21.12.1964
Neðri deild: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

106. mál, söluskattur

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hvarvetna í landi okkar fer nú fram undirbúningur fyrir jólahátíðina, þessa hátíð ljóssins í dimmasta skammdeginu. Allir keppast um að fegra og prýða heimili sín, en fyrst og fremst vilja menn gleðja aðra á jólum og kosta gjarnan miklu til. Friður og kærleikur milli mannanna er hinn mikli boðskapur jólanna. Hér á hinu háa Alþingi eru einnig miklar annir þessa dagana, vg er þá ekki eðlilegt að álykta, að sjálfir landsfeðurnir gangi á undan í friðarboðun og kærleiksverkum? Jú, auðvitað. En því miður er ekki svo. Hér eru þessir síðustu dagar fyrir jól notaðir til myrkraverka, sem auka enn á ranglætið og spillinguna í þjóðfélaginu og boða ófrið og harðnandi stéttaátök. Slíkur er jólaboðskapur ríkisstjórnarinnar.

Hún hefur nú lagt fyrir Alþingi frumvarp um nýjar álögur á þjóðina, sem nema hátt í 300 millj. kr. á ári, og þessa upphæð á að taka af fólkinu með því að hækka hinn rangláta og óvinsæla söluskatt úr 5 1/2% í 7 1/2%. Rökin, sem fram eru færð fyrir þessari nýju skattheimtu, eru þau, að afla verði fjár í ríkiskassann, til þess að hægt sé að standa við júnísamkomulagið margnefnda, sem gert var við verkalýðshreyfinguna á s.l. vori um kaupgjalds- og kjaramál. Það er því ekki úr vegi að athuga nánar sjálft júnísamkomulagið og aðdraganda þess.

Fyrst af öllu vil ég þó leiðrétta þá rangtúlkun á samkomulaginu, sem fram hefur komið í stjórnarblöðunum, að verkalýðsfélögin hafi í vor samið um auknar niðurgreiðslur á vöruverði. Þetta er auðvitað ekki rétt. Hið sanna er, að verkalýðsfélögin sömdu um verðtryggingu á kaupið, þ.e. að kaupið skyldi hækka skv. vísitölu, ef vöruverð hækkaði og vísitalan þar með. Það er svo ákvörðun stjórnarvaldanna, hvort kaupið er látið hækka, ef verðhækkanir verða, eða verðlaginu haldið óbreyttu með auknum niðurgreiðslum. Ríkisstj. valdi sjálf síðari kostinn.

Aldrei hefur verð á almennum nauðsynjavörum hækkað jafngífurlega og á valdatímabili núv. stjórnar. Var þó eitt af helztu stefnumálum hennar að kveða niður verðbólgu og dýrtíð. Svo vel hafa viðreisnarloforðin staðizt á þessu sviði, að á rúmum 4 árum hefur verðlag á brýnustu neyzluvörum almennings tvöfaldazt. Það, sem áður fékkst fyrir 100 kr., kostar nú 200 kr. og það þrátt fyrir auknar niðurgreiðslur einmitt á þessum vörum.

