24.03.1965
Sameinað þing: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í D-deild Alþingistíðinda. (3039)

127. mál, útfærsla fiskveiðilandhelginnar fyrir Vestfjörðum

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hv. 6. landsk. þm. (DÓ), sem hér var að ljúka máli sínu, vil ég segja það, að hann virtist draga í efa, að þær upplýsingar, sem 1. flm. þessarar till. gaf í sinni framsöguræðu, væru ábyggilegar. Ég held þó, að það fari ekkert á milli mála, að aflaskortur er áberandi á Vestfjarðamiðum, hafi verið það að undanförnu og að þær samþykktir, sem þar hafa verið gerðar, sýni það alveg ótvírætt, að svo er og bjóst ég ekki við, að neinn mundi draga það í efa.

Hv. þm. vék líka að því, að þetta mál væri þess eðlis, að það yrði að hafa allt landið í huga í einu og að mér skildist, að það, sem gert yrði í málinu, þyrfti að snerta allt landið, landgrunnið allt. Ég vil minna hv. þm. á það, að áður hefur verið gerð breyting á landhelgi Íslendinga, sem snerti ekki landið allt, en það var 1950, þegar landhelgin var færð út fyrir Norðurlandi einu, svo að hér er ekki um neitt einsdæmi að ræða hvað snertir þessa till. Þetta var gert með reglugerð frá 22. apríl 1950. Hinn alvarlegi aflaskortur, sem nú er og hefur verið fyrir Vestfjörðum, veldur þeim áhyggjum Vestfirðingum, sem öllum á að verri nokkurn veginn kunnugt um.

Hv. 1. flm. hefur gert grein fyrir þeim ástæðum, sem liggja til grundvallar flutningi þessarar till. Og það eru mjög ískyggilegar horfur um, að byggð haldist á Vestfjörðum, ef ekki verður eitthvað að gert í þessum efnum. Það ætti öllum líka að vera kunnugt um það, að erlend botnvörpuveiðiskip hafa hrúgazt á Vestfjarðamið, framar öðrum miðum, að undanförnu. Og alveg sérstaklega eftir að Bretar urðu að fara úr landhelginni fyrir réttu ári, hefur þrengzt um þar. Með útfærslu landhelginnar 1958 voru ýmsir firðir og flóar friðaðir fyrir öðrum landshlutum að meira eða minna leyti, en engu slíku var til að dreifa um Vestfirði, þar sem þeir eru þannig úr garði gerðir af náttúrunnar hendi, að þar voru ekki fyrir skagar eða nes, eyjar eða sker, sem gátu orðið þeim til verndar, sem um var þó að ræða fyrir ýmsum öðrum landshlutum. Og þannig er ástandið nú, að hin erlendu veiðiskip raða sér á þessi mið í svo stórum stíl, að það er varla um það að ræða, að vesfirzkir fiskibátar geti stundað veiðiskap annars staðar, en utan við þá torfu togara, sem þar er að veiðum. Þeir hafa ekki frið með sín veiðarfæri, nema með því móti að fara dýpra, sækja lengra. Hinir útlendu togarar fylkja sér þétt upp að landhelgislínunni, en hún liggur um miðbik fiskimiðanna, og því verða bátarnir að sækja enn þá dýpra, ef þeir eiga að geta stundað sínar veiðar. Við þetta bætist svo veiðiþjófnaður erlendra togara inni í sjálfri landhelginni, sem mönnum er kunnugt um og það er áberandi, að á s.l. ári skyldu ¾ hlutar þeirra togara, sem teknir voru í landhelgi við Ísland, vera teknir við Vestfirði. Og jafnvel síðan þetta mál var hér síðast á dagskrá hefur einn togari bætzt við enn þar vestra, sem hefur verið tekinn að landhelgisveiðum.

