07.04.1965
Sameinað þing: 40. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í D-deild Alþingistíðinda. (3045)

127. mál, útfærsla fiskveiðilandhelginnar fyrir Vestfjörðum

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Það er aðeins rúmt ár síðan síðasta aðgerð okkar í landhelgismálinu, útfærslan í 12 mílur, kom til fullra framkvæmda gagnvart öðrum þjóðum, og liðu þannig 16 ár frá setningu laganna um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins árið 1948, unz þessum áfanga var endanlega náð. Við erum samt enn þá langt frá því takmarki, sem stefnt er að með umræddum lögum, sem sé því að afla viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins alls. Í sókninni hefur til þessa farið saman athafnasemi okkar sjálfra og atburðarásin meðal annarra þjóða, sem orðið hefur okkur á ýmsan hátt hagstæð og má þar fyrst til nefna úrskurð Alþjóðadómstólsins í Haag um grunnlínustaðina við Noreg. Þessi reynsla sýnir okkur, að athafnasemi okkar sjálfra er ekki það eina, sem til þarf, til þess að árangurs sé að vænta, heldur erum við einnig háðir öðrum í þessu máli og þurfum með tilliti til þess að velja vandlega tíma og tækifæri til þeirra aðgerða, sem við að lokum tökum ákvarðanir um.

Góður skilningur á þessu fannst mér koma fram í ræðu hv. 5. þm. Austf. (LJós) við þessa umr., þegar hann sagði eitthvað á þá leið, að vinna þyrfti að því að ná settu marki, eftir því sem framkvæmanlegt er og hagstæðast á hverjum tíma og einnig þegar hann gat þess, að í þeim áföngum, sem þegar hefðu verið farnir, hafi legið ákveðnar ástæður til þess í hvert skipti, að einmitt þeir áfangar urðu fyrir valinu.

Rökstuðningur fyrir öllu, sem við gerum í landhelgismálinu, þarf jafnframt að vera haldgóður og traustur, eins og hv. 6. landsk. þm. (DÓ) benti réttilega á í sinni ræðu.

Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir til umr., er þess efnis, að með reglugerðarbreyt. skuli ákveðið, að fiskveiðilandhelgin fyrir Vestfjörðum skuli taka til vestfirzka landgrunnsins alls, austan frá Húnaflóa og suður á Breiðafjörð, eins og það er orðað í till., og skal þessi breyt. taka gildi eigi síðar en 15. okt. n.k. Sú útfærsla, landhelginnar, sem till. gerir ráð fyrir, er afar þýðingarmikil fyrir vestfirzka útgerð og vestfirzka byggð sérstakleg, og þó mundi hún ekki síður vera mikilvæg fyrir landið í heild, vegna þess að með slíkri útfærslu við Vestfirði yrði jafnframt hafin ný sókn í landhelgismálinu, sókn, sem mikið veltur á, að sé þannig skipulögð frá upphafi, að góðs árangurs sé að vænta. Þess vegna, snertir þetta mál ekki Vestfirðinga eina, heldur landsmenn alla og vegna málefnisins hefði að sjálfsögðu verið æskilegast, að um till. næðist í upphafi sem víðtækast samkomulag.

En hvernig leituðu hv. flm. till. eftir slíkri samstöðu meðal þm. Vestfirðinga? Því hefur að nokkru verið lýst í þessum umr. af hv. 11. landsk. þm. (MB), sem gat þess m.a. í sinni ræðu, að hv. fyrri flm. þáltill. hefði sýnt sér till. þann 10. febr. s.l. síðdegis og heimtað svo að segja tafarlaust svar. Hvað sjálfan mig snertir bar þetta svipað að. Hv. 5. þm. Vestf. (HV) sýndi mér till. umræddan dag. Ég sagði honum reyndar, að fljótt á lítið teldi ég till. ekki aðgengilega, hvorki fyrir mig né minn flokk, en sagðist mundu leggja hana fyrir þingflokksfund Alþfl. og gefa honum ákveðið svar um það, hvort ég vildi gerast meðflm. að till. eða ekki, eftir þann fund. Síðan skeði það svo daginn eftir, að till. var útbýtt í þinginu, án þess að mér gæfist nokkurt tækifæri til að koma svari mínu á framfæri við hv. flm. till. Það er þess vegna alveg út í hött, þegar hv. 5. þm. Vestf. lætur sem svo í framsöguræðu sinni fyrir till., að stuðningsmönnum stjórnarinnar í hópi Vestfjarðaþm. hafi gefizt tækifæri til að fá breytt búningi eða orðaagi till. Hv. þm. gætti þess vandlega að gefa okkur ekki tækifæri til slíks, vegna þess að honum var meira í mun að núa okkur því um nasir, að við værum á móti till. og að okkur væri „synjað um aðild að slíkri till. af forustu Sjálfstfl. og Alþfl.“ eins og hann orðaði það.

