21.12.1964
Neðri deild: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

106. mál, söluskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í þeim tveim ræðum, sem hér hafa verið haldnar af tveim hv. þm. Framsfl., voru mörg mishermi. Ég ætla að láta nægja í upphafi þessa máls míns að leiðrétta fjögur þeirra.

Annar hv. þm. sagði, að ég hefði upplýst, að tekjuskattur yrði í ár a.m.k. 40 millj. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Þetta er misskilningur. Fjárlögin gera ráð fyrir, að tekju- og eignarskattur nemi 275 millj., og það er gert ráð fyrir, að hann verði 11—12 millj. hærri í reynd.

Í öðru lagi sagði síðasti hv. ræðumaður, að ríkisstj. hefði gefið vilyrði um að lækka hin álögðu gjöld, tekjuskatt og útsvar, á þessu ári. Þetta er ekki rétt. Það hafa aldrei verið gefin nein slík vilyrði. Að till. ríkisstj. var sett á 4 manna nefnd í ágústmánuði til þess að kanna möguleika á slíku. Alþýðusamband Íslands tilnefndi einn mann í þessa n. og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja annan. Í þessari 4 manna nefnd var eftir rækilegar athuganir sameiginleg niðurstaða ágreiningslaust. Hún lagði ekki til, að farið yrði í endurskoðun eða lækkun á útsvörum eða tekjuskatti, sem búið var að leggja á. Hitt er svo annað mál, hvort þessi tvö bandalög hafa síðar viljað afneita þessum fulltrúum, sem þau sjálf tilnefndu.

Í þriðja lagi sagði hv. síðasti ræðumaður, að stóreignaskattsgreiðendum væri hlíft og jafnvel endurgreitt. Þetta mál hefur verið skýrt hér áður og þessar staðhæfingar hraktar. Í rauninni er það furðulegt, að framsóknarmenn skuli sjá sóma sinn í því að rifja upp þetta stóreignaskattsmál, annað eins hneyksli og það er allt. Á tímum vinstri stjórnarinnar voru sett lög um svokallaðan stóreignaskatt, sem þá var þegar ljóst eða allar líkur til að ekki fengi staðizt samkv, stjórnarskrá landsins. Sú varð líka raunin á. Álagður stóreignaskattur var í upphafi yfir 130 millj., en þegar dómstólar og skattayfirvöld höfðu fjallað um skattinn, var búið að ógilda meira en helming af þessum skatti. Hann á því algera sérstöðu hér og er einsdæmi í íslenzkri skattasögu.

Varðandi innheimtu þessa skatts, hefur hann ýmist verið greiddur í reiðufé eða í skuldabréfum, eins og lögin sjálf gerðu ráð fyrir, og lögtök hafa að sjálfsögðu verið gerð fyrir öllum eftirstöðvum hans, þannig að ríkissjóður er að fullu tryggður varðandi þá hluta skattsins, sem dómstólarnir að endingu telja að geti staðizt. Hitt vita svo allir, að þar sem þessi skattur á að renna m.a. til húsnæðismálastjórnar og veðdeildar Búnaðarbankans og lánaður þaðan út, er enginn greiði gerður með því að innheimta þann skatt, sem þyrfti svo að endurgreiða kannske í stórum stíl, og mundi það skapa mikinn vanda fyrir þessar stofnanir eða þá aðila, sem væru búnir að fá þessar greiðslur. Því fer svo fjarri, að hér hafi verið einhverjum hlíft, heldur er innheimta þessa skatts bein afleiðing og óhjákvæmileg af þeim lögbrotum og stjórnarskrárbrotum, sem vinstri stjórnin þannig stofnaði til með þessari löggjöf.

