ekki blönk á þessu sviði, hæstv. ríkisstj. Og er þá ekki tímabært að koma þessu stórmáli í slíkar heillahendur hæstv. ríkisstj. og heimsfrægra sérfræðinga hennar? Það er einmitt það, sem fyrir okkur flm. till. vakir og nálega eiginlega ekkert annað, en trúa þeim fyrir málinu og við héldum ekki, að það væri ástæða til að óskapast yfir slíku.

Hver er að ganga fram hjá þessum sérfræðingum? Ekki við flm. Við leggjum það eitt til, að hæstv. ríkisstj. Íslands sé falið að gera nauðsynlegar aðgerðir í málinu og líklegast er ekki hætta á, að hún láti það henda sig að ganga fram hjá fremstu sérfræðingum í heimi í landhelgismálinu, fyrst hún að sögn Morgunblaðsins hefur slíkum spekingum á að skipa. Ég get ekki ætlað henni það, svo að málinu ætti ekki að vera stofnað í neinn voða.

Morgunblaðsritstjórinn segir, að við höfum unnið stórsigra í landhelgismálum og víst er um það. Og síðan bætir hann við: ekki sizt með samkomulaginu við Breta. Ja, þar kom það! Og einskis vil ég fremur óska en það ætti eftir að sannast rækilega í sambandi við umr. um þetta mál, að með því samkomulagi hafi stórsigur unnizt fyrir okkur Íslendinga. Sá atburður verður vafalaust ræddur eitthvað í þessum umr.

Það er tvítekið í þessum Morgunblaðsleiðara, að það sé margyfirlýst stefna, að við munum keppa að því að friða landgrunnið allt. Einnig er það viðurkennt, að auðvitað, eins og þar stendur, þurfum við friðunar við, bæði fyrir Vestfjörðum og annars staðar, enda sé að því unnið og því takmarki munum við ná, þegar tímar líða, bara ekki vera of bráðlát. Eftir þessu mætti ætla, að Morgunblaðið væri okkur flm. till. hjartanlega sammála og teldi hana a.m.k. tímabæra og einnig mætti ætla, að það fagnaði, að hún væri fram komin, þar sem hún styddi og hreyfði við yfirlýstri stefnu ríkisstj. um að vinna að slíku máli, — máli, sem hún gerði sér og stuðningsmenn hennar og málgögn fyllstu vonir um, að hægt yrði að leiða til lykta — að vísu ekki nú, heldur eins og það var orðað í blaðinu, þegar tímar líða.

En eins og menn hafa nú þegar heyrt að nokkru, fer fjarri því, að Morgunblaðið fagni fram kominni till. um þetta sjálfsagða stefnumál stjórnarinnar. Nei, ritstjórinn verður allt í einu hvítglóandi af bræði út af flutningi slíkrar till. og stimplar tillöguflutninginn með einu orði: „Afglapaháttur“, og það er einmitt yfirskrift þessa margnefnda Morgunblaðsleiðara um landhelgismálið, orðið „Afglapaháttur“. Ég held, að þessi fyrirsögn á leiðara í höfuðmálgagni ríkisstj., Morgunblaðinu, sé eiginlega ágætur stimpill á menningarlega stöðu þessa málgagns í opinberum umr. um mál. Ég held, að það ætti að setja þetta í hausinn á blaðinu: Afglapaháttur. Hvað sem um það er, þannig er orðbragð þessa stærsta blaðs þjóðarinnar, blaðs hæstv. forsrh., þegar það skrifar um eitt allra þýðingarmesta mál þjóðarinnar, ég vil segja í nútíð og framtíð, landhelgismálið. Ég læt svo hv. þm, um það að dæma um, hvort slíkur ritháttur muni nú fremur vera til vansæmdar blaðinu eða þeim, sem atyrtir eru.

Nú skal ég láta Morgunblaðið og þess siðprúða og menningarlega munnsöfnuð í sambandi við þetta mál liggja milli hluta og snúa mér að efni till. og öðrum þáttum landhelgismálsins, sem ég tel rétt að víkja að í leiðinni.

Það byggist á lífsnauðsyn Vestfirðinga, eins og mál hafa þróazt hin síðari ár, að þessi till. er flutt. Það verður aldrei með sanni sagt, að hún sé fram borin að ófyrirsynju. ólund eða afbrýðisemi yfir því, að málinu er nú hreyft, á því engan rétt á sér frá neinu sjónarmiði. Lög um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins marka því algerlega svið, hvernig hægt er yfirleitt að taka landhelgismálið upp. Það verður einungis gert með ályktun Alþ. um að fela ríkisstj. á hverjum tíma að breyta reglugerð þeirri um fiskveiðalandhelgina, sem sett er á grundvelli þeirra laga og sú er líka málsmeðferðin samkv. þessari till. og sú hefur málsmeðferðin verið alla tíð, þegar einhverjar aðgerðir hafa verið uppi í landhelgismálinu, eftir að lög um vísindalega verndun fiskimiðanna á landgrunninu voru sett. Þessar staðhæfingar mínar verða ljósar hverjum manni, sem les 1. gr. l. um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, en hún er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjútvmrn. skal með reglugerð ákveða takmörk verndarsvæða við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins, þar sem allar veiðar skuli háðar íslenzkum reglum og eftirliti, enda verði friðun á landgrunninu á engan hátt rýrð frá því, sem verið hefur. Ráðuneytið skal einnig ákveða allar þær reglur, sem nauðsynlegar eru til verndar fiskimiðunum á ofangreindum svæðum. Ráðstafanir þessar skulu gerðar að fengnum till. Fiskifélags Íslands og atvinnudeildar Háskóla Íslands. Reglugerðin skal endurskoðuð, eftir því sem vísindalegar rannsóknir gefa tilefni til.“