En málið er enn stærra en það, að mínum dómi, að það snerti aðeins Vestfirðinga. Ég er ekki í neinum vafa um það, að þessi ágangur erlendra togara á Vestfjarðamiðum hefur sín áhrif á fiskigöngurnar til Norðurlands og þar sé að leita skýringa á hinum gífurlega aflaskorti, sem þar hefur verið nú að undanförnu og er svo alvarlegur, að jafnvel er að leggja í rúst atvinnurekstur í sumum sjávarþorpum þar. Málið snertir því sannarlega fleiri, en Vestfirðinga eina.

Hæstv. dómsmrh. hefur rætt þetta mál á mjög hóflegan hátt hér áðan, en ræða hans fjallaði aðallega um sögu málsins allt frá 1948 og leitaðist hann við að sýna þá forustu, sem Sjálfstfl. hefði átt í þessum málum alla tíð síðan. Ég get ekkert verið að amast við því, þó að hann sé að rifja það upp. Hann sleppti þó einum kafla úr þeirri sögu og ekki alveg ómerkasta kaflanum, það var árinu 1958, hann talaði ekkert um neina forustu sjálfstæðismanna þá. Ég held, að ég hafi tekið rétt eftir, að hann hafi þó verið með lítils háttar aðfinnslur út af því, að þessi till. skuli flutt, engin slík till. hafi komið fram 1958, — og hvers vegna var þá ekki landhelgin færð út yfir landgrunnið fyrir Vestfjörðum? Það má þá alveg eins spyrja: Hvers vegna var það ekki gert 1952, þegar landhelgin var færð út í 4 mílur eða 1950, þegar hún var færð út fyrir Norðurlandi? Það má lengi spyrja þannig. Hinu verður tæplega neitað, að sporið, sem stigið var 1958, var þó sannarlega stærra, en öll önnur spor í þessu máli.

Hæstv. ráðh. vék að stærð fiskveiðalögsögu annarra þjóða, sem drepið er á grg. með þessari till. og minntist á ríkin í Suður-Ameríku. Las hann hér upp grg. frá Hans G. Andersen sendiherra um það efni og skal ég ekki fara út í þá sálma. Þó heyrðist mér, að í þeirri skýrslu fælist það, að þessi Suður- Ameríkuríki bönnuðu ekki veiðar innan landhelginnar, jafnvel heimiluðu veiðar. Íslendingar hafa líka heimilað veiðar innan sinnar landhelgi, svo að mér sýnist þá, að hér sé alveg um hliðstæður að ræða og ekkert, sem stangast á, svo að það er ótvírætt, að þeir hafa sína landhelgi svo stóra sem frá er greint í grg. með þessari till.

En það, sem var mest áberandi í ræðu hæstv. dómsmrh., var auðvitað það, að hann forðaðist eins og heitan eld að taka nokkra afstöðu til till. Það eina, sem ég gat tekið eftir í ræðu hans hvað þetta snertir, var það, að með þessari till. væri ekki verið að afla viðurkenningar á landgrunninu. En þá hlýtur maður að spyrja hæstv. ráðh.: Hvernig á þá að afla þessarar viðurkenningar? Ef við förum eitthvað skakkt að í þessum efnum, er ekkert annað en benda okkur á það, hvernig við áttum að fara rétt að. Hvernig áttum við að stíga spor í þá átt að afla þessarar viðurkenningar? Og ekki verður um það deilt, að Íslendingar hafa þennan rétt til landgrunnsins, enda sýnir það sig, hvernig Alþ. leit á það 5. maí 1959, þegar ákveðið var, að afla skyldi viðurkenningar á rétti Íslendinga til landgrunnsins alls. Það þurfti ekki að afla viðurkenningar á rétti, ef rétturinn var ekki til. Þess vegna er þar með sagt, að Íslendingar eiga þennan rétt og þar með er þessi till. á öruggum grunni reist. Réttinn eiga Íslendingar og ekkert að því að finna, þótt flutt sé till. um slíka stækkun, eins og hér er gert.