Ríkisstj. ætlaðist til, að launastéttirnar bæru verðhækkanir viðreisnarinnar bótalaust, því að hennar fyrsta verk var að ónýta með lagaboði þau ákvæði í samningum verkalýðsfélaganna, að kaup skyldi hækka skv. vísitölu, ef verðlag hækkaði. Það var skákað í því skjólinu, að verkalýðshreyfingin væri ekki nægilega sterk til að brjóta þá fjötra af sér. Uppskeran af þessari stefnu ríkisstj. hefur orðið meiri ófriður og ókyrrð á vinnumarkaðinum en áður. Verkalýðsfélögin hafa hvað eftir annað orðið að leggja út í kaupgjalds- og verkfallsbaráttu til þess að hækka kaupið til samræmis verðlaginu. Hámarkinu var náð á s.l. ári, þegar þrívegis voru gerðir nýir kaupsamningar og sá síðasti í desember í fyrra eftir hart verkfall. Fjandskapur hæstv. ríkisstj. í garð verkalýðshreyfingarinnar náði þá einnig hámarki, þegar hún í fyrrahaust lagði fram frv. sitt um þvingunarlög, sem banna áttu til áramóta öll verkföll og kauphækkanir. En í þessu efni mætti ríkisstj. einhuga verkalýðshreyfingu og almenningsáliti, sem kom í veg fyrir þetta ofbeldisverk. Hinir vitrari menn í ríkisstj. sáu, að stefnt var í stórstyrjöld við fólkið í landinu, og gerðu því samkomulag um að draga frv. til baka, og setzt var að samningaborði við verkalýðshreyfinguna. Í þeim samningum í lok desemberverkfallsins í fyrra var samið um 15% kauphækkun, en eins og ávallt áður var sú kauphækkun að engu orðin, þegar fram á vorið kom, vegna nýrra verðhækkana. Þrátt fyrir kaupgjaldsbaráttu undanfarinna ára, hefur ekki tekizt að halda í við verðlagið. Kaupmáttur tímakaupsins hefur sífellt minnkað, og menn hafa orðið að bæta við sig fleiri vinnustundum til þess að hafa sömu rauntekjur. Verkafólkið, launþegarnir í landinu, hefur ævinlega tapað á dýrtíðar- og verðbólguþróuninni.

Það var með þessar staðreyndir í huga, sem miðstjórn Alþýðusambandsins sendi ríkisstj. ályktun sína um kjaramál í aprílmánuði s.l. Í þessari orðsendingu var þróunin rakin og sýnt fram á, að kauphækkanir hafa alltaf orðið minni en verðhækkanirnar og komið á eftir þeim, það væri því fjarstæða að telja orsakir dýrtíðarinnar liggja í of miklum kauphækkunum verkafólks, verkalýðshreyfingin hefði verið í varnarbaráttu, og bent var á, að frá því í febr. 1960 hefði kaup verkamanna hækkað um 55%, en á sama tíma hefði vöruverð og þjónusta hækkað um 84%. Með þessari orðsendingu bauð Alþýðusambandið samstarf um lausn hinna mikilvægustu mála. Það lagði til, að þegar yrðu teknar upp viðræður milli ríkisstj. og fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar um tilraunir til stöðvunar verðbólguþróunarinnar og um réttlátar og óhjákvæmilegar launa- og kjarabætur, sem nánar voru tilgreindar. Ríkisstj. tók þessari áskorun, og viðræður voru teknar upp, er leiddu til þess samkomulags, sem gert var 5. júní s.l. milli Alþýðusambandsins, ríkisstj. og atvinnurekenda.

Það er ekki ætlun mín að rekja hér júnísamkomulagið, aðeins minna á það helzta. Verkalýðshreyfingin frestaði að mestu kröfum sínum um beina kauphækkun, en samið var um nokkrar kjarabætur á öðrum sviðum. Veigamesta atriði samkomulagsins er, að á ný var tekin upp verðtrygging á kaup, sem á að tryggja kaupmátt launanna, ef verðlag hækkar, og einnig að vera aðhald fyrir stjórnarvöldin til að halda verðlaginu í skefjum. Samningar þessir voru gerðir til eins árs, og auðvitað voru þeir gerðir í trausti þess, að ríkisstj. héldi það grundvallaratriði þeirra, að kjör verkafólks versnuðu ekki á tímabilinu, og gerði að öðru leyti ráðstafanir til að hefta verðbólguna. Við, sem stöndum í forustu fyrir verkalýðsfélögunum, höfum skilgreint júnísamkomulagið sem vopnahlé, og við höfum lagt áherzlu ú, að bæði ríkisstj. og atvinnurekendur notuðu samningstímann vel og rækilega til að vera við því búin í vor að verða við óhjákvæmilegum kröfum verkalýðsfélaganna um beina kauphækkun. Og hver eru svo viðbrögð ríkisstj. til þess að gera vandann auðleystari í vor? Skattheimtan á fjárlögum er nú um 900 millj. kr. hærri en á fjárlögum í fyrra. Þar er meðtalin hækkun á söluskatti nú. Þar með er skattheimta ríkisins komin í röska 3 milljarða kr. á ári og þar af um þriðjungur í söluskatti. Slík gífurleg skattheimta er ekki til þess fallin að draga úr verðbólgu, allra sízt þegar engin tilraun er gerð til að draga úr óhófseyðslu ríkissjóðs, heldur þvert á móti. Samþykkt frv. um hækkun á söluskattinum verkar beinlínis til þess að hrinda af stað nýrri verðbólguöldu vegna þeirra verðhækkana, sem af því leiðir. Þannig hafa viðbrögð ríkisstj. verið þveröfug við það, sem þau þurftu að vera. Það var nauðsynlegt að draga úr eyðslu ríkisins og stilla skattheimtunni í hóf. Hér við bætist svo, að með afgreiðslu fjárlaga og þessu frv. er sérstaklega þrengt að hag sjávarútvegsins og fiskiðnaðarins. Þessar atvinnugreinar eru nú sviptar aðstoð, sem þeim var veitt í byrjun þessa árs og nam röskum 95 millj. kr. Hæstv. fjmrh, tekur nú þessa fúlgu beint í eyðslu ríkissjóðs.

