21.04.1965
Sameinað þing: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í D-deild Alþingistíðinda. (3082)

149. mál, dráttarbraut á Siglufirði

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er aðeins stutt aths. Ég mótmæli þeirri staðhæfingu síðasta ræðumanns, að reynslan hafi sannað það, að þm. í Norðurl. v. gætu ekki staðið saman að tillöguflutningi. Ég gæti náttúrlega nefnt mörg dæmi þess, að þeir hafa einmitt gert það. Ég hef hins vegar aldrei haldið því fram, að það væri alltaf hægt að fá alla þm. Norðurl. v. til þess að vera flm. að einni og sömu till. Það er ekki hægt alltaf. Til þess liggja augljósar ástæður. Hann sagði það, hv. ræðumaður, að m.a. ég og mínir flokksmenn hefðu flutt slíkar till. Það er rétt, að við höfum flutt slíkar till. En ég leyfi mér að draga það í efa, að við höfum flutt slíkar till. án þess að hafa gefið samþm. okkar kost á að vera með í þeim tillöguflutningi, þegar hefur verið um mál að ræða, sem snert hafa sérstaklega hagsmuni kjördæmisins. En það hefur því miður oft komið fyrir, að þeir hafa ekki séð sér fært, stjórnarmenn, að standa að slíkum till. Til þess liggja skiljanlegar ástæður og ég er ekkert að fetta fingur út í það.

En ég vil svo bara enn taka það fram, að um þessa till. gegnir enn nokkuð sérstöku máli að því leyti til, að það er ljóst, að hún er flutt að beiðni bæjarstjórnar Siglufjarðar eða meiri hl. bæjarstjórnarinnar, því að á bæjarstjórnarfundinum var bæjarstjóra og einum þar til kjörnum manni falið að koma málinu á framfæri og fylgja því eftir. Og þegar um slíkar till. er að ræða, verð ég að álíta, að það sé heppilegast fyrir framgang máls, að það sé leitað eftir sem viðtækastri samstöðu um tillöguflutninginn.

Þetta vildi ég aðeins láta koma fram, af því að þau tyllirök, sem hv. síðasti ræðumaður reyndi að hafa hér uppi, geta ekki komið að neinu gagni í þessu máli. Hann viðurkenndi hreinlega, að það hefði ekki verið leitað eftir því að fá flm. úr öðrum flokkum að þessari till. og ástæðurnar, sem hann færði fram fyrir því, voru allt of barnalegar, til þess að hægt sé að taka þær alvarlega, þar sem hann sagði, að hann hefði vitað það fyrir fram, að það sé ekki hægt að fá alla þm. kjördæmisins til þess að flytja þessa till. Ég leyfi mér aftur á móti að óreyndu að staðhæfa, að það hefði verið mjög auðvelt að fá alla þm. Norðurl. v. til að skrifa upp á þessa till. og gerast meðflm. að henni. Það leyfi ég mér að fullyrða, og það hefði a.m.k. ekki kostað neitt, að eftir því hefði verið leitað.