Í fjórða lagi er svo það mishermi hjá hv. síðasta ræðumanni, að opinber gjöld hafi í tíð þessarar stjórnar hækkað hlutfallslega meira en þjóðartekjurnar. Þetta er ekki rétt. Ég sýndi fram á það við 1. umr. fjárl., í fjárlagaræðu minni, að hluti opinberra gjalda eða skatta af þjóðarframleiðslu og þjóðartekjum er lægri nú en áður en núv. ríkisstj. tók til starfa og enn fremur lægri en í okkar nágrannalöndum. Leiðréttingu á þessum fjórum mishermum læt ég nægja hér, þó að af mörgu fleira væri að taka, sem tími leyfir þó ekki að sinni.

Efni þess frv., sem hér liggur fyrir, er það að hækka söluskatt úr 5 1/2% í 7 1/2% og afla þannig ríkissjóði tekna, sem áætlað er að nemi 246 millj. kr. á næsta ári. Þessar tekjur eru að áliti ríkisstj. nauðsynlegar til þess að standa á næsta ári undir kostnaði við þær auknu niðurgreiðslur á vöruverði, sem ákveðnar voru fyrr á þessu ári, og til þess að mæta þeim útgjöldum, sem leiðir af væntanlegri 3% hækkun launa og almannatrygginga snemma á næsta ári. Þar sem niðurgreiðslur úr ríkissjóði til lækkunar á vöruverði eru nú einn stærsti vandi ríkisfjármálanna og aðalorsök þessa frv., tel ég rétt að gera hér fyrst nokkra grein fyrir niðurgreiðslunum.

Nú eru greiddar niður þessar vörur: Dilkakjöt, nýmjólk, smjör, smjörlíki, saltfiskur, nýr þorskur, ný ýsa. Hvað kosta þessar vörur nú í smásölu, hver er niðurgreiðslan á hverja einingu og hvað mundi verðið á þessum vörum verða, ef niðurgreiðslurnar væru felldar niður? Ég vil taka það fram, að ég rek þetta ekki vegna þess, að nokkrar till. liggi fyrir um að fella allar niðurgreiðslur niður með öllu, heldur til þess að sýna myndina, því að það er einn annmarki á niðurgreiðslum á vöruverði, sá, að þær leyna og fela fyrir öllum almenningi, hvað þessar vörur í raun og veru kosta, þar sem fólkið borgar hluta þessara vara óbeint með sköttum.

Þegar menn gera sér grein fyrir þessu, þarf að hafa það í huga, að hækkun á verði niðurgreiddra vörutegunda mundi verða meiri en svarar niðurgreiðslum í krónum á vörueiningu, vegna þess að bæði smásöluálagning og söluskattur kemur á hækkunina, og að því er snertir nýjan fisk, er þessi mismunur tiltölulega mikill vegna mikillar rýrnunar fisksins hjá smásala. En dilkakjöt kostar nú í smásölu 51.20 kr. kg. Það er niðurgreitt um 17.30 kr. og mundi hækka í útsölu upp í 73.75 kr., ef niðurgreiðslan væri felld niður. Flöskumjólk kostar nú 6 kr. lítrinn, niðurgreiðslan er 4.77 kr. Ef niðurgreiðslan væri felld niður, mundi lítrinn hækka upp í 10.77 kr. Smjör kostar í útsölu 90 kr. Niðurgreiðsla á hvert kg er 84.96 kr. Smjörkg mundi hækka upp í 190 kr., ef niðurgreiðsla er niður felld. Smjörlíki kostar 17.80 kr. Niðurgreiðslan er 9.15 kr. Það mundi hækka upp í 28.90 kr. Saltfiskur kostar 17 kr. kg, niðurgreiðslan er 9.15 kr. Hann mundi hækka upp í 29.50 kr. Nýr þorskur kostar 5.60 kr. kg, niðurgreiðslan er 2.30 kr. Hann mundi hækka í 9 kr. Ný ýsa kostar 7.50 kr., niðurgreiðslan er 2 kr., mundi hækka í 11 kr., ef niður væri felld niðurgreiðslan.