Í þessum umræðum hefur verið sýnt fram á, að missir þessarar aðstoðar og hækkun söluskattsins þýðir fyrir fiskiðnaðinn hið sams og hann hefði þurft að standa undir 22% beinni kauphækkun. Í hvert sinn er verkalýðsfélögin gera kröfur um hækkað kaup, er þeim sagt, að útflutningsframleiðslan beri ekki hærra kaup, hún sé bundin af verðlagi á erlendum markaði. Af þessum sökum viðgengst það hneyksli, að fólkið, sem vinnur að þessari framleiðslu, er nú með lægsta tímakaup alls verkafólks í landinu, og væri því vitið meira að hækka kaup þessa fólks en að fleygja peningunum í eyðsluhít ríkisstj. En hefur nú hagur þessarar atvinnugreinar allt í einu batnað svo, að hún geti borið sem svarar til 22% kauphækkunar? Því miður er það víst ekki almennt svo. Þess vegna er þessari ráðstöfun beinlínis stefnt að því að koma í veg fyrir eðlilega samninga við verkalýðssamtökin í vor. Þannig ber allt að sama brunni, að stefna og aðgerðir ríkisstj. eru í beinni mótsögn við það, sem þurft hefði að gera, ef framhald átti að verða á þeirri stefnu, sem mörkuð var með júnísamkomulaginu.

Enn eru þó ótaldar þyngstu búsifjarnar, sem launafólkið hefur orðið að þola að undanförnu. Ég á hér við þá gífurlegu hækkun, sem varð á sköttum og útsvari í sumar. Sjaldan mun fólki hafa brugðið jafnilla við að sjá skattskrána og nú varð. Skattahækkanirnar komu eins og reiðarslag yfir launastéttirnar eftir hinar hátíðlegu yfirlýsingar, einkum hæstv. fjmrh., um hinar miklu skattalækkanir, sem í vændum væru. Hann lét einkamálgagn sitt, Vísi, reikna út, hvað menn gætu veitt sér fyrir allar þær þúsundir króna, sem spöruðust í skattgreiðslum. Sjálfsagt þótti m. a., að menn færu í orlofsferðir til annarra landa, svo mikill yrði afgangurinn. Sjaldan mun meira hafa verið logið að Íslendingum.