Um þessi vinnubrögð í jafnörlagaríku máli þarf ekki að hafa mörg orð. Þau lýsa vel þeirri áráttu hv. flm. till. að gera öll mál að áróðursmálum og skeyta þá lítt um málefnið sjálft, hvort þeir geri því gagn eða ógagn. Þessi árátta er báðum hv. flm. till. ásköpuð, en svo verður hver að vera sem hann er gerður.

Skal ég svo ekki ræða þennan furðulega undirbúning málsins frekar. En það verð ég að segja, að oft hafa menn fengið umhugsunartíma af minna tilefni en þessu og oft hafa sjálfsagt þm. einstakra kjördæma og þn. haft ekki eina, heldur tvær eða fleiri umr. um þýðingar minni mál, en sjálft landhelgismálið og að öllu sjálfráðu hefðu svo þingvanir menn sem hv. 5. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Vestf. átt að viðhafa þannig vinnubrögð við undirbúning þessa más, en hjá þeim er málefnið aukaatriði, áróðurinn allt.

Með flutningi þessarar till. hyggjast hv. flm. vinna tvennt í áróðri sínum: Annars vegar að stilla stuðningsmönnum ríkisstj. í Vestfjarðakjördæmi upp við vegg, en hins vegar að fá Vestfirðinga til að trúa því, að landhelgismálið og þá einkum útfærslan við Vestfirði sé jafnauðvelt og till. þeirra gerir ráð fyrir. Það þurfi sem sé ekki annað en að samþykkja slíka till. hér á hv. Alþ., þá sé allt fengið í þessu efni. Svona einfalt er málið því miður ekki og það vita hv. flm. till. mæta vel. Þetta skal ég rökstyðja með fáeinum orðum og þá um leið gera grein fyrir, hvers vegna ég álít umrædda þáltill. gagnslitla í mállinu til annars en þess að koma af stað um það umr. en það út af fyrir sig getur verið gagnlegt og með það í huga tjáði ég hv. 5. þm. Vestf., þegar hann sýndi mér till. 10. febr. s.l., að ég væri því síður en svo mótfallinn, að málið yrði tekið upp á þinginu.

Skemmst af að segja skortir málið allan nauðsynlegan undirbúning. En það ættum við að hafa lært af því, sem áður hefur gerzt í landhelgismálinu, að flasfengi og flaustur eru ekki líkleg til góðs árangurs. Það, sem áunnizt hefur, er allt því að þakka, að allar fyrri aðgerðir okkar voru, þegar til kastanna kom, vandlega undirbúnar bæði hér heima og erlendis. Sú saga hefur að nokkru verið rakin við þessar umr. af öðrum. Og því til viðbótar vil ég aðeins minna á, hversu mikill styrkur var að því fyrir málstað okkar við útfærsluna 1958, að allar þjóðir, sem hagsmuna höfðu að gæta, aðrar en Bretar, höfðu í reynd fallizt á aðgerðir okkar, þótt sumar þeirra sendu mótmæli til málamynda. Og þetta var því að þakka, að utanríkisþjónusta okkar hafði undir ötulli forustu núverandi og þáverandi hæstv. utanrrh. unnið dyggilega að því að kynna og túlka málstað okkar. Það er nú einu sinni staðreynd, sem ekki verður umflúin, að á alþjóðavettvangi var ekki litið á útfærslu íslenzku landhelginnar úr 3 mílum í 12 mílur sem algert einkamál Íslendinga og þarf þá nokkur að ganga þess dulinn, að ekki verði heldur á alþjóðlegum vettvangi litið á það sem einkamál okkar, þegar við tökum okkur fiskveiðilögsögu eða lögsögu á öllu landgrunninu? Nei, við þurftum að vanda vel undirbúning þess, sem gerzt hefur og vissulega þarf ekki síður að vanda vel til þeirra aðgerða, sem fram undan eru, til þess að við náum því takmarki að afla okkur viðurkenningar annarra á rétti Íslands til landgrunnsins alls, svo sem stefnt er að með lögunum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948.