Þetta er aðeins lítil mynd af því, hversu þessar niðurgreiðslur eru stór og þýðingarmikill liður í verði þessara nauðsynjavara. Árskostnaður við niðurgreiðslur er nú samtals 543 millj. kr. Þar af kosta hinar auknu niðurgreiðslur, sem hófust á þessu ári í framhaldi af júnísamkomulaginu og ætlunin er að haldi áfram á næsta ári, 207 millj. kr. yfir heilt ár. Til þess að gera sér grein fyrir áhrifum þessara niðurgreiðslna á vísitölu og kaupgjald í landinu má geta þess, að ef allar niðurgreiðslur væru felldar niður, mundi vísitalan hækka um 19.4 stig og allt kaup í landinu hækka af þeirri ástæðu um tæp 12%. Ef hins vegar haldið væri hinum eldri niðurgreiðslum, en aðeins hinar nýju eftir júnísamkomulagið væru felldar niður, mundi vísitala þess vegna hækka um 7 1/2 stig og kaup um nær 5%. Af þessum 19.4 stigum, sem niðurgreiðslurnar alls nema, eru 16 stig vegna landbúnaðarvara.

5. júní s.l. var undirritað samkomulag milli ríkisstj., A.S.Í., Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Með því var stefnt að stöðvun verðbólgu og kjarabótum fyrir verkafólk. Samið var til eins árs. Grunnkaup skyldi í meginatriðum óbreytt nema hækka nokkuð til þeirra lægst launuðu. Verðlagstrygging kaupgjalds skyldi upp tekin að nýju, þannig að kaup skyldi breytast ársfjórðungslega, ef vísitala hækkaði eða lækkaði um 1 stig eða meira. Jafnframt var ákveðið, að með niðurgreiðslum úr ríkíssjóði skyldi vísitölunni haldið óbreyttri fyrst um sinn fram á haust, er þing kæmi saman. Það er gert ráð fyrir, að þessar auknu niðurgreiðslur í ár kosti ríkissjóð um 68 millj. kr., en muni á ársgrundvelli, eins og ég gat um, kosta 207 millj.

Júnísamkomulaginu var fagnað, enda mikilvægt spor stigið með eins árs samningi um vinnufrið. En það fól einnig í sér vissar hættur, m.a. þá að þyngja mjög byrðar ríkissjóðs vegna aukinna niðurgreiðslna. Það hlaut hverjum manni að vera ljóst, sem eitthvað fylgdist með þessum málum, að tekna yrði að afla, ef ætti að halda þessum niðurgreiðslum áfram, eða í stað tekjuöflunar að skera stórlega niður útgjöld ríkisins sem þessum kostnaði svarar. Það eru því látalæti, þegar stjórnarandstæðingar láta eins og þeim hafi komið þetta frv. algerlega á óvart, að níðurgreiðslunum þyrfti að mæta.

Nú er því haldið fram af stjórnarandstæðingum, að tekjuöflun sé óþörf, og þessi staðhæfing er rökstudd þannig, að árin 1962 og 1963 hafi tekjur ríkisins farið langt fram úr áætlun, þess vegna hljóti ríkistekjurnar einnig að fara fram úr áætlun í ár og næsta ár, ríkisstj. hefði það fyrir sið að áætla tekjurnar í fjárl. miklu lægri en rétt er til þess að fá sem mestan greiðsluafgang. Þessi er rökfærslan í stórum dráttum. Við skulum nú athuga hana nokkru nánar.