Þessi lög voru á sínum tíma samþ. einróma á Alþingi og þau hafa alltaf síðan verið sá grundvöllur, sem byggt hefur verið á, þegar ráðstafanir hafa verið gerðar til aukinnar friðunar fiskistofna við landið eða til stækkunar íslenzkrar fiskveiðalandhelgi. Það hefur, held ég aldrei verið umdeilt meðal Íslendinga, að með landgrunnslögunum lýstu þeir yfir óskoruðum rétti sínum til landgrunnsins alls. Með þessum lögum var ótvírætt lýst yfir, að íslenzka landgrunnið hyrfi undir íslenzka lögsögu, alveg á sama hátt og landið sjálft og skyldi sjútvmrn. með setningu reglugerða, ákvarða allar reglur, sem þar skyldu gilda á hverjum tíma um fiskveiðar innan endimarka landgrunnsins, svo og um víðáttu fiskveiðalandhelginnar hverju sinni.

Á þessum lögum var byggt árið 1950, þegar rýmkun var gerð á fiskveiðalögsögunni á nokkrum einstökum stöðum fyrir Norðurlandi, og auðvitað var það gert, eins og nú er lagt til, með því að fela, ríkisstj. að setja ný reglugerðarákvæði um fiskveiðamörkin á þessum svæðum.

Á lögunum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins var einnig byggt, þegar grunnlínum var breytt og fiskveiðalandhelgin stækkuð úr þremur mílum í fjórar með setningu reglugerðar nr. 21 frá 19. marz 1952. Gert með sama hætti, segi ég, þ.e.a.s. þessi breyting, sem þá var framkvæmd, var gerð með einhliða tilkynningu íslenzka sjútvmrn., en þar sat þá, held ég, á húsbóndastóli Ólafur Thors og þess skyldu menn minnast í þessu sambandi, að þá var ekki til nein þjóðréttarleg viðurkenning á fjögurra mílna fiskveiðalandhelgi, en samt dirfðist þessi forustumaður okkar og íslenzka þjóðin að stíga þetta skref á grundvelli þess réttar, sem við sjálfir töldum okkur eiga sem strandríki.

Bretar ruku þá að vísu upp til handa og fóta og mótmæltu. Þeir töldu þessar aðgerðir Íslendinga vera brot á þjóðarétti, brot á alþjóðalögum, eins og þeir sögðu og kröfðust þess, að Íslendingar tækju upp samninga um víðáttu íslenzku landhelginnar. En því var þá af þáv. ríkisstj. algerlega neitað, þverlega neitað, engin hneiging fyrir þeirri fullyrðingu, að við værum að brjóta alþjóðalög.

Ríkisstj. Íslands svaraði með orðsendingu til Bretastjórnar og er sú orðsending dagsett 17. maí 195, og er þar fyrst sagt frá munnlegum viðræðum, sem Ólafur Thors hafi átt við brezka forustumenn í þessum málum, brezka ráðherra, hygg ég. Síðan sagði orðrétt í þessari orðsendingu, sem er í skýrsluformi, með leyfi hæstv. forseta: „Ólafur Thors ráðherra lagði aftur á móti á það áherzlu,“ það er búið áður að segja frá orðaskiptum Bretanna, — „að íslenzka ríkisstj. álíti, að hinar fyrirhuguðu ráðstafanir væru í samræmi við alþjóðalög og að ekki væri hægt með milliríkjasamningi að afsala réttinum til að taka einhliða ákvarðanir um mesta velferðarmál þjóðarinnar;“ — ekki hægt með milliríkjasamningi að afsala réttinum til að taka einhliða ákvarðanir um mesta velferðarmál þjóðarinnar. Enn segir: „Það er vissulega skoðun íslenzku ríkisstj., að hvert ríki megi sjálft innan sanngjarnra takmarka ákveða víðáttu fiskveiðilögsögu sinnar með hliðsjón af efnahagslegum, fiskifræðilegum og öðrum aðstæðum á staðnum.“ Það hefur verið talið og ég held, að það sé rétt, að höfundur þessarar djarfmannlegu og rökföstu orðaendingar til Breta sé Bjarni Benediktsson, núv. hæstv. forsrh.