Vil ég í þessu sambandi benda á, að ef við ætlum okkur að sækja fram í áttina að þessu marki á þann hátt, sem í þáltill. segir, að færa út landhelgina við einstaka landshluta, verðum við um leið að vera fullkomlega öruggir um, að slíkar aðgerðir fái staðizt sem þættir í áframhaldandi sókn að því lokatakmarki, að fiskimiðin á landgrunninu umhverfis allt landið verði hagnýtt af Íslendingum einum. Ef svo kynni að vera, að slíkt samræmi væri ekki tryggt með þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, mundi till., eins og hún er, alls ekki ná fram að ganga, því að fleiri þurfa að koma á eftir, eins og hv. 5. þm. Austf. vék skilmerkilega að í sinni ræðu, þegar hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég lít þannig á þetta mál. að, að sjálfsögðu hljóti að koma til þess, að útfærslan úr 12 mílum nái ekki aðeins til Vestfjarða. Ég er ekki í neinum vafa um, að slík útfærsla verður að ná til fleiri landshluta tiltölulega fljótlega. Við vitum það, að þýðingarmestu fiskimið austfirzkra fiskibáta eru nú fyrir utan 12 mílna mörkin, alveg eins og þýðingarmestu fiskimið þeirra á Vestfjörðum liggja fyrir utan 12 mílna mörkin, því að það eru í rauninni ekki nema hinir minni bátar, sem stunda sínar aðalveiðar innan 12 mílna markanna.“

Þetta er tvímælalaust rétt athugað hjá hv. 5. þm. Austf. En hefur hann gert sér nokkra grein fyrir, hvernig framhaldið yrði í landhelgismálinu, ef till. sú, sem hér liggur fyrir, yrði samþykkt? Ég hygg, að sú hlið málsins hljóti að vera ókönnuð, bæði hjá hv. þm. og öðrum og þess vegna m.a. sé þörf á að skoða allt þetta mál miklu rækilegar, en gert hefur verið.

