24.03.1965
Sameinað þing: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í D-deild Alþingistíðinda. (3042)

127. mál, útfærsla fiskveiðilandhelginnar fyrir Vestfjörðum

Forsrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Án þess að það skipti miklu máli, vildi ég mótmæla því, sem hv. 5. þm. Reykv. gerði hér áðan, að kenna mér nafnlausar greinar í Morgunblaðinu. Þær greinar, sem þar eru skrifaðar án nafns, eru að sjálfsögðu á ábyrgð ritstjóra blaðsins. Með því er ég ekki að mótmæla því, að ég hafi skrifað þá grein, sem hér er vitnað til. Það kemur hv. þm. bókstaflega ekkert við, hvort ég hef skrifað hana eða ekki. Að sjálfsögðu er það, sem nafnlaust er skrifað í það blað, á ábyrgð ritstjóra blaðsins, eins og það, sem nafnlaust er skrifað í Tímann, er á ábyrgð hv. þm. sem ritstjóra Tímans. En þetta er auðvitað algert aukaatriði.

Ég vil hins vegar mjög mótmæla þeim málflutningi hv. þm. og raunar að nokkru leyti líka hv. 5. þm. Austf., þó að hann færi þar miklu hóflegar í sakir, að telja það fyrir fram víst, að alþjóðadómstóll hljóti að vera á móti okkar ákvörðunum, sem við kunnum að taka um að helga okkur landgrunnið allt. Þeirra rökfærsla fyrir þessu er ákaflega hættuleg. Með því eru þeir fyrir fram að smíða vopn í hendur okkar andstæðinga.

Þegar hv. 5. þm. Reykv. telur, að það sé skilyrði fyrir því, að við fáum landgrunnið allt, að við losum okkur við þá skuldbindingu, að ágreiningur um þetta eigi að lokum að koma undir Alþjóðadómstólinn, er hann að halda því þar með fram, að við ætlum ekki að fara að alþjóðalögum. Verri ógreiða, en að halda þessu fram í upphafi sóknar í þessu máli, sem hann sagði að væri nú einmitt að hefjast, er ekki hægt að gera málstað Íslands. Ég er viss um, að ef þessi hv. þm. hefði tekið sér einhvern umhugsunartíma, en ekki látið í senn fljótræði og illkvittni ráða, þá hefði hann ekki flutt þessa furðulegu ræðu, sem hann gerði hér.

Nú er það svo, að Alþingi Íslendinga hefur hinn 5. maí 1959 allt sameinazt um það að lýsa yfir, að við þurfum á að halda viðurkenningu á rétti okkar til landgrunnsins alls. Alþingi greindi á milli í samþykkt sinni 1959 annars vegar 12 mílna landhelginnar, þar sem talið var, að fyrir hendi væri þá þegar ótvírætt einhliða réttur og því lýst yfir, að frá þeim rétti mundum við ekki hvika, hins vegar, að réttarstaðan varðandi landgrunnið fyrir utan 12 mílurnar væri enn þannig, að það væri ekki búið að fá sams konar viðurkenningu og væri fyrir höndum varðandi 12 mílurnar, miðað við réttarstöðu 1959.