Nú gæti verið, að einhver staldraði víð orðið í þessari orðsendingu eða orðin „innan sanngjarnra takmarka“ og að þeir væru nú komnir út á hin sanngjörnu mörk og nú væri þess vegna ekki hægt við að bæta. En það er augljóst af grein í Morgunblaðinu daginn eftir, þ.e.a.s. 18. maí 1952, að þar er aðeins átt við þau réttarmörk, sem lögin um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins setji og er því algerlega sama viðmiðun og við höfum að miða við enn í dag. Í þessari grein Morgunblaðsins 18. maí 1952 sagði m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvert strandríki hefur rétt til þess innan sanngjarnra takmarka að ákveða víðáttu fiskveiðilögsögu sinnar. Einnig hinar landfræðilegu aðstæður fela í sér sterk rök fyrir rétti Íslendinga til einhliða ráðstafana til verndar fiskimiðum sínum. Landgrunnið umhverfis Ísland er mjög greinilega markað. Sá stöpull, sem landið hvílir á, tilheyrir því svo greinilega, að ekki verður um villzt. Þar kemur ekki til greina nálægð við önnur lönd. Einbúinn í Atlantshafi hefur ekki ruglað reytum sínum saman við neina aðra. Landgrunnið tilheyrir Íslandi og fiskimið þess sömuleiðis.“

Þetta var álit þess, sem reit í Morgunblaðið um landhelgismálið 1952 og ég hygg, að ég fari ekki fjarri sönnu um það, að sá höfundur muni einnig hafa verið núv. hæstv. forsrh.

Tveim dögum síðar, þann 20. maí 1952, sagði Morgunblaðið enn fremur: „Íslenzka ríkisstj. getur ekki fallizt á að ganga til samninga um þetta mál, þar sem hún lítur svo á, að samkv. alþjóðarétti sé Íslendingum í sjálfsvald sett að taka þær ákvarðanir í þessum efnum, sem teknar hafa verið.“ Og þarna hefur hæstv. ríkisstj. þá sjálfsagt stuðzt við sína heimsfrægu sérfræðinga í landhelgismálum. Þetta þykir mér skörulega mælt og vel á rétti Íslands haldið og vil ég vænta þess, að a.m.k. sömu menn hafi sömu afstöðu að því er þetta snertir enn í dag. A.m.k. hefur ekki hið landfræðilega sjónarmið okkar breytzt okkur neitt í óhag, frá því að þessi orð voru skrifuð: „Einbúinn í Atlantshafi hefur ekki ruglað reytum sínum saman við neina aðra. Landgrunnið tilheyrir Íslandi og fiskimið þess sömuleiðis.“ Landgrunnið fyrir Vestfjörðum tilheyrir Vestfirðingum og auðlindir þær, sem þetta landgrunn getur veitt, eiga að vera lífsbjörg þess fólks, sem byggir þann landshluta. Þetta var talinn okkar réttur þá og þetta er okkar réttur í dag. Hitt er svo annað mál, hvort við þurfum að kljást við valdhafa erlendra ríkja um það, hvort við getum haldið þessum rétti okkar og verndað hann. En það var þá eins og nú nokkrum annmörkum háð að geta náð sínum rétti, því að við sterkan var að deila.

Þessi rök ættu öll að hafa sama gildi enn í dag, nema þá saminn hafi verið af okkur einhver réttur, sem þá var staðið á og vil ég alls ekki gera því skóna.

Þá vil ég þessu næst víkja að örlagaglímunni í landhelgismálinu á árinu 1958. Þá var enn byggt á traustum grunni landgrunnlaganna, þegar úrslitaskrefið var stigið og fiskveiðalandhelgin stækkuð úr 4 í 12 sjómílur með setningu reglugerðarinnar frá 1. sept. 1958. Hér kemst ég ekki hjá því að víkja lítið eitt að merkum atburði, sem gerðist hér á hv. Alþingi, meðan stóð á deilunni við Breta. Þá var landhelgismálið tekið hér á dagskrá af þeirri ástæðu, að Alþingi taldi nauðsynlegt að árétta og undirstrika rækilega og alveg sérstaklega óhvikula stefnu Íslands í landhelgismálinu og þetta gerði Alþingi með svo hljóðandi ályktun, sem utanrmn. þingsins bar þá fram. Þessi ályktun, viljayfirlýsing Alþingis, var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að mótmæla harðlega brotum þeim á íslenzkri fiskveiðilöggjöf, sem brezk stjórnarvöld hafa efnt til með stöðugum ofbeldisaðgerðum brezkra herskipa innan íslenzkrar fiskveiðilandhelgi, nú nýlega hvað eftir annað jafnvel innan fjögurra mílna landhelginnar frá 1952. Þar sem þvílíkar aðgerðir eru augljóslega ætlaðar til að knýja Íslendinga til undanhalds, lýsir Alþingi yfir, að það telur Ísland eiga ótvíræðan rétt til 12 mílna fiskveiðilandhelgi, að afla beri viðurkenningar á rétti þess til landgrunnsins alls, svo sem stefnt var að með lögunum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948 og að ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi en 12 mílur frá grunnlínum umhverfis landið.“

Þessi till. utanrmn. var samþ. með shlj. atkv. allra alþm. 5. maí 1959 og er ótvírætt enn þá í gildi. Nokkuð af texta þessarar viljayfirlýsingar Alþingis fjallar um atburði líðandi stundar og víkur að þeim, en við tökum eftir, að þar segir, að eitt af hinu þýðingarmesta sé að afla viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins alls. Því er slegið föstu, að Ísland eigi þennan rétt. Það var einróma álit Alþingis þá. Það, sem vinna beri að, sé að afla viðurkenningar annarra þjóða á réttinum, sem við höfum.

Till., sem hér er til umr., fer fram á það, að ríkisstj. sé falið að færa út landhelgina, þannig að hún nái til landgrunnsins fyrir Vestfjörðum og henni falið það verkefni að afla viðurkenningar á þeim rétti, af því að sérstök, knýjandi nauðsyn fólksins, sem þar býr, rekur á eftir, að þetta sé gert. Svona er málið, þó að Morgunblaðið leyfi sér að kalla það afglapahátt að vinna að framgangi þess.

