21.04.1965
Sameinað þing: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í D-deild Alþingistíðinda. (3084)

149. mál, dráttarbraut á Siglufirði

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þær umr., sem hér hafa orðið um flutning á þessari till., gefa mér tilefni til þess að segja nokkur orð.

Það var skömmu eftir að þing kom saman á næstliðnu hausti, þá héldum við fund hér í þinghúsinu, þm. Norðurl. v. og við boðuðum á þann fund einnig þá tvo landsk. þm., sem voru í framboði í okkar kjördæmi í síðustu kosningum, þá hv. 5. landsk. og hv. 9. landsk. þm. Og á þessum fundi vorum við að ræða um ýmis mál, sem snertu okkar kjördæmi,og einkum málefni, sem höfðu verið til umr. á ráðstefnu, sem verkalýðsfélögin í Siglufirði héldu seint í september. Þar voru gerðar ýmsar ályktanir og beint áskorun til þm. um ýmis mál. Á þessum fundi, sem við héldum 27. okt. í haust, skiptum við nokkuð með okkur verkum, þessir þm. Þá var t.d. hv. 9. landsk. þm., Jóni Þorsteinssyni, falið að athuga möguleika til að selja niðurlagða síld til Rússa og hafði verið nokkurt umtal um það áður, að þar mundi vera hægt að fá góðan markað fyrir þá vöru, en síðan höfum við ekkert af því máli heyrt frá þeim hv. þm. Þá var einnig rætt um skipasmíðastöð og dráttarbraut á Siglufirði og hv. 4. þm. Norðurl. v., Einari Ingimundarsyni, var falið að athuga það mál og undirbúa til flutnings á þinginu. En hann kom aldrei með þetta mál til okkar. Hins vegar sá maður það löngu síðar, að þarna kom sú till., sem hér er til umr., flutt af hv. 9. landsk. og hv. 4. þm. Norðurl. v. A.m.k. var ekkert talað við mig um þetta, en við höfðum þó gert ráð fyrir því, að þeir menn, sem fengu þarna ákveðin verkefni til athugunar, mundu ræða um það við okkur, sem vorum á fundinum, þegar þeir voru búnir að ljúka sínum athugunum og undirbúa málið. Mér var falið að athuga eitt mál og það var lýsisherzluverksmiðja. Ég gerði þetta og flutti till. ásamt öllum þessum þm., — ég man ekki betur, en þeir væru allir meðflm. mínir að þeirri till., um lýsisherzluverksmiðjumálið, bæði þm. kjördæmisins og þessir tveir oftnefndu landsk. þm. og sú till. kom hér fyrir og var rædd á sínum tíma. Þetta hefði ég talið eðlilega meðferð málsins, að hafa það þannig með hin málin eins og ég hafði það með lýsisherzluverksmiðjuna. En það má segja, að þetta geri ekki mikið til og það er gott, að þessi till. er fram komin og sjálfsagt að styðja hana. En maður gerði ráð fyrir því, að það mundi verða borið undir okkur hina, þegar þessari athugun væri lokið, sem var, eins og ég sagði, falin hv. 4. þm. Norðurl. v. á sínum tíma.