24.03.1965
Sameinað þing: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í D-deild Alþingistíðinda. (3041)

127. mál, útfærsla fiskveiðilandhelginnar fyrir Vestfjörðum

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Mér skildist á því, sem hæstv. dómsmrh, sagði hér nú rétt áðan, að varðandi þá aðalleið, sem hann benti á til lausnar þessu máli eða því, hvernig við ættum að láta fiskveiðilandhelgina ná til landgrunnsins alls, benti hann helzt á það úrræði, að menn ættu að bera ráð sin saman og annað hefði hann ekki til málanna að leggja, ekki neinar ákveðnar leiðir. Út af fyrir sig sé ég ástæðu til að fagna þessari yfirlýsingu hæstv. dómsmrh., því að það er einmitt þetta, sem hefur ekki verið gert á undanförnum árum og það er einmitt þetta, sem veldur þeirri sjálfheldu, sem landhelgismálið er komið í. Ef sú regla hefði verið höfð á undanförnum árum og t.d. áður en samningarnir hófust við Breta 1960, að menn hefðu borið ráð sín saman og það hefði verið tekið tillit til þess, sem andstæðingarnir höfðu um þessi mál að segja, værum við áreiðanlega staddir í öðrum og betri sporum í dag. En svo lítið hefur verið gert að því, að menn bæru ráð sín saman, að það var ekki aðeins vanrækt að hafa samband við stjórnarandstöðuna allan þann tíma, sem unnið var að landhelgissamningnum, heldur var því til viðbótar stjórnarandstöðunni neitað um að fá að fylgjast með þeirri landhelgisráðstefnu, sem haldin var í Lundúnum á s.l. vetri og Ísland tók þátt í. Af hálfu Framsfl. var farið fram á það í utanrmn. að fá aðstöðu til þess að fylgjast með því, sem þar væri að gerast og því var eindregið neitað af hæstv. ríkisstj. Þess vegna, þegar þannig hefur verið haldið á þessum málum, en nú kemur fram yfirlýsing um það, að menn eigi að bera ráð sín saman, sé ég ástæðu til að fagna því, ef það er alvarlega meint.

Um þá till., sem hér liggur fyrir, vildi ég fyrst segja það, að ég álít þetta nauðsynlega till. frá því sjónarmiði, að með flutningi hennar hér á Alþ. er hafin ný sókn í þessu máli og ég álit, að það sé orðið fullkomlega tímabært, að það sé hafin sókn í þessu máli eða sókn fyrir því, að við tileinkum okkur allt landgrunnið. Hitt er svo annað má. og um það verður að sjálfsögðu síðar fjallað hér á þinginu og í þeirri n., sem þetta mál fær til athugunar, hvort það sé einmitt þessi leið, sem till. fjallar um, eða einhver önnur, sem er helzt líkleg til árangurs.

Það hygg ég, að mundi hafa verið tiltölulega auðvelt að koma slíkri till. fram eins og þeirri, sem hér liggur fyrir, ef aðstæður í þessu máli væru í dag eins og þær voru t.d. 1958. Ég held, að það hefði verið tiltölulega auðvelt, ef við hefðum enn haft einhliða útfærslurétt, að friða landgrunnið fyrir Vestfjörðum. Ég held, að sú þróun, sem síðar hefur átt sér stað í heiminum, mundi hafa gert það tiltölulega auðvelt að friða landgrunnið fyrir Vestfjörðum, eins og þar er ástatt, ef við byggðum í dag við svipaðar ástæður og voru í þessum efnum fyrir landhelgissamninginn 1961. Ég trúi því ekki, að ef við hefðum nú einhliða útfærslurétt eins og þá og eftir það, að Bretar hafa sjálfir stækkað sína fiskveiðilandhelgi úr 3 mílum í 12 mílur, eftir að þeir hafa sett sjálfir lög um að tileinka sér öll þau auðæfi, sem felast í botni landgrunnsins og eftir þá reynslu, sem við fengum af herskipagæzlunni hér með ofbeldi, sem þeir beittu okkur á sínum tíma, — ég held, að eftir þetta allt saman mundi hafa verið tiltölulega auðvelt fyrir okkur með einhliða ákvörðun að tileinka okkur til fiskveiða landgrunnið úti fyrir Vestfjörðum, ef við værum ekki bundnir af ákvæði samningsins frá 1961. En ég hef hins vegar jafnan lítið svo á, að það væri mjög hæpið fyrir okkur og reyndar aðrar þjóðir að eiga nokkuð undir úrskurði Alþjóðadómstólsins í þessum efnum, eins og við erum skuldbundnir til samkv. samningnum frá 1961. Ég álít, að það sé alveg sjálfsagt og það sé alveg sérstök ástæða til þess að leggja áherzlu á það við smáþjóð, að um allt, sem lýtur framkvæmd viðurkenndra alþjóðalaga og alþjóðareglna, eigi að fara eftir úrskurði Alþjóðadómstólsins, ef mál eru látin ganga til hans. Nú er hins vegar þannig háttað í þessum efnum, eins og öllum hv. þm. er kunnugt, að varðandi víðáttu fiskveiðilandhelginnar eru ekki til nein alþjóðalög, engir alþjóðasamningar og engin viðurkennd hefð í þessum efnum. Og það veit þess vegna enginn, á hverju Alþjóðadómstóllinn kynni að byggja úrskurð í þessum efnum. Það eina, sem er líklegt, er, að undir slíkum kringumstæðum, þar sem ekki er eftir neinum lögum eða reglum að fara, verði dómurinn mjög íhaldssamur í sínum úrskurði. Það býst ég við, að flestir mundu verða í hans sporum eða þeirra dómara, sem þar sætu, vegna þess að með þessu eru þeir ekki raunverulega að kveða upp dóm, þeir eru að setja lög. Þeir eru að skapa hefð með sínum úrskurði, en ekki að dæma eftir lögum eða reglum, sem hægt er að vitna ákveðið til. Enda er það svo, að ég held, að það sé engin þjóð í heiminum, önnur en Íslendingar, sem hafi lagt sig undir það að verða að hlíta úrskurði Alþjóðadómstólsins í þessum efnum. Ég held, að það sé þannig ástatt um allar aðrar þjóðir, að annaðhvort hafa þær gert ákveðna samninga um þessi mál við nágrannaþjóðir sínar, samninga, sem eru uppsegjanlegir, ellegar þær hafa enga samninga gert og notfæra sér hinn einhliða útfærslurétt, eftir því sem þær telja rétt á hverjum tíma.