Þegar rakið er í stórum dráttum það allra helzta, sem gerzt hefur í landhelgismálinu, síðan landgrunnslögin voru sett, verður ekki hjá því komizt að víkja þessu næst að lausn fiskveiðideilunnar við Breta, en á hana var bundinn endi með ályktun Alþingis frá 9. marz 1961. Opinberlega var þessi deila útkljáð milli Íslands og Stóra-Bretlands með erindaskiptum eða nótuskiptum, sem fóru fram 11. marz 1961 um deiluna og þessi nótuskipti fóru fram milli utanrrh. Íslands, Guðmundar Í. Guðmundssonar, og þáv. sendiherra Breta á Íslandi, herra Andrews C. Stewarts og voru helztu efnisatriði þessa samkomulags eins og nú skal greina, — það er ekki orðrétt, það er í styttu formi, en ég tel mig hafa samvizkusamlega tekið upp efnisatriði nótuskiptanna:

Þar var í fyrsta lagi ákveðið, að ríkisstj. Bretlands lýsi yfir, að hún falli frá mótmælum sínum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland. Þetta tel ég hafa verið fyrsta efnisatriði nótunnar.

Í öðru lagi: Grunnlínubreytingar verði gerðar á nokkrum stöðum til rýmkunar fiskveiðilögsögunnar. Það var annað meginatriðið að mínum dómi.

Þriðja meginatriðið var svo fólgið í þessum lið, hann er orðréttur og hver liður um sig er orðréttur: „3) Næstu árin lofar ríkisstj. Íslands að hindra ekki, að skip skrásett í Bretlandi stundi veiðar milli 12 og 6 mílna línunnar á nánar tilgreindum svæðum og tímum.“

Og í fjórða lagi gaf ríkisstjórn Íslands svo hljóðandi yfirlýsingu:

„Ríkisstjórn Íslands mun halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland, en mun tilkynna ríkisstj. Bretlands slíka útfærslu með 6 mánaða fyrirvara og rísi ágreiningur um slíka útfærslu, skal honum, ef annar hvor aðilinn óskar, skotið til alþjóðadómstólsins.“

Ég vona, að það hafi ekki hent mig að fella niður úr þessu samkomulagi neitt meiri háttar efnisatriði, en ég hef dregið saman efni þessarar orðsendingar, sem fór á milli brezku og íslenzku ríkisstjórnanna á þennan hátt.

Þarna er Bretunum gefin nokkur undanþága til þess að veiða á nokkrum svæðum milli 12 og 6 mílna markanna um þriggja ára skeið. Bretarnir hætta sínum mótmælaaðgerðum. Landhelgin er talsvert rýmkuð með grunnlínubreytingum á nokkrum stöðum. Og yfirlýsingin, sem ég lauk við að lesa rétt í þessu, er gefin um það í fyrsta lagi, að íslenzka ríkisstjórnin heitir því að halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþ. frá 5. maí 1959, en í henni stóð, að afla beri viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins alls. Það er þetta, sem lofað er að halda áfram að vinna að og það er ekkert lítilsvert fyrirheit. En síðan kemur það, sem ýmsum hefur þótt miður við þetta samkomulag, nefnilega, að íslenzka ríkisstj. skuldbindur sig til að tilkynna ríkisstj. Bretlands, ef útfærsla kemur til greina, með 8 mánaða fyrirvara og enn fremur, að ef ágreiningur kemur um slíka útfærslu, skuli honum, ef annar hvor aðilinn óskar þess, skotið til Alþjóðadómstólsins.

Þarna er því slegið föstu, að íslenzka ríkisstj. sé frjáls að því að stækka íslenzku landhelgina. En þegar slík útfærsla er ákveðin, skal láta Breta vita um það með 8 mánaða fyrirvara. Og svo kemur að hinu, sem allir máttu vita auðvitað, að það yrðu Bretarnir, sem mótmæltu, ef mótmæli kæmu fram á annað borð. Og þá skuldbindum við okkur til að láta þann ágreining, sem þá lægi fyrir, fara til Alþjóðadómstólsins. Mér skilst, að meðan ekki sé úr skorið fyrir dómstólnum á þann hátt, að dómur gangi okkur í gegn, þá gildi útfærslan, það sé verknaður, sem íslenzka ríkisstj. hafi gert og tilkynnt um, a.m.k. ef málareksturinn stendur meira, en hinn boðaða tíma, 6 mánuði.

Ég skal ekki hafa uppi neina sleggjudóma út af þessu samkomulagi, það liggur skjallega fyrir og menn geta túlkað það með ýmsu móti: Sumir segja, að í þessu samkomulagi felist hinn mesti sigur, sem íslenzka þjóðin hafi nokkurn tíma unnið í landhelgismálinu. Aðrir telja, að það versta við þetta mál sé það, að við höfum þarna undirgengizt að láta erlendan dómstól úrskurða um okkar rétt, ég vil segja okkar frumburðarrétt, réttinn til landgrunnsins alls.