Tekjuáætlun fjárl. er þannig undirbúin, að unnið er vandlega úr þeim gögnum, sem fyrir liggja um afkomu ríkissjóðs á yfirstandandi ári, horfum fram undan í atvinnu- og efnahagslífi. Tekjuáætlun er byggð á margvíslegum upplýsingum frá hagstofu, ríkisskattstjóra, Efnahagsstofnun og Seðlabanka. Langstærsti tekjuliður ríkissjóðs er aðflutningsgjöld eða tollar, en upphæð þeirra veltur á því, hve innflutningurinn verður mikill á næsta ári. Í meginatriðum er stuðzt við innflutningsáætlun Seðlabankans, en vitanlega getur enginn fullyrt fyrir fram, hvernig þróunin verði á næsta ári. Í tíð núv. ríkisstj. hefur tekjuáætlun fjárl. verið gerð af samvizkusemi og meiri nákvæmni en áður. Til glöggvunar og því til sönnunar, sem ég sagði, er rétt að líta yfir það, hvernig tekjuáætlanir fjárl. hafa staðizt undanfarinn hálfan annan áratug. Síðustu 5 ár eða frá 1959—1963, að báðum meðtöldum, hafa tekjur reynzt fyrsta árið 3% umfram fjárlög, annað árið 1% undir áætlun fjárl., þriðja árið 5% yfir, fjórða árið 18% yfir, fimmta árið 15% yfir áætlun fjárl. Ef við tökum meðaltal þessara 5 ára, er útkoman sú, að tekjurnar hafa farið til jafnaðar um 9% umfram áætlun fjárl. Berum þetta nú saman við reynsluna frá 1950 —1958 eða þau næstu 9 ár, sem núv. formaður Framsfl. fór með fjármálastjórn ríkisins. Þau árin fóru tekjur fram úr áætlun fjárl, eitt árið um 5%, þrjú ár milli 14 og 17%, þrjú ár 20—27%, eitt árið 47% og eitt árið 96% fram úr

áætlun fjárl. Og ef við nú tökum meðaltal þessara ára, fóru tekjur 24% fram úr áætlun fjárl. að meðaltali, en undanfarin 5 ár 9% að meðaltali. Ef sú staðhæfing Framsfl. er rétt, að tekjur séu oft áætlaðar of lágar af ráðnum hug, hefur hv. 1 þm. Austf., Eysteinn Jónsson, verið miklu slyngari í þeirri íþrótt.

Ástæðan til þess, að tekjur fóru svo verulega fram úr áætlun fjárl. árin 1962 og 1963, var fyrst og fremst sú, að innflutningur var bæði árin talsvert miklu meiri en hinar opinberu stofnanir höfðu gert ráð fyrir og áætlað, og skiluðu þeir meiri tolltekjum í ríkissjóðs en reiknað hafði verið með. Þessi tvö ár varð greiðsluafgangur hjá ríkissjóði samtals nær 300 millj. kr. Nú er deilt á ríkisstj. fyrir þennan greiðsluafgang, í fyrsta lagi, að tekjurnar hafi verið af ráðnum hug áætlaðar allt of lágt til þess að hafa næga peninga úr að spila. Ég hef þegar svarað þessu. Í öðru lagi er því haldið fram, að það sé óforsvaranlegt og í rauninni fordæmanlegt að hafa greiðsluafgang, sem einhverju nemi, það sé skattpíning af versta tagi. Ríkisstj. er þeirrar skoðunar, að þegar mikil þensla er í efnahagslífinu og hætta á verðbólgu, sé það háskalegt, ef ríkissjóður væri rekinn með halla, og í slíkum tilfellum væri æskilegt, að hann hefði greiðsluafgang til þess að vinna á móti verðbólguhættunni. En það er ekki aðeins ríkisstj. og þeir hagfræðingar og aðrir sérfræðingar, sem hún hefur sér til ráðuneytis, sem halda þessu fram. Ég vildi gjarnan leiða hér til vitnis fyrrv. fjmrh., Eystein Jónsson. Í fjárlagaræðu sinni 15. okt. 1954, fyrir um það bil 10 árum, ræddi hann sérstaklega um nauðsyn þess, að ríkissjóður hefði greiðsluafgang, og segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, í fjárlagaræðu í B-deild Alþingistíðinda 1954, bls. 174:

„Það verður að teljast mjög mikilsvert, að ríkissjóður hafði greiðsluafgang á þessu ári. Er augljóst, að slíkt vegur nokkuð á móti þeirri miklu þenslu, sem nú er í öllu fjármálalifi landsins, og dregur úr þeirri hættu, að verðbólga myndist og ný verðhækkunaralda skelli yfir.“

Síðan heldur hann áfram:

„Þá er ekki síður ánægjulegt og þýðingarmikið, ef ríkissjóður gæti í slíku góðæri sem nú er eignazt einhverja fjármuni, sem bægt væri að leggja til hliðar og nota til nauðsynlegra framkvæmda síðar, þegar þörf væri á ráðstöfunum af hendi þess opinbera til þess að halda uppi nægilegri atvinnu í landinu. Verður áreiðanlega seint metinn til fulls sá hagur, sem þjóðinni gæti af því orðið, ef ríkissjóður gæti haft greiðsluafgang í góðærum, sem nota mætti, þegar á móti blési, til þess að koma þá í veg fyrir samdrátt verklegra framkvæmda og til þess beinlínis að auka þá verklegar framkvæmdir ríkisins og tryggja sem jafnasta atvinnu fyrir landsmenn. Fjármálastefna, sem á þessu væri byggð, mundi einnig að sjálfsögðu reynast öflugt tæki til þess að viðhalda jafnvægi í þjóðarbúskapnum, tryggja stöðugt verðlag, auka sparnaðinn og verða á allan hátt örvandi fyrir framkvæmdir og framleiðslustarfsemi.“

Svo hljóða orð Eysteins Jónssonar frá 1954. Nú er mér ánægja að taka það fram, að ég er alveg sammála Eysteini Jónssyni fjmrh. ársins 1954 um þetta efni. En manni rennur til rifja, að maður, sem lýsti svo vel og skynsamlega þýðingu greiðsluafgangs ríkissjóðs á verðþenslutímum og nauðsyn þess að leggja til hliðar fé til að geyma til erfiðu áranna, skuli nú prédika skaðsemi þeirra ráðstafana, sem hann vegsamaði áður. Af þessum nær 300 millj. kr. greiðsluafgangi áranna 1962—1963 hefur meginhlutanum þegar verið ráðstafað. 100 millj. voru lagðar í jöfnunarsjóð ríkisins samkv. 30 ára gömlum lögum, sem aldrei hafa verið notuð í tíð hv. 1. þm. Austf., þótt alltaf væru þau í gildi, og þetta var lagt fyrir einmitt með hliðsjón af því að geyma frá góðærinu nokkurt fé til notkunar á erfiðum árum síðar. Auk þessara 100 millj. voru tæpar 40 millj. notaðar til að greiða gamla skuld vegna togara við Seðlabanka Íslands, og 40 millj. voru notaðar til þess að létta á vangoldnum framlögum ríkisins til sjúkrahúsa og hafnargarða. Þarna eru komnar um 180 millj., en rúmar 100 millj. af þessum greiðsluafgangi standa inni í ríkissjóði sem rekstrarfé. Þrátt fyrir það er skuld ríkissjóðs við Seðlabankann nú hærri en undanfarin ár á þessum tíma.

Hvernig eru þá horfurnar um afkomu ríkissjóðs nú í ár? Má búast við verulegum greiðsluafgangi, eins og hv. stjórnarandstæðingar telja öruggt? Því miður horfir ekki svo. Afkoma ríkissjóðs í ár verður allt önnur en tvö undanfarin ár, og ber þar margt til. Í fyrsta lagi, að umframtekjur ríkisins verða tiltölulega mjög litlar í ár, og stafar það af því fyrst og fremst, að innflutningur og þar með tolltekjur hefur í ár aukizt miklu minna en 2 ár næst á undan. Tekjuskatturinn er talið að muni reynast 11—12 millj. umfram það, sem áætlað er í fjárl., og sumir tekjustofnar ríkisins virðast ekki ætla að ná áætlun. Í síðustu áætlun, sem Efnahagsstofnunin hefur gert um þetta efni, telur hún, að tekjur ríkissjóðs í ár í heild muni aðeins fara sáralítið fram úr tekjuáætlun ársins. Á hinn bóginn hafa í ár fallið verulegar umframgreiðslur á ríkissjóð umfram áætlun fjárl., og eru þar stærstu upphæðir hinar auknu niðurgreiðslur, sem ákveðnar voru í framhaldi af júnísamkomulaginu, um 68 millj., og hitt, að útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir verða væntanlega 40 millj. meiri en áætlað var í fjárl. Til viðbótar má svo bæta því við; að þegar athugaðar eru tekjur og gjöld ríkissjóðs fyrstu 11 mánuði ársins í ár og borið saman við árið í fyrra, kemur í ljós, að afkoma ríkissjóðs er nær 350 millj. kr. lakari í nóvemberlok í ár en í fyrra gagnvart Seðlabankanum. Þegar allar þessar aðstæður eru athugaðar, er óvarlegt að reikna með greiðsluafgangi á þessu ári, og má það kallast heppni mikil, ef tekst að ná jöfnuði á ríkisbúskapinn í ár.

