24.03.1965
Sameinað þing: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í D-deild Alþingistíðinda. (3038)

127. mál, útfærsla fiskveiðilandhelginnar fyrir Vestfjörðum

Davíð Ólafsson:

Herra forseti. Það er vissulega rétt, sem hæstv. dómsmrh. sagði hér áðan, að hér er um að ræða mál, sem er þess vert, að því sé rækilega gaumur gefinn. Þess gerist ekki þörf að endurtaka það, sem oft hefur verið sagt á undanförnum árum og áratugum, hversu þýðingarmikið það er fyrir okkur Íslendinga að vernda hafsvæðið umhverfis landið, þannig að það geti gefið okkur þann arð, sem mestur verður af því fenginn og þannig tryggt okkur lífvænleg skilyrði í landinu. Það er líka rétt, sem hv. 1. flm. þessarar till. sagði hér við upphaf umr. um daginn og tekið er fram í grg. fyrir till., að lögin um landgrunnið, landgrunnslögin, eins og þau eru kölluð, frá 1948, voru mjög merk löggjöf og hafa alla tíð síðan reynzt okkur mjög styrk stoð í baráttu okkar í landhelgismálinu og hafa vissulega átt sinn mikla þátt í því að undirbyggja aðgerðir í því máli. Það má segja, að það hafi verið fyrsta skrefið, sem stíga þurfti til þess að tryggja frekari aðgerðir síðar. Það var aðeins eitt nauðsynlegt skref af mörgum. Eftir það fóru fram á alþjóðavettvangi fyrst og fremst margvíslegar umræður um landhelgismál almennt og um landhelgismál Íslands sérstaklega, umræður, sem oft voru að frumkvæði okkar fulltrúa á alþjóðafundum, umræður, sem til var stofnað oft í þeim beina tilgangi að afla skilnings á aðstöðu okkar í sambandi við fiskveiðar. Þessi þáttur í baráttunni fór að vísu fram fjarri þessum sal og fjarri okkar ströndum, en mér er næst að halda, að hann hafi ekki verið hvað þýðingarminnstur, þegar litið er á úrslit þessa máls í heild.

Hæstv. dómsmrh. vakti hér réttilega athygli á því, hvernig sá þjóðréttarfræðingur, sem ráðinn var á árinu 1946, Hans G. Andersen. vann að þessum málum og ég vil taka undir það, sem hæstv. dómsmrh. sagði. Ég varð dálítið undrandi á því um daginn, þegar hv. 1. flm. till. fór þeim orðum um starf þessa manns á alþjóðavettvangi, þar sem nánast var farið háðulegum orðum um það. Og sérstaklega varð ég undrandi vegna þess, að þessi hv. þm. var ráðh. á árunum 1956–58, þegar mikið var að gerast í landhelgismálunum.

Landhelgismálið var rætt, eins og ég sagði áðan, á alþjóðavettvangi í mörg ár, innan Sameinuðu þjóðanna, innan Evrópuráðsins, innan Efnahags- og samvinnustofnunar Evrópuráðsins, á norrænum fiskimálaráðstefnum í Genf, innan NATO. Þá voru gefnar út hvítar bækur af utanrrn. Þeim var dreift víða um land. Með þessu öllu saman og með þeim skýrslum og þeim tölulegu rökum, sem þeim fylgdu, var málið kynnt svo ýtarlega á erlendum vettvangi, að óhætt mun að segja, að frá Bandaríkjunum til Sovétríkjanna, frá Indónesíu til Perú eða hvar sem var í heiminum, var mönnum, sem fylgdust með þessum málum, vel kunnugt um okkar sérstöðu, og það er fyrst og fremst fyrir það starf, sem hér var unnið og þann þátt, sem Hans G. Andersen átti í því starfi. Þannig tókst með þrotlausri baráttu á erlendum vettvangi að fá skilning á málstað okkar. Þetta gerðist skref fyrir skref, þar til svo var komið, að allir höfðu viðurkennt 12 mílna landhelgina, endanlega með samningunum, sem gerðir voru 1961. Það var vissulega merkur áfangi, sem þá vannst.

En í sambandi við samninginn 1961 er einnig annar merkur atburður á Alþingi á árinu 1959, 5. maí. Þá hafði verið samþ. till. til þál. um landhelgismálið, þar sem segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „að afla beri viðurkenningar á rétti þess til landgrunnsins alls, svo sem stefnt var að með lögunum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948,“ — að afla beri viðurkenningar á rétti Íslendinga til landgrunnsins. Þessi ályktun Alþingis eða þessi hluti af ályktun Alþ., sem fjallaði um þetta atriði, var tekinn inn í samninginn frá 1961 sem yfirlýsing af hálfu Íslendinga. Þar með var því enn einu einni lýst yfir í framhaldi af ályktun Alþingis frá 1961, að áfram skyldi haldið að afla viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins alls.