Strax og skattskráin kom út, sendi miðstjórn Alþýðusambandsins harðorð mótmæli og minnti á, að andi júnísamkomulagsins hefði verið sá, að lífskjör launþega skyldu ekki skert á samningstímanum, en slíkar drápsklyfjar skatta sem launþegum væri nú ætlað að bera röskuðu þeim grundvelli. Var óskað viðræðna við ríkisstj. um leiðréttingar launþegum til handa. Sams konar beiðni kom einnig frá BSRB. Þessir aðilar hófu svo viðræður við hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, sem þá gegndi einnig störfum forsætisráðherra, og Emil Jónsson, hæstv. félmrh. Fjmrh. hæstv. viðurkenndi, að ýmis mistök hefðu átt sér stað við álagninguna, sem leiðrétta mætti, og einnig mætti athuga möguleika á að leiðrétta þessi mál almennt. Varð síðan samkomulag um, að aðilar skipuðu sérstaka starfsnefnd til þess, eins og segir í erindisbréfi nefndarinnar, að athuga alla möguleika á því að veita afslátt og frekari greiðslufrest á álögðum opinberum gjöldum og kanna nánar önnur þau atriði, sem fram hafa komið í viðræðunum. Nefndin átti að hraða störfum og leggja tillögur sínar fyrir aðila. Þetta var í ágústmánuði, en það var kominn miður október, þegar nefndin skilaði áliti. Var það langt mál ásamt mörgum fylgiskjölum. Ekki taldi nefndin fært að lækka álögð gjöld, en gera þyrfti ráðstafanir til að aðstoða allfjölmennan hóp skattgreiðenda, svo að þeir gætu greitt opinber gjöld sín. Áttu menn að fá til þess eins konar kreppulán með víxilvöxtum. Stjórnir og viðræðunefndir Alþýðusambandsins og BSRB töldu þessa lánastarfsemi ófullnægjandi með öllu og að brýn nauðsyn væri á beinni eftirgjöf á álögðum gjöldum. Enn fóru fram viðræður og orðsendingar gengu á víxl. Loks var það á viðræðufundi hinn 5. nóv., að fjmrh. neitaði endanlega allri lækkun á álögðum gjöldum. Strax daginn eftir sendu samtökin ríkisstj. eftirfarandi bréf, sem ég vil lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Á viðræðufundi fulltrúa ASÍ og BSRB með fulltrúum ríkisstj. 5. þ.m. var kröfu launþegasamtakanna um lækkun tekjuskatts og útsvara á árinu 1964 hafnað. Jafnframt kom það fram í skriflegu svari ríkisstj., að hún væri fús til þess að gera ráðstafanir til að draga úr erfiðleikum skattgreiðenda á þessu ári með lánveitingum í samræmi við tillögu starfsnefndar aðila. Nefndir ASÍ og BSRB telja leið þessa alls ófullnægjandi, en vilja þó eigi hafna aðild að henni, ef eftirfarandi skilyrðum fæst fullnægt:

1. Lánin verði vaxtalaus og án vísitölubindingar.

2. Lánstími verði 3. ár.

3. Lánveitandi verði ríki og/eða sveitarfélög. 4. Lánin séu talin jafngilda greiðslu á útsvari fyrir áramót og því frádráttarbær á næsta ári.“

Þetta bréf var afhent 6. nóv. og síðan ekki söguna meir, fyrr en nú þann 12. þ.m., eftir rösklega 5 vikna algera þögn, að hæstv. fjmrh. tilkynnti símleiðis, að ríkisstj. féllist á öll okkar skilyrði varðandi lánin. Ég vissi ekki þá, að eitthvað mundi undir búa. En sama daginn og frv. um hækkun söluskattsins var lagt fyrir Alþingi, var okkur afhent uppkast að reglum um, hverjir skyldu verða aðnjótandi skattalánanna Þessar reglur voru þá svo úr garði gerðar, að við töldum þær ekki nothæfar. Þær eru nú í endurskoðun, og engu vil ég spá um niðurstöður.

Ég hef tekið þátt í öllum þessum viðræðum, og ég leyfi mér að fullyrða, að vísvitandi hefur allt málið verð dregið á langinn í von um, að reiðiölduna lægði og að innheimtan á sköttunum væri langt komin. Fyrst eru höfð góð orð um lagfæringar og síðan öllu neitað. Dregið er vikum saman að svara bréfi samtakanna, og þegar svarið berst, er síðasti gjalddagi liðinn. En meðan þessu hefur farið fram, hefur óspart verið hirt af kaupi manna í skattana. Mörg dæmi eru þess, að hið fasta kaup fyrir dagvinnu hefur allt fasið í skattgreiðslur og menn hafa aðeins haft aukavinnuna til lífsframfæris. Ef hæstv. fjmrh., þessi loforðagleði maður, hefði verið í sporum þessara manna, hefði hann kannske ekki dregið málið jafnmikið á langinn og nú hefur verið gert. Nú fyrir jólin hefur þó fyrst keyrt um þverbak með innheimtuna. S.l. föstudagur var viða síðasti útborgunardagur fyrir jól, og hér eru nokkur dæmi um innheimtuna: Maður hafði röskar 1900 kr. fyrir vikuna, hann fékk 13 kr. í umslaginu. Annar hafði unnið fyrir röskum 2000 kr., hann hélt eftir 200 kr. Sá þriðji átti að fá 1950 kr., en fékk 300 kr. Allt voru þetta fjölskyldumenn, og þeir voru allir að inna af hendi síðustu skattgreiðsluna. Og dæmin eru miklu fleiri. Ég ætla, að það væri hollt fyrir hæstv. fjmrh. og reyndar fyrir alla ráðherrana að reyna að setja sig í fótspor þessara manna, þegar þeir komu heim til fjölskyldna sinna með tóm umslögin. Það verður naumast ríkulegt jólaborðið á þeim heimilum.