Í sambandi við þetta mál er því haldið fram af þm. stjórnarandstöðunnar, að söluskatturinn sé óhæft og ranglátt skattform. Einn hv. þm. Framsfl. hefur sagt í þessum umr., að þetta sé ákaflega óheppileg tekjuöflunarleið að dómi framsóknarmanna. Annar hefur sagt, að skatturinn sé bæði óskynsamlegur og ranglátur og litt innheimtanlegur, svo að í lagi sé. Nú skyldu menn af umr. og ummælum hér í þingi ætla, að söluskatturinn sé nýtt fyrirbæri og í rauninni uppfinning þessara vondu stjórnarherra, sem nú sitja í ríkisstj. En svo er ekki. Söluskattur hefur verið á Íslandi í nær 20 ár. Hann hefur verið með ýmsu formi. Fyrsta tilraunin var veltuskattur. Hann var fjölstigaskattur með öllum þeim ókostum, sem slíkum skatti fylgja. Hann reyndist erfiður og stundum ósanngjarn í framkvæmd. Á næstu árum voru gerðar ýmsar breytingar, sumar til bóta, aðrar vafasamar. Eftir 3 ár var skatturinn t.d. afnuminn í heildsölu, en í þess stað lagður á innflutningssöluskattur, sem var í rauninni ekkert annað en viðbótarverðtollur og hafði sömu áhrif. Árið 1956 var söluskattur af smásölu felldur niður, en söluskattur á iðnaðarframleiðslu og þjónustu hélzt og hækkaði upp í 9%. Af þessari breytingu leiddi m. a., að fyrirtæki reyndu að breyta rekstri sínum til þess að komast hjá skattinum. Og allt eftirlit varð miklu erfiðara en fyrr, misrétti og undandráttur í stórum stíl. Þegar núverandi stjórn tók við störfum, var strax hafin endurskoðun á þessum málum með frambúðarlausn fyrir augum. Það var ljóst, að með söluskatti í einhverju formi yrði að afla tekna, því að ríkisstj. hafði ákveðið að beita sér fyrir lækkun á tollum og tekjuskatti, sem þá hafði verið hækkaður undanfarin ár í fjáröflunarskyni. Upp úr þessari rækilegu athugun kom svo 3% smásöluskatturinn, sem í jan. s.l. var hækkaður í 5 1/2% og nú er lagt til að hækka í 7 1/2%. Þessi smásöluskattur er byggður upp með svipuðum hætti og er í Svíþjóð og Noregi, og norska ríkisstj. er ekki hræddari en svo við þennan smásöluskatt, að hún hefur nýlega fengið hann hækkaðan úr 10 upp í 12%.

En ef söluskattur er svona óheppileg, óskynsamleg og óhæfileg tekjuöflunarleið að áliti Framsfl., er ástæða til þess að spyrja, hvaða tekjuöflunarleið hann mundi fara til þess að tryggja hag ríkissjóðs, ef sá flokkur kæmist í þá aðstöðu að ráða aftur í þessu landi. Engum manni dettur í hug, og miða ég þá við reynsluna af till. Framsfl. í sambandi við fjárlög og önnur mál hér á þingi, — engum dettur í hug, að ríkisútgjöldin í heild mundu lækka við tilkomu Framsfl., þvert á móti líkur til, að þær mundu hækka verulega. Til þess benda allar till, þeirra, nema þeir ætlist til þess, að till. þeirra í sambandi við fjárl. séu ekki teknar alvarlega, en á það hafa þeir ekki viljað fallast hingað til. En ef þeir vilja fella niður söluskattinn, sem nú er helzt að heyra, er varla annað fyrir hendi en það yrði annaðhvort að hækka aftur tollana eða tekjuskattinn.