Sú breyting, sem lagt er til að gerð verði á fiskveiðalandhelginni fyrir Vestfjörðum með þeirri till., sem hér liggur fyrir, er raunar fyrsta skrefið, sem stigið er til útfærslu fiskveiðalögsögunnar, síðan þetta nefnda samkomulag var gert við ríkisstj. Bretlands. Og nú reynir því fyrst á það, hvort þetta samkomulag er okkur hagkvæmt eða hvort það er okkur fjötur um fót. Þeir, sem eru sannfærðir um, að það sé okkur styrkur og stoð, en ekki fjötur, ættu a.m.k. engu að kvíða út af því, þó að slík till. sem þessi komi fram og verður þá auðvitað auðveldlega framkvæmd. En um hitt geta menn ekki deilt, þótt menn geti e.t.v. deilt um þetta, sem ég nú ræddi, að þessi till. er að öllu leyti í samræmi við þá yfirlýstu stefnu Alþ. og íslenzku ríkisstj., að halda skuli áfram að vinna að framkvæmd ályktunarinnar, sem Alþ. gerði 5. maí 1959. Og í þeirri ályktun sagði, að afla bæri viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins alls.

Við flm. till. létum fylgja þessu þskj. uppdrátt yfir landgrunnið og sérstaklega sýnir sá uppdráttur skýrt, hvaða hluti landgrunnsins er enn þá utan íslenzkrar fiskveiðalögsögu, utan landhelgislínunnar. Uppdrátturinn sýnir, að landgrunnið við Norðurland og Suður- og Suðvesturland er að miklu leyti innan núverandi landhelgislínu. En hins vegar er allmikill hluti landgrunnsins fyrir Austurlandi og Suðausturlandinu utan fiskveiðalandhelginnar. Og fyrir Vestfjörðum er það áberandi, að þar er langsamlega mestur hluti utan núverandi fiskveiðalandhelgi.

Það á þannig augljóslega mjög langt í land með það, að Íslendingar hafi náð því takmarki, sem þeir settu sér með lögfestingu l. um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins.

Alkunnugt er, að íslenzka þjóðin lifir á sjávarútvegi, fiskveiðum, í stærri stíl, en flestar eða kannske allar aðrar þjóðir heims. Líf íslenzku þjóðarinnar og lífskjör öll eru þannig að mjög miklu leyti undir þessum höfuðatvinnuvegi hennar komin og kasta ég ekki með þeim ummælum rýrð á neina aðra atvinnuvegi þjóðarinnar. Samt er það svo, að margar þjóðir, sem eiga miklu minna, en Íslendingar, undir fiskveiðum, hafa lýst yfir einhliða rétti sínum til einhliða fiskveiða á landgrunninu við strendur sínar. Meðal þeirra eru t.d. Argentína, Cambodia, Chile, Costa Rica, Equador, EI Salvador, Guatemala, Suður-Kórea, Mexíkó, Nícaragua, Panama og Perú. Vera má, að þær þjóðir, sem helgað hafa sér landgrunnið allt við strendur sínar til fiskveiða, séu fleiri en þetta, en mér er kunnugt um þessar þjóðir. Þær hafa gert það og komizt fram með það, þrátt fyrir minni nauðsyn en íslenzku þjóðarinnar og þó að landgrunn þeirra sé margfalt víðáttumeira og nái lengra frá ströndum þeirra, en íslenzka landgrunnið nær, í sumum tilfellum allt upp að 200 sjómílum. Þar sem vestfirzka landgrunnið nær lengst undan ströndum, mun þó vera innan við 40 sjómílur frá nesjum, hygg ég, 40–50 sjómílur, það er eitthvað nálægt því. Það er því augljóst, að þegar Íslendingar stíga það skref að helga sér lendgrunnið allt með fiskveiðalögsögu, erum við aðeins að gera það, sem allmargar þjóðir hafa gert á undan okkur. Hafi þær gert það á grundvelli þjóðaréttar, höfum við fyllilega örugglega hinn sama rétt. Hafi þær gert það í trássi við alþjóðalög og þjóðarétt, hafa þær a.m.k. komizt fram með það.

Í þessari till. er lagt til, að ekki sé í það ráðizt nú í einu, að Íslendingar helgi sér landgrunnið allt sem fiskveiðalögsögu, heldur einungis við þann landshlutann, þar sem mest er utan fiskveiðalandhelginnar, mestur hluti landgrunnsins er utan fiskveiðalandhelginnar og þar sem lífsnauðsyn strandbúanna rekur fastast á eftir, en láta hina aðra yfirlýsta áfanga að settu marki samkvæmt landgrunnslögunum bíða. Í þessari till. er það orðað þannig, að fiskveiðalandhelgin fyrir Vestfjörðum verði látin taka til vestfirzka landgrunnsins austan frá Húnaflóa og suður á Breiðafjörð. Nokkrar ástæður liggja til þess, að við flm. till. töldum rétt að haga tillöguflutningnum eins og hér er gert.