En á sama tíma og gengið er svo nærri launafólki í skattheimtu, að margir hafa ekkert eftir til að lifa á, er ekki einu sinni reynt að innheimta þá tugi millj., sem enn eru útistandandi af stóreignaskattinum. Það er ekki nóg með, að gróðafyrirtækjum og auðmönnum sé hlíft við álagningu og þeir látnir komast upp með stórfelld skattsvik ár eftir ár, heldur virðist ekki vera gerð tilraun til að innheimta þann réttlátasta skatt, sem á þá hefur verið lagður, stóreignaskattinn. Hæstv. fjmrh. kallaði áðan þennan skatt hneyksli og lögleysu. Já, það heitir á hans máli hneyksli og lögleysa að leggja sérstakan skatt á stóreignamenn. En hann hefur engin slík orð um það hróplega ranglæti og ofsalegu skattpíningu, sem ég hef hér lýst. Það er fullljóst, hverra hagsmuni hæstv. fjmrh. ber fyrir brjósti.

Þegar minnzt er á skattsvikara, kemur mér í hug, hvers vegna ríkisstj. velur endilega söluskattinn sem fjáröflunarleið. Nú er það vitað og viðurkennt af sérfræðingum hennar, að enginn skattur skilar sér jafnilla í innheimtu og söluskatturinn. Innheimtumenn söluskattsins eru milliliðirnir. Vitað er, að þar eru skattsvik mikið iðkuð. Þó að þessir menn jafnvel vildu skila söluskattinum öllum, gætu þeir það ekki, því að með því væru þeir að gefa upplýsingar um veltuna, sem gæti komið þeim í koll varðandi aðra skatta. Getur það átt sér stað, að verið sé að hygla þessum mönnum sérstaklega með því að láta þá hafa meira úr að moða? Er söluskattsleiðin valin þess vegna?

Góðir áheyrendur. Á nýloknu þingi Alþýðusambandsins var einróma samþykkt krafa um verulega kauphækkun, þegar samningar renna út í vor. Það er óhjákvæmilegt, að verkalýðssamtökin reisi kröfu um slíka kauphækkun, sem ekki verði látin fara út í verðlagið. Verkafólkið gerir kröfu til að fá aukna hlutdeild í sívaxandi þjóðartekjum, og það vill fá þá hlutdeild án þess að gjalda fyrir það með fleiri vinnustundum. Samtökin munu áfram berjast gegn aukinni dýrtíð og verðbólgu, en verði nýrri skriðu hleypt af stað, munu verkalýðsfélögin ekki halda að sér höndum, heldur verja hagsmuni félagsmanna sinna með öllu atfylgi sínu.

Engin samráð hafa verið höfð við verkalýðssamtökin um efni þessa frv., er hér liggur fyrir. Hefði slíkt þó verið eðlilegt eftir júnísamkomulagið. Þetta er hættulegt mál fyrir þjóðarheildina og óskynsamleg málsmeðferð. Þess vegna ber hæstv. ríkisstj. að draga frv. til baka og leita annarra úrræða, en verði það ekki gert, þurfa allir launþegar og verkalýðssamtökin sem heild að fylkja liði gegn afleiðingum þess og til varnar hagsmunum sínum.

Ég óska svo hlustendum gleðilegra jóla og farsæls árs.