Í þessum efnum er ekki úr vegi að vitna til þess samnings, sem hv. 6. landsk. minntist á hér áðan. Það er Lundúnasamningurinn, sem gerður var á s.l. ári og 14 nágrannaþjóðir okkar eru aðilar að. Þessi samningur er með skýru uppsagnarákvæði. Hann er með því ákvæði, að þegar 20 ár eru liðin frá undirritun samningsins, getur hvaða samningsaðili sem er eða hvaða ríki sem er aðili að samningnum sagt honum upp með 2 ára fyrirvara og er þar með ekki lengur háð þeim ákvæðum, sem í samningnum eru.

Ég held, að ef við virðum fyrir okkur landhelgissamninginn frá 1961, þá varpi þetta ljósi á langstærsta galla þess samnings, þann galla, að þar er ekki að finna neitt uppsagnarákvæði og þess vegna erum við, ef engar breytingar verða á því, bundnir við þessa hnappeldu um aldur og ævi.

Ég held, að það sé rétt að nefna nokkur dæmi til að skýra þetta örlítið betur. Á s.l. vori reis upp nokkur deila út af ævisögu Hannesar Hafsteins og Uppkastinu 1908 milli hæstv. forsrh. og eins af blaðamönnum Morgunblaðsins, Sigurðar A. Magnússonar, og ég held, að í einhverjum af sínum greinum hafi Sigurður A. Magnússon haldið því fram, að það væri ekki mjög mikill munur á Uppkastinu 1908 og ályktun Þingvallafundarins, sem var haldinn 1907 og landvarnarmenn svo kallaðir stóðu að. Hæstv. forsrh. svaraði þessum samanburði Sigurðar A Magnússonar í Morgunblaðinu og ég vil leyfa mér, með samþykki hæstv. forseta, að lesa örstutta kafla upp úr því. Hæstv. forsrh. farast m.a. orð á þessa leið: „Nú birtir Sigurður A. Magnússon í ræðu sinni ályktun Þingvallafundarins 1907 um sáttmála gerðan við Dani, en í tilvitnun sinni sleppir hann í miðju kafi án nokkurra úrfellismerkja þessum orðum: „En þeim sáttmála má hvor aðili um sig segja upp.“ Og við þessi orð bætir hæstv. forsrh.: „Þetta eru þó úrslitaorð.“ Og það er vissulega rétt, að í öllum samningum eru það úrslitaorð, hvort samningurinn er uppsegjanlegur eða ekki og þetta útskýrir hæstv. forsrh. nokkru betur í grein sinni þegar hann rifjar upp, hvernig Íslendingar hafa yfirleitt haldið á samningum að undanförnu. Hæstv. forsrh. segir í grein sinni á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Við skulum líta á síðari atburði. Bandaríkjamenn óskuðu á árinu 1945 eftir herstöðvum hér til 99 ára. Fáir lögðu þeirri ósk lið, en meiri hluti samþykkti að ganga í Atlantshafsbandalagið, sem með einhliða uppsögn er hægt að hverfa úr að 20 árum liðnum, frá því að það var stofnað. Síðar var á grundvelli þess samnings gerður varnarsamningur við Bandaríkin, sem Íslendingar geta einnig með einhliða uppsögn og hæfilegum fresti losað sig við, ef mönnum býður svo við að horfa. Þessi dæmi sýna glöggt, hvílíkur megin munur er að gera samning, sem gilda á fyrir margar kynslóðir, hvað þá um alla framtíð, nema gagnaðili fallist eftir eigin geðþótta á annað, eða semja til tiltölulega skamms tíma og ráða þá sjálfur, hvort maður vill vera laus.“