Við höfum fram að þessu hagað okkur þannig í landhelgismálinu, að við höfum þokað okkur að settu marki stig af stigi og stundum í smáum skrefum, svo að það er ekkert nýtt að taka hluta af málinu til lausnar hverju sinni. Þannig fórum við að árið 1950 norðanlands og þannig fórum við einnig að 1952 og með hinni miklu stækkun landhelginnar úr 4 mílum í 12 1958 var einnig öllum ljóst, að einungis var um áfanga að ræða, en ekkert lokatakmark. Ég gæti vel vænzt þess, að einhverjir segðu nú: Hér er of skammt farið, það væri rétt að helga sér einnig landgrunnið fyrir Austurlandi. — Og það skal ég taka fram fyrir hönd okkar flm. beggja, að við værum ekkert andvígir því, að till. væri breytt á þann veg, ef það teldist rétt eða jafnrík nauðsyn væri talin á því. En eins og sakir standa og öllum er kunnugt, er Austfirðingum ekki lífsnauðsyn á þessari aðgerð í landhelgismálinu, þegar litið er á þann uppgripasíldarafla, sem þeir nú njóta og vænta má að haldist næstu missiri. En ég held því fram, að stækkun fiskveiðalandhelginnar fyrir Vestfjörðum sé lífsnauðsynjamál Vestfirðinga og megi ekki dragast að leysa það, svo framarlega sem við höfum bolmagn til að notfæra okkur þann rétt, sem við, eins og margsinnis hefur verið yfirlýst af okkar forsvarsmönnum, eigum til landgrunnsins.

Ég efast um, að hv. alþm. utan Vestfjarða hafi gert sér það ljóst, að Vestfirðingar eru ekki stórum betur settir nú, eftir að 12 mílna landhelgin var viðurkennd, heldur en þeir voru, meðan hún var jafnvel 3 mílur og til þess liggja alveg sérstakar ástæður, sem ekki liggja í augum uppi fyrir ókunnugum. Þetta hljómar næstum eins og öfugmæli, en það er samt satt, að Vestfirðingar eru nú ekki betur settir, — sumir segja fullum fetum, án þess að þeir vilji ýkja, að þeir séu verr settir núna en áður, meðan fiskveiðalögsagan fyrir Vestfjörðum var jafnvel 3 sjómílur. Þetta byggist á því, að við stækkun landhelginnar fengu Vestfirðingar aðeins þá ræmu, sem felst í 12 mílna landhelginni. Innan við þá línu afmörkuðust ekki eða lokuðust ekki nein meiri háttar hafsvæði, flóar, eins og um var að ræða fyrir suðvesturatröndinni og að því er snertir Faxaflóa- og Breiðafjarðarsvæðin. En eftir sem áður, þetta var rýmkun og var þetta þá ekki til verulegra bóta? Nei, það, sem gerði það, að þetta kom ekki að gagni, einkanlega þegar frá leið, var það, að þegar hin auðugu fiskimið, sem lentu innan fiskveiðalandhelginnar sunnanlands og vestan, lokuðust og erlendir veiðiþjófar komust ekki inn á þessi svæði, þyrptust þeir í vaxandi mæli á vestfirzka landgrunnið og hafa síðan skarkað á því svo ákaft, að fiskmagnið á því hefur gengið til þurrðar, jafnvel meira en meðan landhelgin var þrengri. Þannig má í raun og veru segja það, að erlendu togarastóði, svo að maður tali á bændavísu, hafi verið sigað í tún Vestfirðinga og þar séu þeir nú á beit og setji túnið auðvitað í örtröð.

Það gefur nokkra vísbendingu um það hversu ágengni erlendra togara á Vestfjarðamiðunum hefur aukizt, að fyrir nokkrum árum var það viðburður, að erlendur togari væri tekinn fyrir Vestfjörðum í landhelgi, en á s.l. ári voru hvorki meira né minna en 9 brezkir landhelgisþjófar staðnir að verki og teknir til dóms á Ísafirði. Annað dæmi: Vélsmiðja er á Ísafirði, hún hefur verið til lengi. Jú, jú, það komu þangað alltaf togarar, brezkir og aðrir erlendir togarar, til þess að fá viðgerðir, þegar bilun varð hjá þeim á skipi eða vél og þeir voru á veiðum úti fyrir Vestfjörðum, en þetta var engin há tala. En núna á liðnu ári voru það líklega nokkuð á annað hundrað, ég man ekki töluna nákvæmlega, en hún var furðu há, á annað hundrað, ef ég man rétt, brezkir togarar eða erlendir togarar, sem leituðu hafnar á Ísafirði og höfðu viðskipti við mótorverkstæðið þar til þess að fá þar viðgerðir, af því að þeir voru þarna við veiðiskap fyrir utan. Þetta bendir til þess, að ágengnin á vestfirzku landgrunnsmiðin hefur margfaldazt einmitt við stækkun landhelginnar. Og þá kemur að þeim vitnisburði, sem ekki lætur að sér hæða, en það er vitnisburðurinn um það, hvernig aflamagn á Vestfjörðum hefur breytzt einmitt eftir að landhelgin var stækkuð og flóasvæðin sunnan- og suðvestanlands lokuðust fyrir ágangi hinna erlendu veiðiþjófa.