Eftir því að dæma, sem liggur fyrir á þessu þingi, er afstaða Framsfl. í stórum dráttum þessi: Hann hefur flutt till. um að hækka útgjöld ríkisins um rúmar 200 millj. í sambandi við fjárlög. Hann hefur engar till. lagt fram til sparnaðar eða niðurfærslu á útgjöldum. Hann hefur flutt frv. um það að gefa eftir tekjuskatt þann, sem er 7000 kr. eða lægri, hjá öllum gjaldendum, einstaklingum, og enn fremur 20% af öllum álögðum útsvörum. En þetta á ríkissjóður að borga á árinu í ár, og mundi þetta frv. leiða af sér útgjöld fyrir ríkissjóð, sem nemur um 170 millj. kr. á þessu ári. Þannig mætti lengi telja og í rauninni er ekki annað að skilja en þessi flokkur vilji halda áfram þeim niðurgreiðslum, sem nú eru, og jafnframt auka þær, til þess að vísitalan hækki ekki.

Í rauninni ber hér allt að sama brunni. Þetta minnir vissulega á ummæli, sem eru í nýútkominni bók eftir hinn reynda og greinda drengskaparmann, Bernharð Stefánsson, í 2. bindi æviminninga hans. Hann lítur þar yfir farinn veg og talar um stjórnarandstöðu, ekki aðeins andstæðinga hans, heldur stjórnarandstöðu yfirleitt, og segir svo:

„Verst hefur mér líkað það við stjórnarandstöðuna, að hún hefur oftast gert fyllstu fjárkröfur á hendur ríkissjóði til ýmissa framkvæmda, en jafnframt barizt á móti því að afla ríkissjóði tekna til að standast útgjöldin af því.“

Ég ætla, að þessi orð geti ekki sízt átt við afstöðu Framsfl. nú. Þegar maður lítur yfir afstöðu þess flokks í fjármálum og efnahagsmálum nú, dettur manni helzt í hug saga af dönskum stjórnmálaflokki, sem nú er raunar dauður. Það var einhvern tíma spurt um það, hver væri stefnuskrá þess flokks, og það var kunnugur maður, sem sagði: „Það eru mjög fáir, sem vita það, og þeir fáu, sem vita það, geta ekki útskýrt það.“ Og í rauninni ber hér allt að sama brunni eins og ella í málflutningi og umr. Framsfl. nú um fjármál, að það virðist enginn vita, hvað flokkurinn vill, og allra sízt leiðtogarnir sjálfir.

Í umr. um þetta mál hér í þingi hefur verið spurzt fyrir um, hvernig framkvæmt væri eftirlit með söluskatti. Eftirlit með söluskatti og yfirumsjón þess er í höndum skattstjórans í Reykjavík, og hefur hann látið mér í té greinargerð um það, sem ég vil lesa hér nokkurn kafla úr. Hann segir þar:

„Segja má, að eftirlit með álagningu söluskatts sé með fernu móti:

1) Reyna að tryggja, að allir, sem söluskattskyldir eru, komist á söluskattskrá. Reynt hefur verið af öllum skattstjórum að veita sterkt aðhald í þessu efni.

2) Hinar ársfjórðungslegu skýrslur eru yfirfarnar af skattstofum jafnóðum, áætlaðar viðbætur þar, þar sem efni standa til, og skattur áætlaður hjá þeim, sem ekki telja fram. Skattstofan í Reykjavík hefur hlutazt til um, að sem mest samræmi gæti orðið milli einstakra skattumdæma.