Það mun hafa verið fyrsta tækifærið, sem gafst til þess að koma fram aftur á alþjóðavettvangi í framhaldi af þessum yfirlýsingum, á fiskveiðiráðstefnunum, sem haldnar voru í London á s.l. ári, á vetrinum 1963–64, í desember, janúar og febrúar. Þar var rætt um landhelgismál landanna við norðaustanvert Atlantshaf og Íslandi var að sjálfsögðu boðið til þeirrar ráðstefnu og fór þangað, með þeirri yfirlýsingu frá byrjun að ítreka það, sem sagt hafði verið með yfirlýsingu Alþingis 1959 og aftur í samningum 1961. Og ávallt á þeirri ráðstefnu var það tekið fram af hálfu íslenzku fulltrúanna, að stefna Íslands væri sú, sem mörkuð hefði verið með þessum yfirlýsingum. Þetta var mjög þýðingar mikið atriði og mjög þýðingar mikið að koma því að á þessum vettvangi, það sem raunar hafði verið tekið fram áður í samningum og í ályktun Alþingis, en þarna voru þó saman komnir fjölmargir aðilar frá flestum löndum við norðaustanvert Atlantshaf, sem kynntust þessum sjónarmiðum Íslendinga.

Ég vildi með þessu hafa sýnt fram á, hver vinnubrögð voru viðhöfð alla tíð frá árinu 1948 og við þurfum ekki að spyrja um þann árangur, sem hefur orðið af þeim vinnubrögðum, hann er okkur öllum ljós.

Hér liggur fyrir till. um að hefja vissar aðgerðir innan nokkurra mánaða í útfærslu fiskveiðalandhelginnar undan ströndum eins landshluta. Það hefur verið tekið fram hér af öðrum ræðumönnum, að sjónarmið fólksins í þessum landshluta sé mjög skiljanlegt og ég tek undir það. Þetta fólk, sem þar býr, eins og raunar flest fólk við strendur Íslands, á sína lífsafkomu undir hafinu undan ströndunum, og það getur oft verið erfitt að meta það, hvar hagsmunirnir eru mestir. En nú er það svo, að á landhelgismálið sem slíkt verður að líta sem lífshagamunamál allrar þjóðarinnar og allar aðgerðir í málinu hljóta að miðast við það sjónarmið. Ég lýsti því áðan, eins og ég sagði, hvernig unnið var að málinu áður, hvernig allt var traustlega undirbyggt með traustum rökum, byggt á skýrslum. Við þurfum ekki annað en lesa hvítu bækurnar og þau tölulegu og önnur rök, sem þar voru fram borin, til þess að skilja, hvaða þýðingu þær skýrslur hafa haft.

Hv. 5. þm. Vestf., 1. flm. till., vitnaði í framsöguræðu sinni hér um daginn í tölur máli sínu til stuðnings. Því miður verð ég að segja það, að ég er mjög hræddur um það og raunar viss um það, að þær tölur mundu ekki sannfæra neinn um það, sem hann taldi sig hafa sannfærzt um af að hafa þessar tölur fyrir framan sig. Þær sýna raunverulega ekki það, sem hann ætlaði að sýna, því að þær sýna ekki, hvernig aflamagnið hefur þróazt, slíkar aflatölur aðeins fyrir örstuttan tíma. Ef ætti að sanna eitthvað af eða á um aflabrögð á einhverju svæði, þarf miklu traustari undirbyggingu, er ég hræddur um, til þess að fá menn til þess að taka slíkar tölur alveg góðar og gildar. Þetta segi ég af þeirri reynslu, sem ég hef fengið af því að umgangast slíkar tölur um alllanga hríð og af þeirri reynslu, sem ég hef fengið af því að leggja fram slíkar tölur fyrir gagnrýna aðila. Ég veit, að hv. 1. flm. till. hefur meint það vel, sem hann sagði um, hvernig hann notaði þessar tölur. Þær bara ná allt of skammt til þess að vera traust undirbygging undir till. eins og þessa. Til þess þarf miklu nákvæmari og betri og traustari gögn.

Ég mundi telja, að þessi tillöguflutningur sé ekki til þess fallinn að vera landhelgismálinu í heild til framdráttar. Og ég mundi að lokum vilja taka undir það, sem hv. 5. þm. Austf. (LJós) sagði, að því er mér heyrðist, áðan, þegar hann ræddi um það, hvernig sótt hefði verið fram í landhelgismálinu eftir því, hvað hagstæðast væri fyrir íslenzkan málstað á hverjum tíma. Það sjónarmið mundi ég eitt vilja láta ráða í þessu máli.