Nú er hægt að afla þessarar viðurkenningar, sem Alþingi þarna lýsti yfir að þyrfti að fá, með ýmsu móti. Það væri hægt að afla hennar með samningum við þau ríki, sem mest eiga í húfi um það, að við tileinkum okkur beitingu þessa réttar, sem við teljum okkur eiga. Ég er hv. 5. þm. Austf. sammála um það, að ef við ætlum að bíða eftir fyrir fram samþykki þessara aðila, þá verði málið mjög seint sótt. En eins og glögglega hefur komið fram og sérstaklega hv. 8. landsk. þm. gerði grein fyrir, en raunar einnig kom fram í hinni annars mjög fávíslegu ræðu hv. 5. þm. Reykv., þá er í þessum málum öllum mjög ör réttarþróun. Jafnvel hv. 5. þm. Reykv. virtist halda því fram, að það hefði orðið mikill munur á réttarskoðun varðandi landgrunnið nú frá tímanum 1958, enda er óskiljanlegt, að hann og aðrir þeir, sem réðu ferðinni 1958, hefðu ekki strax tekið landgrunnið allt með ákvörðunum, sem þá voru gerðar, ef þeir litu ekki einmitt þannig á. Það, sem liggur fyrir, er, eins og hv. 5. þm. Austf. réttilega sagði, að við verðum að meta, hvenær réttarþróunin er komin á það stig, að einhliða yfirlýsing af okkar hálfu hafi von til að standast að alþjóðalögum.

Ég skora á þessa þm. að lýsa því yfir: Telja þeir, að við höfum hingað til nokkurn tíma gert nokkuð, sem ekki stóðst að alþjóðalögum? Ef þeir telja, að við höfum hingað til farið að alþjóðalögum, — og ég skora á þá að lýsa yfir, ef þeir telja, að við höfum ekki gert það, — þá hefðum við að þeirra mati sigrað í máli fyrir Alþjóðadómstólnum. Það er hann, sem að lokum sker úr um það, hver alþjóðalög séu í þessu, alveg eins og það var hann, sem lagði með dómnum í deilumáli Breta og Norðmanna grundvöllinn að öllu því, sem við höfum síðan gert í málinu og hefur átt stórkostlegan þátt í þeirri þróun, sem hinar formlega árangurslausu ráðstefnur í Genf 1958 og 1960 eru þó vitni um, vegna þess að allir gera sér ljóst, að þó að þær kæmust ekki að formlegri niðurstöðu, þá áttu þær mjög mikinn þátt í þeirri réttarþróun, sem gerði það að verkum, að við náðum að lokum samningnum við Breta 1961.

Það er misskilningur hjá hv. 6. þm. Austf., sem hann sagði, að blöð hefðu haldið einhverju ranglega fram um þær yfirlýsingar, sem fólust í skuldbindingum, sem Íslendingar hefðu tekið á sig, ef fram hefðu náð að ganga alþjóðasamþykktir, sem við studdum 1958 og 1960. Það er óhagganlegt, að þær samþykktir höfðu í sér fólgnar skuldbindingar um að gera ekki einhliða ráðstafanir fyrir utan 12 mílur. Hins vegar börðumst við fyrir, en fengum ekki, að það yrðu veittar heimildir til slíkra aðgerða, en þá átti þar úr að skera að lokum gerðardómur, hvort slíkar ráðstafanir væru gerðar af nauðsyn eða nauðsyn ekki.

Hv. þingmenn segja, að það séu engin alþjóðalög, sem segi til í þessu efni og hafi engin alþjóðalög verið til, sem heimiluðu 12 mílna landhelgi. Um þetta er bezt fyrir þá að tala mjög varlega og ég skal ekki hér fara að þræta við þá um þau atriði. En það lá einmitt fyrir álit alþjóða lögfræðinganefndar um, að opið væri um heimild til útfærslu allt upp í 12 mílur einhliða. Þetta lá fyrir, þegar málið kom til úrslitameðferðar á þessum alþjóðaráðstefnum. Hins vegar er þróunin skemmra komin varðandi aðstöðuna fyrir utan 12 mílur, þótt á landgrunni sé og það er alveg rétt, eins og hv. 5. þm. Austf. sagði, að við verðum að bíða eftir því, að sú þróun komist á það stig, að við höfum von til sigurs, að það sé hyggilegt fyrir okkur að hefja athafnir. Og það er einmitt á þann sama veg, sem ég skildi orð hv. 6. landsk. þm. áðan, þegar hann efaðist um, að þessi till., sem hér liggur fyrir, væri líkleg til þess að gera málinu gagn. Það er ekki vegna þess, að neinn okkar hér sé andstæður því, sem þarna eigi að gera, eða sé ekki sannfærður um, að þetta sé nauðsynlegt, enda liggur það fyrir. Það liggur fyrir frá 1948, það liggur fyrir frá 1959, það liggur fyrir, eins og hér var sagt, frá 1961, að við viljum allir eftir þessu keppa. En það verður að velja þá réttu aðferð til þess að sækja eftir þessu keppikefli okkar og það verður að velja þann rétta tíma og það eru margar mismunandi leiðir, sem þar koma til álita, eins og hv. 5. þm. Austf. réttilega benti á.