3) Rannsókn á heildarsöluskattskýrslum eftir árið. Er þar fyrst um að ræða samanburð á söluskattskýrslum og tekjuskattframtali, ellegar samanburður við ársreikninga þeirra, sem ekki eru taldir skattskyldir. Sérstakra sundurliðana er krafizt, einkum hjá þeim aðilum, þar sem hluti heildarveltunnar er undanþeginn söluskatti eða atvinnureksturinn margþættur.

4) Sá þáttur eftirlitsins, sem mesta þýðingu hefur, eru bókhaldsrannsóknir. Þær hafa verið framkvæmdar árlega í flestum skattumdæmum landsins, aðallega af mönnum, sem skattstofan í Reykjavík hefur lánað skattstjórum á þeim árstíma, sem hún hefur helzt mátt sjá af starfsliði. Þetta hefur borið árangur og skapað verulegt aðhald og ýmis misferli komið í ljós. Þessa starfsemi verður þó að auka verulega. Það verður að senda fleiri menn, og þeir þurfa að vera lengur á hverjum stað en unnt hefur verið.“

Þessi voru ummæli skattstjórans í Reykjavík, sem um margra ára skeið, víst frá upphafi vega, frá því að söluskattur var fyrst lögleiddur, hefur haft umsjón og eftirlit með álagningu söluskattsins. Þessu til viðbótar vil ég geta þess, að vitanlega má vænta þess, að af hækkun söluskatts hverju sinni geti leitt aukna viðleitni til að komast fram hjá skattgreiðslum með einum eða öðrum hætti. Þetta er skattyfirvöldum og rn. að sjálfsögðu ljóst. Þessari fyrirhuguðu hækkun söluskattsins verður því að fylgja sterkara aðhald með framkvæmd 1. og í öllum þáttum eftirlitsins jafnt, hvað varðar tímabundin söluskattsskil og hvers konar rannsóknir á rekstri og bókhaldi söluskattsgreiðenda almennt. Nú hefur verið undanfarið til sérstakrar athugunar í rn. og hjá skattyfirvöldum, hverjar ráðstafanir eða hugsanlegar skipulagsbreytingar gætu bezt tryggt örugga skattheimtu. Verður sjálfsagt óhjákvæmilegt að fjölga því starfsliði, sem beinlínis vinnur að eftirliti með söluskattinum. Í þessu sambandi má geta þess, að með l. frá síðasta þingi var stofnuð rannsóknardeild hjá ríkisskattstjóra, sem m.a. á að hafa eftirlit og rannsóknir varðandi söluskatt með höndum. En nágrannaþjóðir okkar eru nú í æ ríkara mæli að flytja skattbyrðina yfir í söluskattsform og hafa öðlazt margháttaða reynslu um framkvæmd þessara mála. Verður sérstaklega lögð áherzla á það, að notaðar séu sem bezt og eftir því sem við á hér þær aðferðir, sem hjá þessum þjóðum hafa bezt gefizt, til þess að söluskatturinn innheimtist eins og lög standa til.

Herra forseti. Tími minn er nú á enda. Skal ég fara að ljúka máli mínu. Því er haldið fram, að þessar fyrirætlanir ríkisstj., sem hér eru til umr., muni valda verðbólgu. Hér er mélinu gersamlega snúið við. Ef till. stjórnarandstæðinga væri fylgt, er tvennt til: annaðhvort að lækka stórlega niðurgreiðslur, sem þýddi mikla hækkun á mjólk, kjöti, fiski og öðrum nauðsynjum, sem nú eru niðurgreiddar, og vísitalan mundi hækka verulega og kaupið einnig, eða hin leiðin, að reka ríkissjóð með stórfelldum halla á næsta ári, sækja þá peninga í Seðlabankann og dæla þeim þaðan út í viðskiptalífið, sem er örugg leið til að auka verðbólguna.

Eins og málum er nú háttað, er engin leið fær önnur en sú, sem ríkisstj. hefur lagt til að farin verði.

Ég vil svo ljúka máli mínu með því að óska öllum hlustendum gleðilegra jóla og farsæls nýárs.