Hæstv. forsrh. bendir hér réttilega á það, að í öllum samningum, sem Íslendingar hafa gert á undanförnum árum, — og það eru ekki Íslendingar einir, heldur allar sjálfstæðar þjóðir, — þá er lögð á það megináherzla, að í slíkum samningum sé uppsagnarákvæði og það sé hægt að losna við þennan samning eftir tilskilinn tíma, ef viðkomandi þjóð býður svo við að horfa og hún álitur það nauðsynlegt.

Landhelgissamningurinn frá 1961 er eina undantekningin af þeim samningum, sem Íslendingar hafa gert sem sjálfstæð þjóð. Jafnvel Danir, þegar þeir sömdu fyrir okkur 1901 við Breta um landhelgismálin þá, þeir gengu þannig frá þeim samningi, að hann var uppsegjanlegur og vegna þess að sá samningur var uppsegjanlegur og við með uppsögn hans gátum tryggt okkur einhliða samningsrétt, þá höfum við náð þeim áföngum í landhelgismálinu, sem raun hefur á orðið á undanförnum árum.

Frá mínu sjónarmiði séð er það langstærsta og mikilvægasta atriðið í þessum málum, að við getum með einhverjum hætti losnað undan landhelgissamningnum frá 1961 eða a.m.k. öðlazt uppsagnarrétt í sambandi við hann og þess vegna finnst mér það mjög koma til athugunar, hvort ekki eigi að fara inn á þá leið að hefja þegar áróður við viðkomandi aðila, þ.e. við Bretland og Vestur-Þýzkaland, að þessum samningi verði a.m.k. breytt í það horf, að hann verði uppsegjanlegur, því að mér segir svo hugur um, að það verði mjög erfitt að koma nokkru fram um þessi mál, meðan við erum háðir bindingarákvæðum landhelgissamningsins frá 1961. Og ég held, að það ætti að gefa okkur aukinn styrk til að sækja á um þetta, að Bretar sjálfir, þegar þeir semja um sína landhelgi, eins og þeir gerðu á s.l. ári, þá ganga þeir þannig frá, að sá samningur lýsi skýlausum uppsagnarrétti eftir ákveðinn tíma.

Ég vildi þess vegna varpa fram þeirri hugmynd hér, hvort ekki gæti orðið samkomulag um það milli allra aðila að sameinast um, að sókn sé hafin fyrir því við viðkomandi aðila, að við fáum þá breytingu á landhelgissamningnum frá 1961, að hann verði a.m.k. uppsegjanlegur, því að óuppsegjanleiki hans er áreiðanlega langversta atriðið í þeim samningi, langhættulegasta atriðið í þeim samningi, sem getur orðið okkur mikill fjötur um fót um langa framtíð, nema þessu hafti, verði af okkur létt.

Ég vil að lokum segja það, að þó að ég hafi varpað þessari till. fram hér og þó að önnur leið finnist í þessari till., sem hér liggur fyrir, þá kunna einhverjar aðrar leiðir að koma til greina, til þess að við öðlumst sem fyrst yfirráð yfir landgrunninu, eins og við viljum stefna að. En það er þá þessara aðila, sem ekki vilja fallast á þessar leiðir, sem ég hef nú nefnt, að benda á einhverjar færar leiðir í þeim efnum og athuga, hvort ekki sé hægt að ná samstöðu um þessar lausnir eða einhverjar aðrar, sem eru líklegar til þess að bera árangur. Og ég vil að lokum segja það, að ég vænti þess, að þetta mál, eftir að það hefur gengið til nefndar, þá fái það rækilega athugun og menn beri þá ráð sín saman, eins og hæstv. dómsmrh. sagði, og helzt ljúki þessu þingi ekki öðruvísi, en einhver stefna verði mörkuð í þessum málum, að það verði teknar einhverjar aðgerðir til framgangs því, að við náum landgrunninu undir okkar yfirráð sem allra fyrst.