Þegar ég nú segi þetta, er sem ég heyri athugasemdir hv. flm. á þá leið, að ég sé að spilla fyrir því, að Vestfirðingar fái landhelgina færða út á takmörk landgrunnsins á undan öðrum. En ekkert er fjær sanni. Mér er áreiðanlega eins ljós þörf Vestfirðinga fyrir frekari útfærslu og hv. tillögumönnum sjálfum. En mér er það einnig ljóst, að útfærslan við Vestfirði getur ekki skeð sem einangruð aðgerð. Á þann hátt fáum við engu áorkað og til þess að við getum hafið sókn í áttina að því takmarki að helga okkur allt landgrunnið til fiskveiða, annaðhvort í áföngum eins og þeim, sem þáltill. gerir ráð fyrir eða fyrir landið allt, álít ég, að skorti eitt grundvallaratriði, sem mikið veltur á þ.e. skýringu á hugtakinu landgrunn, sem þannig sé gerð, að fiskveiðilögsagan nái ekki aðeins til landgrunnsins í bókstaflegri merkingu, heldur einnig til þeirra mörgu ála og djúpa, sem skerast inn í landgrunnið eins og firðir og margir hafa að geyma auðugustu fiskimiðin við landið. Slík skýring á þessu hugtaki er ekki til, svo að mér sé kunnugt, en hún hlýtur að mínum dómi að vera nauðsynlegur undanfari næstu aðgerða okkar í landhelgismálinu, því að ekki get ég ímyndað mér, að framkvæmanlegt sé að gæta landhelgislínu, sem væri í lögun eins og það landgrunn, sem sýnt er á korti með umræddri þáltill. á þskj. 254. Til þess að tryggja okkur veiðina í álunum og djúpunum, þurfum við sennilega að fá eins konar grunnlínupunkta á landgrunninu. Verður þá hægt að setja út í kort nýja landhelgislínu fyrir utan álana og djúpin á þann hátt, að fiskimiðin í þeim lendi innan línunnar og þannig sé um hnútana búið, að framkvæmanlegt sé að gæta landhelginnar. Svo kemur það til, eins og umrædd mynd sýnir einnig, að landgrunnið nær misjafnlega langt út frá, einstökum landshlutum og er mér ekki kunnugt um, að neitt hafi verið athugað, hvernig brugðizt skuli við því. Stundum heyrist að vísu nefnt, að landgrunnið sé allt það, sem er innan 200 m. dýptarlínu, en víða við landið mundi sú viðmiðun trúlega vera hæpin til þess að byggja á henni sektar- eða sýknudóm í landhelgisbrotamálum. Í þessu sambandi skulum við hafa það hugfast, að landhelgislínan er hvorki jarðföst girðing né aðskilnaðarmúr, heldur hugsuð lína, sem sett er út í kort eftir vissum reglum og er engan veginn auðvelt að sanna, svo að ekki verði um villzt, að skip hafi verið að óleyfilegum veiðum fyrir innan þannig hugsaða línu, vegna þess, að fyrst þarf að sanna örugglega, hvar línan á að liggja samkv. mælingum. Hjálpartæki við staðarákvarðanir eru að vísu orðin mörg og fullkomin, en samt sem áður er það svo, að hæstiréttur Íslands vefengir slíkar staðarákvarðanir á þann hátt t.d. að gera ráð fyrir skekkjum í ratsjármælingum, sem séu einhliða hinum ákærðu landhelgisbrjótum í vil.

Þetta hefur m.a. komið fram í mörgum dómum hæstaréttar og er reiknað með allt að 2% skekkju í ratsjármælingunum. Í annan stað verður vegna dóma hæstaréttar í landhelgisbrotamálum að fara eftir mjög ströngum reglum um óslitna eftirför varðskipa á eftir landhelgisbrjótum, ef þeir nást ekki fyrr, en komið er út fyrir landhelgi og sömuleiðis gerir hæstiréttur mjög strangar kröfur til þess, að sending stöðvunarmerkja hafi verið framkvæmd fullkomlega. Ef eitthvað er hægt að finna að aðgerðum varðskipanna varðandi áminnzt atriði, túlkar hæstiréttur allt slíkt sakborningum í vil, jafnvel svo, að niðurstaðan verður sýknudómur eða frávísun, þótt fullkomnar líkur séu fyrir því, að um landhelgisbrot hafi verið að ræða og raunar enginn efi. Þessi atriði leiddu m.a. til sýknu í málum Richards Taylors skipstjóra á togaranum James Barry H 15 í nóv. s.l. og Williams Spearpoints skipstjóra á togaranum Wyer Wanguard F 38 nú í marz, en bæði þessi skip voru í sama skiptið staðin að ólöglegum veiðum út af Önundarfirði s.l. haust. Af sömu eða svipuðum ástæðum voru einnig s.l. ár sýknaðir skipstjórarnir á brezku togurunum Dragon F 60 og Lincoln City CY 464. Fæ ég ekki betur séð af umræddum dómum, en að landhelgisbrjótum sé nokkurn veginn óhætt að stunda ólöglegar veiðar allt að hálfri annarri mílu innan 12 mílna landhelginnar, eins og hún er nú ákveðin og með öllu virðist útilokað, að hægt sé að koma lögum yfir landhelgisbrjót, sem er t.d. aðeins ½ mílu fyrir innan 12 mílna mörkin.