Ég harma það, að hæstv. ráðh. lét ekki í ljós skoðun sína á því, hvað hann vill í þessu máli og ég hlýt því að spyrja hann að því beinum orðum: Vill hann vinna að því, að landhelgin verði færð út fyrir Vestfjörðum, eða vill hann það ekki? Vill hann styðja að því, að þessi till. nái fram að ganga á þessu þingi, eða vill hann það ekki? Þetta er aðalefni þessa máls. En ef hann vill það ekki. ef hann er ósamþykkur þessari till. og er andvígur því, að hún verði samþ. hér á Alþ., hvað vill hann þá? Hann hefur ekki dregið í efa þörf Vestfirðinga fyrir stækkun landhelginnar. Og enginn, sem hér hefur talað, hefur gert það. En hvernig vilja þeir vinna að málinu, ef þeir vilja tryggja Vestfirðingum þá hagsmuni, ég vil segja: þá möguleika til að lifa lífinu þar fyrir vestan, — hvernig vilja þeir vinna að því máli? Um þetta vil ég spyrja og þetta tel ég aðalatriðið, en ég skal alveg leiða hjá mér að fara út í neinar deilur að öðru leyti um þetta mál. Og ég vænti þess, að hæstv. ráðh. leitist við að svara þessu. Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, að það er ekki vert að vera með deilur eða þras um málið að öðru leyti.

Ég skal taka undir með hv. 11. landsk. þm., að þetta mál ætti að vera hafið yfir alla flokka og dægurmál. Þetta er rétt. En ég minni á, hvernig það var hafið yfir flokkana, þegar verið var að semja við Breta. Það er ekki hægt að segja, að þessari lífsreglu hafi verið fylgt þá. En látum það liggja í láginni. Ég legg aðaláherzluna á þörfina hjá Vestfirðingum fyrir lausn á þessu máli annars vegar, hins vegar legg ég áherzlu á að fá svör hjá hæstv. ríkisstj. um það, hvernig hún vill vinna að málinu eða hvort hún vill ekkert að því vinna?

Ég skal að endingu lesa hér örstutt bréf, sem okkur þm. Vestfirðinga barst frá Alþýðusambandi Vestfjarða. Það er ekki gamalt, það er dagsett 20. marz þessa árs og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í tilefni af þáltill. um útfærslu fiskveiðilandhelginnar fyrir Vestfjörðum, sem þeir Hannibal Valdimarsson og Sigurvin Einarsson flytja á yfirstandandi Alþ., gerði stjórn Alþýðusambands Vestfjarða eftirfarandi samþykkt á fundi sínum í dag:

Í sambandi við þá þáltill. þeirra Hannibals Valdimarssonar og Sigurvins Einarssonar um útfærslu fiskveiðilandhelginnar fyrir Vestfjörðum lýsir stjórn Alþýðusambands Vestfjarða yfir þeirri skoðun sinni, að hún telur aðkallandi nauðsyn, að hraðað verði útfærslu fiskveiðilandhelginnar við Ísland, þannig, að hún taki til alls landgrunnsins. En þar sem ágangur erlendra togara er sérstaklega mikill úti fyrir Vestfjörðum, þannig að afkomumöguleikum íbúanna, sem að langmestu leyti byggjast á útgerð vélbáta, er stefnt í fyrirsjáanlegan og bráðan voða, verði ekki skjótt gripið til árangursríkra gagnráðstafana, telur stjórn Alþýðusambands Vestfjarða alls ekki hjá því komizt að gera tafarlaust sérstakar ráðstafanir varðandi friðun landgrunnsins fyrir Vestfjörðum. Stjórn Alþýðusambands Vestfjarða skorar því ákveðið á Alþingi að samþykkja grundvallaratriði fyrrgreindrar þáltill., friðun landgrunnsins fyrir Vestfjörðum og að friðunin komi til framkvæmda sem allra fyrst.

Framanrituð samþykkt er yður hér með send.

Virðingarfyllst,

f.h. Alþýðusambands Vestfjarða,

Björgvin Sighvatsson.“

Ég held, að það þurfi varla að vera að færa rök fyrir þörfinni á þessu máli og samþykkt sú, sem hér var vikið að áðan, frá bæjarstjórn Ísafjarðar, beinist að hinu sama, þar sem hún telur nauðsynlegt að friða landgrunnið allt fyrir Vestfjörðum.