24.03.1965
Sameinað þing: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í D-deild Alþingistíðinda. (3040)

127. mál, útfærsla fiskveiðilandhelginnar fyrir Vestfjörðum

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Ég vil ekki, að þessum fundi ljúki þannig, að það sé sagt, að ég hafi ekki tekið neina afstöðu til þess, hvað ég vildi gera í sambandi við útfærslu fiskveiðilögsögunnar á íslenzku landgrunni og mér er með öllu óskiljanlegt, hvernig hv. 3. þm. Vestf. getur hlustað á ræðu mína og sagt aðra eins fjarstæðu og þetta. Ég vék að almennu lögsögunni og fiskveiðilögsögunni, gerði grein fyrir því, að við Íslendingar höfum lagt megináherzluna á fiskveiðilögsögu okkar, útfærslu íslenzku fiskveiðilandhelginnar, fram til þessa. Það hefði hentað okkur bezt og þau ráð hefðu verið tekin. Um lögsöguna ríkti nokkur óvissa. Ég gerði grein fyrir því, að í nágrannalöndum okkar eða á Norðurlöndum væri hin almenna lögsaga 3–4 mílur. Ég teldi eðlilegast, að almenna lögsagan fylgdi fiskveiðilögsögunni og að því ætti að stefna hér og mundi verða, þegar á reyndi í framkvæmdinni, farsælast. Og um það, að íslenzka fiskveiðilandhelgin sé færð út yfir landgrunnið og þá jafnframt almenna lögsagan, sagði ég, það er rétt að, að þessu stefnum við. Ég sagði enn fremur í ræðu minni: Um hitt blandast okkur ekki hugur og það viljum við að umheimurinn viðurkenni, að landgrunnið er hluti af Íslandi. Um það, með hverjum hætti við komum öðrum þjóðum í skilning um þessi sannindi, skulum við bera ráð okkar saman.

Ég sé ekki ástæðu til þess að láta þessi orð verða fleiri, en vildi láta þetta koma strax fram, svo að enginn misskilningur væri um það í þessum umr.