Um það má að vísu deila, hvort hæstiréttur hafi ekki gengið of langt í þessu efni. Þannig hefur Ísland t.d. ekki fullgilt alþjóðasamþykkt frá 1958, um óslitna eftirför við töku skips utan landhelgi og kröfurnar um merkjasendingar geta við vissar aðstæður verið allsendis óframkvæmanlegar með þeim hætti, sem dómararnir í hæstarétti virðast ætlast til af varðskipunum. En hvað sem skoðunum manna líður á umræddum dómum, er hitt víst, að hér er öllum aðilum mikill vandi á höndum, ekki sízt stjórnendum varðskipanna og dómurunum. Þessi vandi mundi ekki minnka við það, að landhelgislínan yrði færð utar og þess vegna m.a. er nauðsynlegt, að ákvörðun línunnar af hálfu löggjafans sé eins skýr og greinileg og framast er unnt.

Mér þykir rétt í þessu sambandi að benda á, að vera kann, að vandamálið í sambandi við réttar staðsetningar sé leysanlegt þannig, að allir aðilar megi vel við una, með því að upp verði komið fyrir landið allt svo fullkomnu miðunarkerfi, að það fái staðizt jafnvel ströngustu kröfur hæstaréttar. Hér hef ég sérstaklega í huga miðunarkerfi, sem brezka fyrirtækið Decca hefur fullkomnað og nefnist, að mig minnir, „Decca Navigator System“. Þetta kerfi er nú notað víða í Vestur-Evrópulöndum, sem liggja að sjó, til þess að auðvelda ferðir skipa og flugvéla og framleiðendurnir segja, að það sé mjög nákvæmt, jafnvel svo, að ekki skeiki nema nokkrum metrum. Kerfið vinnur þannig, að stöðugt er hægt að fylgjast með stöðu skipsins eða flugvélarinnar og einnig er hægt að fá með því sjálfritara, sem sýnir leið skipsins jafnóðum á korti. Þetta kerfi var kynnt fyrir þingmannanefndinni, sem fór héðan til Bretlands s.l. vor í boði brezka þingsins og einnig veit ég, að íslenzkir embættismenn, sem ég hef rætt við um þetta, kannast við kerfið. Framleiðendur þess munu telja, að með því að reisa hér á landi fimm stöðvar sé hægt að fá miðanir allt í kringum landið í allt að 300 mílna fjarlægð. Til þess að skip eða flugvélar geti notað kerfið, þurfa þau að vera útbúin sérstökum móttökutækjum, sem Decca leigir út. Leiga fyrir slík tæki mun vera 80–70 sterlingspund á ári fyrir hvern notanda, en stofnkostnaður kerfisins er sennilega um 90 millj. ísl. króna. Það er að vísu há upphæð, en mikið er gefandi bæði fyrir öryggi í siglingum og flugi og svo fyrir það að skapa skilyrði til öruggrar landhelgisgæzlu. Þetta er raunar alltaf nauðsyn, en verði landhelgislínan færð enn þá utar, frá landinu, en nú er, knýr sú ráðstöfun á það, að málið verði tekið föstum tökum og tel ég, að ekki væri úr vegi að kanna, hvort Decca-miðunarkerfið gæti hentað okkur og komið að því gagni, sem framleiðendur þess staðhæfa. Slík athugun þyrfti einnig að fara fram varðandi önnur miðunarkerfi, sem e.t.v. hentuðu okkur jafnvel eða betur, en aðalatriðið er, að þetta mál verði kannað til hlítar.