Fiskifélagið varð góðfúslega við þeirri ósk minni að taka upp skýrslu um það, hvernig aflamagn hefði aukizt á veiðisvæðunum hér sunnan- og suðvestanlands á árunum 1960 til 1964, á þeim fimm árum. Fiskifélagið tók fyrst svæðið Vestmannaeyjar til Grindavíkur, og tölurnar eru eingöngu um bátafiskinn. Árið 1960 var heildaraflinn á þessu svæði 74.243 tonn, sem var árið 1964 kominn upp í 38.674 tonn og stundar þó flotinn á þessu svæði nú síldveiðar mikinn hluta ársins í miklu ríkara mæli en fyrsta árið, sem miðað er við og má því búast við, að sá floti sé minni, sem nú stundar þorskveiðar á þessu svæði. En samt er þarna um verulega hækkun á aflamagni að ræða og er það auðvitað ekki nema gott. Enn þá meiri er þó munurinn, þegar tekið er svæðið Hafnir til Akraness, þar með Hafnarfjörður og Reykjavík og allar hafnir þar á milli. Þar er bátafiskurinn 111.700 tonn árið 1960, en 144.100 tonn árið 1984. Það er um allt að þriðjungsaukningu þarna að ræða á fiskmagninu hjá línubátum og er þó sama ástæðan þarna meðverkandi, að jafnvel miklu meiri hluti af flotanum hér er nú á síldveiðum, en var fyrsta árið, sem við var miðað og mætti því búast við, að aukningin væri ekki þar eftir mikil.

En til þess að fá nokkra vitneskju um það frá þeim mönnum, sem gerst mega um vita, hvernig þróun aflamagnsins hefur verið á Vestfjörðum, hef ég leitað til erindreka Fiskifélagsins á Ísafirði, Jóns Páls Halldórssonar, og fengið hjá honum eftirfarandi upplýsingar. Þetta var af tilefni þess, að ég dvaldist vestur á Ísafirði og í Bolungarvík í s.l. janúarmánuði og hafði þar tal af bæði útgerðarmönnum og sjómönnum og varð þess var, að þeir voru mjög svartsýnir um framtíðina vegna rýrnandi aflamagns fyrir Vestfjarðasvæðinu. Öllum bar þeim saman um, hvort sem ég ræddi við sjómenn eða útgerðarmenn, að fiskafli á línubáta á Vestfjarðamiðum færi síminnkandi frá ári til árs og væri nú orðinn svo rýr, að teljast mætti útilokað að gera út á línu nema með stórfelldum hallarekstri. Það var einmitt til þess að ganga nánar úr skugga um það, hvað hæft væri í þessum fullyrðingum, hvort hér væri ekki um óljóst mat manna að ræða eða venjulegan íslenzkan barlóm, að ég bað erindreka Fiskifélagsins á Vestfjörðum, eins og ég áðan sagði, að gefa mér nánari skýrslur um aflamagn línubáta á Vestfjörðum. Hann varð góðfúslega, við þeirri ósk minni og nú skal ég skýra frá helztu niðurstöðum úr þessari skýrslu hans.

Það er þá fyrst yfirlit yfir aflamagn 10 aflahæstu bátanna á þremur seinustu árum á haustvertíðinni. Haustið 1962 var meðalaflamagn þessara báta 7.3 tonn, næsta haust var meðaltalið 6.8 tonn og haustið 1964, haustið sem leið, 5.3 tonn. Hygg ég, sagði erindreki Fiskifélagsins, að þessar tölur sýni, svo að ekki verði um villzt, hvert stefnir með línuútgerð hér á Vestfjörðum. Heildartölur um aflamagn línubáta á Vestfjörðum gefa líka mjög áþekka niðurstöðu. Árið 1963 var heildaraflinn orðinn 11.248 lestir í febrúarlok. Árið 1964 var aflinn í febrúar 5.101 lest og heildaraflinn frá áramótum, sem var sambærileg tala við 11.248, var 8.759 lestir. En í vetur var febrúaraflinn aðeins 4.334 lestir og heildaraflinn frá áramótum aðeins 7.482 lestir. Fyrir tveimur árum var heildaraflinn 11.248, nú 7.482. Þessi breyting hafði orðið þarna á tveimur árum, rýrnunin í heild 3.766 lestir.

Þá hef ég í þriðja lagi fengið samanburð á aflamagninu í einstökum verstöðvum í febr. 1964 og í febr. 1965. Sú tafla sýnir, að aflamagnið á fjórum syðstu verstöðvunum, þ.e.a.s. Patreksfirði til Þingeyrar, er svipað bæði árin, enda sækja bátar frá þessum stöðum svo til allan afla sinn suður á Breiðafjörð, suður fyrir vestfirzka landgrunnið. En síðan sýnir taflan, að frá öllum hinum verstöðvunum, sem sækja á landgrunnið úti fyrir Vestfjörðum, er aflamagnið mun minna nú, en í fyrra og fer það síversnandi norður eftir fjörðunum. Kemur það heim við upplýsingar þær, sem gefnar hafa verið frá íslenzka ískönnunarfluginu nú í vetur, nefnilega að togaranauðin sé yfirleitt langmest á norðanverðu Vestfjarðagrunninu. Flugvélin taldi einhvern tíma togarana á svæðinu og birti kort af því og þéttust var þyrpingin af erlendu togurunum mjög norðarlega á landgrunni Vestfjarða. En þessi tafla er þá svona:

Á Flateyri var aflinn 348 lestir 1984, en aðeins 331 lest núna, 1965. Suðureyri, 654 lestir 1964, 410 lestir 1965. Bolungarvík 642 lestir 1964, en 574 lestir 1965. Hnífsdalur 282 lestir 1964, en 158 lestir 1965. Ísafjörður 1096 lestir 1964, en 797 lestir 1965. Súðavík 175 lestir 1964, en 163 lestir 1965. Hólmavík 158 lestir 1964, en 78 lestir 1965. Drangsnes 76 lestir 1964, en 30 lestir 1965.

