21.10.1964
Sameinað þing: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í D-deild Alþingistíðinda. (3119)

15. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Ég vil leyfa, mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir svarið, enda þótt ég geti nú ekki sagt, að ég sé fyllilega ánægður með það. Mér fannst það helzt á skorta í ræðu hans, að hann kæmi skýrt fram með það, hvað ríkisstj. hygðist gera í þessu máli og hvaða ráðstafanir hún hefði í hyggju og mér fannst satt að segja leiðinlegt, að ráðh. skyldi í svari sínu leyfa sér að álasa okkur þm. fyrir að reyna að halda þessu stórmáli vakandi og vera að reyna að ýta á eftir því. Mér finnst, að hæstv. ráðh. hefði frekar átt að leggja á það áherzlu, hvað ríkisstj. hefur í hyggju í þessu máli og hvað hún ætlar að gera til þess að reyna að hraða lausn þess, því að það þolir enga bið. Veturinn er núna að ganga í garð og tíminn líður óðum. Málin eru rannsökuð skoðuð frá öllum hliðum mánuð eftir mánuð, en þau þokast ekki áfram einn einasta þumlung hjá sjálfri ríkisstj. Það er allt útlit fyrir það, að eftir 1. nóv., þegar dragnótaveiðum lýkur, verði jafnstórfellt atvinnuleysi á þessu svæði og s.l. vetur og að allt að 80% verkamanna, standi uppi atvinnulausir og verði að leita til annarra staða.

Eins og margoft hefur komið hér fram, liggja fyrir ýmsar till, frá atvinnumálanefndinni, sem skipuð var. Ég vil ekki eyða tíma mínum til að rekja þær. Í sambandi við Siglufjörð er mikið rætt t.d. um dráttarbraut eða skipasmíðastöð. Það er talað um möguleika á lýsisherzlu og að framleiða tunnur á vöktum og það er talað um grasmjölsverksmiðju í sambandi við Skagaströnd og jafnvel að kaupa togara og margt, margt fleira. Ég á í sjálfu sér ekki von á því, að n. geti og hafi aðstöðu til að segja miklu meira um þessa möguleika, frekar en hún hefur gert í þessu áliti. Mér skilst ekki á nál., að hún hafi aðstöðu til að bæta þar nokkru við. Nú stendur málið þannig, að það er ríkisstj., sem hlýtur að velja og hafna milli þessara möguleika og stíga næsta sporið, til þess að hraða megi lausn málsins.

Ég álít, að það dugi alls ekki, að ríkisstj. láti sér nægja að hafa í þessu nefnd skipaða mönnum, sem hafa um nóg annað að, hugsa, elns og við vitum. Þeir eru í fullu starfi og hafa ekki aðstöðu til þess að taka þetta mál eins föstum tökum og þörf væri á, því að þetta mál þarf að sjálfsögðu að leysa án undandráttar. Ég vildi um leið taka undir þau orð hv. 6. þm. Norðurl. e., Magnúsar Jónssonar, sem benti á, að það væri í rauninni engin leið að leysa þessi mál á jafnskipulagslausan hátt og gert hefur verið hingað til. Það er ekki nóg að setja nefnd og nefnd og nefnd, sem kemur með einhver bráðabirgðaálit. Það verður að taka þessi mál miklu, miklu fastari tökum, en gert hefur verið. Ég er algerlega sammála honum í þessu efni. Mér finnst rétt að benda honum á, að hann mætti gjarnan taka till. eins og þá, sem fram hefur komið hér í þinginu ár eftir ár um áætlunarráð ríkisins, til betri athugunar. Vissulega hefur ekki á það skort, að þm. Alþb. vildu, að þessi mál væru tekin eilítið fastari tökum, en gert hefur verið.

Það má sannarlega segja, að þessi landshluti er fórnarlamb þess skipulagaleysis í fjárfestingarmálum, sem hér hefur ríkt. Ég vil leyfa mér að fullyrða, að í nál. margrædda kemur víða fram, að það er fyrst og fremst skipulagsleysið og athugunarleysið, sem veldur því, hvernig komið er á þessum stað. Ég hef ekki langan tíma hér og get ekki leyft mér að ræða þetta mál til neinnar hlítar, en ég vil aðeina láta mér nægja að skora á ríkisstj. að hraða ákvörðunum sem mest, bíða ekki óendanlega eftir áliti, nýju og nýju áliti frá einhverjum bráðabirgðanefndum, sem skipaðar eru, heldur taka þessi mál miklu fastari tökum, en gert hefur verið og taka beinar ákvarðanir, því að eins og ég hef margoft sagt og segi enn einu sinni: Þetta mál þolir enga bið!