Ég hef nú gert nokkra grein fyrir því, hvers vegna ég tel þáltill. þá, sem hér liggur fyrir, ekki aðgengilega. Útfærsla landhelginnar við Vestfirði verður að ske með þeim hætti, að unnt verði að byggja á henni frekari aðgerðir í landhelgismálinu, ef sú útfærsla á að verða upphafið að nýrri sókn í landhelgismálinu. Það mál í heild þarfnast langtum meiri undirbúnings, en umrædd þáltill. hefur hlotið og með því á ég ekki við það, að nægilegt sé að færa till. sjálfa í annan „búning“, eins og hv. fyrri flm. till. orðaði það, heldur þarf að kryfja málið sjálft til mergjar af þeim sérfræðingum okkar, sem þar eru færastir um að fjalla. En Vestfirðingar þurfa aukna friðun fiskimiða fyrst og fremst vegna þess, að við síðustu útfærslu hlutu þeir af eðlilegum og skiljanlegum ástæðum hlutfallslega minni friðun á sínum miðum, en aðrir landshlutar og í annan stað vegna aukinnar sóknar erlendra skipa á þeirra mið, eftir að veiðisvæði eins og Faxaflói og Selvogsbanki lokuðust að mestu fyrir togveiðum. Þessa auknu sókn má nokkuð marka af því, að frá 1. marz 1961 til 1. marz 1965 voru 46 brezkir togarar staðnir að ólöglegum veiðum við landið, þar af 22 eða tæpur helmingur á svæðinu frá Breiðafirði að Húnaflóa. Þessi aukna sókn erlendra skipa, einkum brezkra, hefur vitanlega slæm áhrif á aflabrögð okkar skipa á miðunum úti fyrir Vestfjörðum, þótt þar komi að sjálfsögðu fleira til, svo sem ógæftir og ísrek, sem einnig herjar á aðra landshluta.

En það eru til fleiri leiðir í þessu vandamáli en sú, sem hv. flm. vilja fara. Hv. 5. þm. Austf. gerði í ræðu sinni á dögunum eina slíka leið að umtalsefni, er hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér er komin fram till. um það að færa út landhelgina á takmörkuðu svæði kringum landið, þ.e.a.s. stækka fiskveiðilandhelgina aðeins úti fyrir Vestfjörðum, þar sem þörfin nú í dag er tvímælalaust mest. Ekki vil ég neita því, að það geti komið til mála fleiri till. Ein till. er sú, sem hér var aðeins minnzt á af hv. 11. landsk. þm. og aðrir menn af Vestfjörðum hafa verið að minnast á. Hún er sú, að út verði gefin reglugerð um ákveðna friðun tiltekinna veiðisvæða, t.d. úti fyrir Vestfjörðum, fyrir veiðum með ákveðnum veiðarfærum og þá gildi að sjálfsögðu slík ákvæði jafnt fyrir Íslendinga og útlendinga. Með því að beita þessu ákvæði á réttan hátt, er vitanlega hægt að ná okkar tilgangi að mjög verulegu leyti í ýmsum tilfellum,“ sagði hv. 6. þm. Austf.

Þessa ábendingu, sem hv. 5. þm. Austf. tók svo rækilega undir, tel ég, að sú hv. n., sem væntanlega fær málið til meðferðar, eigi að athuga vel, ef vera kynni, að fært reyndist að breyta till. í þá átt, sem þarna er bent á, m.a. af bæjarstjórn Ísafjarðar og Útvegsmannafélagi Vestfjarða.

Fiskifriðunarmálin hljóta á næstunni að komast mjög á dagskrá hjá þeim þjóðum, sem lönd eiga að Atlantshafi, bæði að austan- og vestanverðu. Stofnar aðalnytjafiskanna, eins og þorsksins, eru af fiskifræðingum taldir ofveiddir í Barentshafi, við Grænland og víðar og er talað um að gera annað tveggja, að auka möskvastærð veiðarfæra upp í 160 mm eða gera alþjóðasamþykkt um takmörkun á alþjóðaveiðimagni. Við þurfum að fylgjast vandlega með þróun þessara mál, og halda sem bezt á okkar hlut á alþjóðavettvangi. Jafnframt þarf að hefja rækilegan undirbúning að næstu sókn okkar í landhelgismálinu, en að mínum dómi er enn þá allt of snemmt að setja þeim undirbúningi þröng tímatakmörk vegna þess, hve mikilvæg undirstöðuatriði eru í óvissu og þarfnast gaumgæfilegrar athugunar og rannsóknar. Nokkur bið er í þessu efni áreiðanlega betri, en allt óðagot og þeir, sem ábyrgðina bera á því, hvernig til tekst, mega umfram allt ekki vera uppnæmir fyrir því, þótt aðrir menn vilji nota sér málið í áróðursskyni.