21.10.1964
Sameinað þing: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í D-deild Alþingistíðinda. (3115)

15. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :

Á s.l. vetri voru fluttar tvær þáltill., er báðar fjölluðu um skipun nefndar til að gera till. um úrbætur á þeim stöðum, þar sem atvinnuleysi er ríkjandi. Önnur till., sem miðuð var við landið allt, var flutt af hv. 5. þm. Norðurl. v. o.fl. Hina till. flutti ég og var hún einungis miðuð við kaupstaði og kauptún á vestanverðu Norðurlandi. Svo fóru leikar hér á hv.. Alþingi, að mín till. var svæfð, en hin till. var samþ. með nokkrum breytingum í marzmánuði s.l., og 2 mánuðum síðar skipaði hæstv. iðnmrh. 5 manna nefnd til að vinna að þessum málum. Eins og flestum mun ljóst, er hér um að ræða mál, sem þolir enga bið.

Nú í október hafði nefnd þessi verið að störfum í 5 mánuði og mátti þá vænta einhvers árangurs af rannsóknum hennar. Strax og þing kom saman, lagði ég því fram fsp. í tveimur liðum og beindist fyrri liðurinn að þessari atvinnumálanefnd: „Hvað líður störfum stjórnskipaðrar nefndar, er gera átti till. um aukinn iðnrekstur í kaupstöðum og kauptúnum, þar sem atvinna er ónóg?“ Tveimur dögum eftir að þessi fsp. var lögð fram brá svo við, að útbýtt var meðal hv. þm. fjölrituðu áliti hinnar stjórnskipuðu nefndar. Má segja, að spurningunni sé þar með svarað og mun það frekar óalgengt, að ég held, að fsp. sé afgreidd með slíkum hætti, þ.e. að hún sé afgreidd, áður en hún er borin upp munnlega.

Ég sný mér þá að síðari hluta fsp., þ.e. hverjar séu ráðagerðir ríkisstj. Það er óneitanlega mikill kostur, þegar ræða á um væntanlegar ráðstafanir ríkisstj., að hafa nú fyrir framan sig álit n. og ég fagna því vissulega. Ef litið er í þetta plagg kemur í ljós, að fyrsta verk n. var að kynna sér, hvaða staðir á landinu væru verst settir í atvinnumálum og hvar væri helzt þörf á sérstökum ráðstöfunum. Niðurstaðan n. varð sú, að atvinnuástand á vestanverðu Norðurlandi væri greinilega verst á öllu landinu og því væri óhjákvæmilegt að einbeita rannsókninni að þessum landshluta einum. Nál. fjallar svo aðeins um ástandið á vestanverðu Norðurlandi. N. virðist hafa eytt nokkrum tíma til þess að komast að þessari sjálfsögðu niðurstöðu og þar sem n. kvartar mjög yfir því í framhaldi af þessari niðurstöðu, að lítill tími hafi verið til þess að rannsaka ástandið á vestanverðu Norðurlandi til neinnar hlítar, þá vildi ég nú í allri hógværð benda hv. Alþingi á þá staðreynd, að ef sýnd hefði verið meiri forsjálni við afgreiðslu málsins á seinasta þingi og verkefni nefndarinnar hefði í upphafi verið eilítið hnitmiðaðra, væru meiri líkur til þess, að n. hefði getað skilað fullunnum till., en ekki bráðabirgðayfirliti, eins og n. kallar þessar till. sínar og afsakar með tímaskorti.

Langmerkustu upplýsingarnar í áliti n. eru ýmsar tölur um fjölda þess fólks, sem orðið hefur að flýja heimabyggð sína í atvinnuleit að vetrinum. Að vísu er lítt eða ekki unnið úr þessum tölum í álitinu og þær eru lítið samræmdar innbyrðis, en af þeim og öðrum upplýsingum ef ég leitazt við að reikna út, hve margir, miðað við 100, hafa leitað á brott á hverjum stað, svo að sjá megi svart á hvítu, hve alvarlegt ástandið er í raun og veru. Eftir þessum útreikningi kemst ég að þeirri niðurstöðu, að ástandið sé langtum verst á Skagaströnd og Drangsnesi, en á báðum þessum stöðum hafa nálægt 80% verkamanna faríð á brott í atvinnuleit að vetrinum. Á Hofsósi og Hólmavík hafa nálega 40% af verkamönnum leitað á brott og á Siglufirði meira en fjórði hver verkamaður og sjómaður. N. minnir á, að tölur um fjölda þeirra, sem verða að hverfa á brott í atvinnuleit, segi ekki nema hálfan sannleika um ástandið á hverjum stað, því að misjafnt sé, hversu auðvelt menn eiga með að fara frá heimilum sínum. Margir eigi þess alls ekki kost, segir n., vegna heimilisástæðna og aðrir kjósi af ýmsum ástæðum að vera um kyrrt, þótt litla atvinnu sé að fá, ástandið sé því hálfu verra, en kemur fram í þessum tölum.

Það hefur mikið verið rætt um hið alvarlega atvinnuástand á vestanverðu Norðurlandi og margir hafa átt erfitt með að trúa því, að ástandið væri jafnillt og af er látið. En að fengnum þeim upplýsingum, sem vinna má úr áliti n., hlýtur öllum að vera það ljóst, að hér er um hreint kreppuástand að ræða, ástand, sem er svo ískyggilegt, að ríkisstj. kemst ekki hjá því að gera tafarlausar ráðstafanir til úrbóta. Af þessum sökum hef ég lagt fram eftirfarandi fsp. til hæstv. ríkisstj., — það er seinni liður fsp.: „Hvaða ráðstafanir hyggst ríkisstj. gera til að ráða bót á hinu ískyggilega atvinnuástandi á vestanverðu Norðurlandi?“

Ég vil að lokum bæta því við, að hin stjórnskipaða nefnd á þakkir skilið fyrir unnið starf. Í áliti n. eru að vísu engar endanlegar till. um úrbætur, enda hefur hún tæpast haft aðstöðu, tíma eða vald til slíkra ákvarðana. En n. kemur fram með margar skynsamlegar ábendingar um staðsetningu nýrra atvinnutækja á þessu svæði og bendir á aðrar ráðstafanir. Fáar þessar ábendingar eru reyndar nýjar og margsinnis áður hefur verið bent á flesta þessa möguleika, bæði hér í þinginu og í áskorunum og till. frá þessum stöðum sjálfum. En þótt fetaðar séu troðnar slóðir, er það vissulega mikils virði að fá fram þetta álit n. Till. liggja á borðum hv. þm. og nú á ríkisstj. næsta leikinn. Málið þolir enga bið, og hæstv. ríkisstj. hlýtur þegar að hefjast handa. Einmitt þess vegna er nú forvitnilegt að heyra af vörum hæstv. ráðh., hvaða ráðstafanir séu í undirbúningi af hálfu ríkisstj.