Ég vek athygli á því, að hver einasta allra þessara verstöðva er með mun minna aflamagn í ár, en í fyrra og munurinn vex jafnt og þétt norður eftir þorpunum, unz aflinn á Hólmavík og í Drangsnesi nær ekki helmingi í vetur móts við það, sem hann þó var í fyrravetur og var þá miklu rýrari, en hann hafði verið árin á undan. Menn sjá, að hér er komið niður fyrir það aflamagn, að unnt sé að halda uppi útgerð á línu við slíkt aflaleysi, enda hafa Alþ. borizt neyðarópin. Allir vestfirzkir útgerðarmenn hafa beðið um vægð hjá fiskveiðasjóði, fá greiðslufrest á sínum skuldbindingum við sjóðinn í 2 ár og neyðarópin frá Hólmavík og Drangsnesi vegna hins algera aflaleysis þar hafa verið til úrlausnar hjá atvinnubótasjóði og þm. Vestfjarða nú að undanförnu og tæpast að nein lausn hafi fengizt á þeim, en það má öllum ljóst vera, að með slíku aflaleysi er útgerðin í heljargreipum.

Í seinustu skýrslu frá fulltrúa Fiskifélagsins á Vestfjörðum segir m.a.: „Gæftaleysi hamlaði mjög sjósókn í febrúar og samfara því svo að kalla algert aflaleysi hjá línubátum.“ Síðar í skýrslunni sagði: „Þetta er því snubbóttasta línuvertíð, sem hér hefur komið.“

Ég held, að þessi skýrsla hafi verið birt í blöðum núna fyrir nokkrum dögum.

Nú um mánaðamótin, þ.e.a.s. febrúar-marz, voru aðeins 11 bátar á öllu svæðinu frá Patreksfirði til Súðavíkur eftir á línu, en 33 bátar voru komnir með net. Auk þess reru svo 8 bátar við Steingrímsfjörð með línu, en afli var þar ákaflega tregur, nánar til tekið tæpar 2 lestir í legu. Nú seinast hefur það svo bætzt ofan á aflaleysið í Hólmavík og Drangsnesi, eins og öllum mönnum er kunnugt, að ísinn hefur gersamlega lokað þar fjörðum og sennilega bundið þar með endi á áframhald þessarar vertíðar.

Ég hef nú um sinn talað með tölum máli mínu til stuðnings um, hvernig komið er aðstöðu til útgerðar, fiskveiða, fyrir Vestfjörðum vegna hins þunga ágangs togara og aðallega erlendra togara á landgrunni Vestfirðinga. Ég vil því vænta þess, að það hafi verið gerð allsómasamleg grein fyrir þeirri nauðsyn, sem rekur á eftir okkur Vestfjarðaþm. með flutningi þessarar till. Ég held, að það verði mikið áfall fyrir byggðirnar á Vestfjörðum, ef jafnvel sjómannastéttin vestfirzka missir trúna á, að það sé lífvænlegt þarna vestur frá til frambúðar. En ég held líka, að ekkert gæti rétt eins við trúna á, að það gæti verið vel byggilegt á Vestfjörðum, eins og það, ef vestfirzka landgrunnið fengist friðað og reynslan yrði sú, sem ég tel nálega fullvíst, að þá mundu aflabrögðin batna.

Vestfjarðamiðin hafa verið íslenzku þjóðarbúi svo drjúg tekjulind um ár og aldir, að ég held, að það sé ekkert ofsagt, þó að maður segi eiginlega, að réttur fólksins á Vestfjörðum til landgrunnsins sé fast að því að vera réttur þess til lífsins, a.m.k. ef það á að hafa búsetu í þeim landshluta. Stækkun landhelginnar fyrir Vestfjörðum, þannig að hún nái yfir landgrunnið allt, er tvímælalaust stærsta mál Vestfirðinga í dag. Þess vegna teljum við flm., að það sé allmikið í húfi, að Alþ. og hæstv. ríkisstj. bregðist vel og drengilega við þessu máli, taki ekki upp munnsöfnuð Morgunblaðsins eða alvöruleysi þess gagnvart þessu máli, en líti á málið eins og það liggur fyrir sem staðreynd og Alþ. samþykki þessa till., áður en þessu þingi lýkur. Hæstv. ríkisstj. ætla ég svo það e.t.v. vandasama verkefni að hafa sett reglugerð, sem helgi okkur vestfirzka landgrunnið sem íslenzka fiskveiðalögsögu fyrir 5. okt. á komanda hausti. Að vísu eru nú ekki nema tæpir 8 mánuðir til þess tímamarks, en ef það rækist á skuldbindingar samkomulagsins við Breta 1961, yrði að bíta í það súra epli, að gildistaka nýrrar reglugerðar yrði þá að frestast vegna þess.

Með því, sem ég hef sagt, tel ég mig hafa gert nokkra grein fyrir þessari till. og þeirri lífsnauðsyn, sem við flm. teljum Vestfirðingum það vera, að stækkun eigi sér stað á fiskveiðalögsögunni fyrir Vestfjörðum á þann veg, sem í till. segir, að hún nái yfir landgrunnið allt.