Þess vegna segi ég síður en svo, að það sé illa farið, að þessi till. sé fram borin eða komi hér til umr. Það er út af fyrir sig eðlilegt, að það fólk, sem mest brennur á í þessu efni, eggi okkur til framsóknar í málinu, þetta skil ég, alveg eins og það er nauðsynlegt, að það skilji, að það getur gersamlega snúizt við í hendi okkar, ef hér er rasað fyrir ráð fram og það er mjög varhugavert að taka þetta mál upp eins og fyrst og fremst 5. þm. Reykv. gerði, — ég legg áherzlu á það, að það var hann, sem skar sig úr um það að setja þetta mál yfir á hreinan deilugrundvöll, ætlaði að ná klámhöggi á sínum andstæðingum, en varar sig ekki á því, að þar með er hann að reyna að slá rétt úr höndum íslenzku þjóðarinnar og búa til vopn í hendur þeirra, sem okkur eru andstæðir í þessu máli. Það eru slíkar umr. af hálfu ofstækismanna, svo að ég segi ekki illkvittnismanna, sem eru varhugaverðastar í þessu efni.

Við komumst ekki, smæstir allra þjóða, áfram í þessu máli, nema því aðeins að við förum að alþjóðalögum. Það er alger misskilningur, að til þess að alþjóðalög þurfi að vera fyrir hendi, þá þurfi allsherjarsamþykkt. Það er að lokum alþjóðadómstólsins að meta, hvort eitthvað sé alþjóðalög, sem gert er eða gert er ekki og dómur alþjóðadómstólsins í deilumáli Norðmanna og Breta sýndi, að það er síður en svo, að hann sé íhaldssamur í þessum efnum, síður en svo, að hann virði að engu lífshagsmuni fólksins, sem býr á ströndinni, vegna þess að einmitt til þeirra er vitnað í þessum dómi og þar með var sköpuð eða fram sett, getum við sagt, sú megin réttarregla, sem okkur verður haldbezt í þessum efnum. Að það sé smáríki eins og okkar til trafala eða hættu, að úr slíku deilumáli verði skorið af alþjóðadómstóli, en ekki með afli, til þess þarf einstakan glópalda að halda slíku fram.

Ég segi það hiklaust, að þeir, sem halda, að við ofan í það, sem talin yrðu viðurkennd alþjóðalög, gætum tekið upp baráttu gegn stórveldum, þeir eru að leika sér að fjöreggi, ekki aðeins lífshagsmunum íslenzku þjóðarinnar, sem koma fram í landhelgismálinu, heldur fjöreggi frelsis íslenzku þjóðarinnar, möguleika þess, að réttur okkar til þess að lifa sem sjálfstæð þjóð fái staðizt og það er miklu alvarlegra mál, að slíku sé haldið fram í sölum Alþingis, heldur en jafnvel sá þm. getur bætt fyrir, þó að hann sæi að sér, sem ég efast um að hann hafi manndóm til. Hitt spyr ég svo um, þegar hann segir: Hvenær hefur íslenzka þjóðin gert samninga án þess að þeim fylgi uppsagnarákvæði? — Ég spyr hann, sem hefur verið fulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum: Hvar eru uppsagnarákvæði þess sáttmála?