21.04.1965
Sameinað þing: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í D-deild Alþingistíðinda. (3081)

149. mál, dráttarbraut á Siglufirði

Flm. (Jón Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 3. þm. Norðurl. v. fyrir góðar undirtektir við þetta mál og stuðning við það. Hann gagnrýndi það hins vegar, að ekki hefði verið fleiri þm. kjördæmisins gefinn kostur á því að vera á þessari till., vera meðflm. Ég get reyndar vísað til þess, að ýmsar till. hafa verið fluttar af þm. þessa kjördæmis, þar sem öllum þm. þess hefur ekki verið gefinn kostur á því að vera með, og m.a. þar sem flokksbræður þessa hv. þm. hafa verið aðilar að málunum. En það var samt ekki það fordæmi sem ég vildi nú fyrst og fremst vitna til. Mér hefði í raun og veru ekki verið neitt kærara en það, að allir þm. kjördæmisins hefðu verið meðflm. að þessari till. En nú verður það bara því miður að játast eins og er, að það er yfirleitt ekki grundvöllur fyrir því. Það eru tveir þm. í þessu kjördæmi, sem yfirleitt sjást aldrei saman á þáltill., þannig að maður á þess ekki kost að fá alla þm. kjördæmisins saman á till., því miður. Þetta hefur margsinnis verið reynt og einmitt flokksbróðir hv. 3. þm. Norðurl. v., hefur neitað að vera á till., ef tiltekinn þm. úr andstöðuflokki hans úr þessu kjördæmi væri þar og það var eingöngu af þeim ástæðum, aðeins til þess að koma ekki þarna upp neinum deilum eða snerta þarna nein viðkvæm mál, sem það var mín afstaða til þessa, að það væri eðlilegast aðeins að hafa þessa tvo flm., af því að reynslan hefur sýnt, að það er því miður ekki hægt að fá alla þm. kjördæmisins til þess að vera saman á till., þótt það sé leitt frá því að segja. En hins vegar, eins og reyndar hefur komið í ljós, treysti ég alltaf á það, að fleiri þm. kjördæmisins mundu styðja þessa till. og þ. á m. hv. 3. þm. Norðurl. v., og ég vil endurtaka þakkir mínar til hans fyrir stuðning við þetta mál.