21.12.1964
Neðri deild: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

106. mál, söluskattur

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það hefur fallið í minn hlut að vera síðastur ræðumanna við þessar umræður. Af þeim sökum mun ég reyna að haga orðum mínum þannig, að stjórnarandstæðingar þurfi ekki að telja sig hafa ástæðu til beinna andsvara. Ég mun því fyrst og fremst leitast við að skýra aðalatriði þess máls, sem hér er deilt um.

Frv., sem hér er til umr., er um hækkun söluskatts um 2%. Þessari hækkun söluskattsins er ætlað að auka tekjur ríkissjóðs um 246 millj. kr. Og nú er von, að menn spyrji: Er þessi hækkun söluskattsins nauðsynleg? Hvers vegna er hún nauðsynleg? Það er skoðun ríkisstj. og þeirra flokka, sem hana styðja, að þegar árferði og efnahagsástand er eins og það er nú hér á Íslandi, sé nauðsynlegt, að ríkisbúskapurinn sé a.m.k. hallalaus. Ríkisbúskapurinn er einn mikilvægasti þáttur þjóðarbúskaparins. Tekjur og gjöld ríkissjóðs eru um það bil 1/5 hluti allra tekna og gjalda þjóðarbúsins. Ef tilhneiging er til ofþenslu í þjóðarbúskapnum, þá er hægt að draga úr henni eða koma í veg fyrir skaðleg áhrif hennar með því að hafa greiðsluafgang í ríkisbúskapnum. Hliðstæðu máli gegnir, ef eftirspurn er of lítil í þjóðfélaginu í heild, framkvæmdahugur lítill og atvinnuleysi ríkjandi, þá ætti ríkið að leggja sérstaka áherzlu á að halda uppi framkvæmdum og auka atvinnu og eftirspurn, jafnvel þótt af því hlytist halli á ríkisbúskapnum. Þannig verður jafnan að líta á ríkisbúskapinn sem þátt í þjóðarbúskapnum öllum, en ekki eins og atvinnufyrirtæki eða heimili, sem heilbrigt er að gæti þess, að á hverju ári sé sem mest samræmi í gjöldum og tekjum. Á ríkisbúskapnum á að vera greiðsluafgangur á svonefndum uppgangsárum eða þensluárum.

Á ríkisbúskapnum á að vera halli á atvinnuleysisárum og krepputímum. Greiðsluafgang frá góðum árum á að leggja til hliðar og ráðstafa honum á mögrum árum. Á þensluárum á aldrei að ráðstafa tekjuafgangi frá fyrri árum, þótt hann sé fyrir hendi, það eykur þensluna.

Á árunum 1962 og 1963 varð verulegur greiðsluafgangur hjá ríkissjóði. Á því ári, sem nú er að líða, er afkoma ríkissjóðs hins vegar miklu lakari en undanfarin ár, enda þótt góðæri sé nú sízt minna í landinu en var á þessum árum. Sést það m.a. á því, að ríkissjóður hefur meiri hluta þessa árs verið í mikilli skuld við Seðlabankann. Það er margt, sem hefur valdið því, að afkoma ríkissjóðs er á þessu ári miklu verri en undanfarin ár. Í fyrra jókst innflutningur mjög verulega í kjölfar hinna miklu kauphækkana, sem urðu á árinu. En á árinu 1963 hækkuðu laun hvorki meira né minna en um 30%, samtímis því sem þjóðarframleiðslan jókst um 7%. Þess vegna varð í fyrra mikill halli á greiðsluviðskiptunum við útlönd, en þessi halli færði ríkissjóði auknar tekjur af innflutningsgjöldum og söluskatti. Launahækkanirnar juku einnig skatttekjur ríkissjóðs. Á yfirstandandi ári hefur hins vegar orðið miklu meira jafnvægi í þjóðarbúskapnum en í fyrra. Tekjuaukningin innanlands hefur verið í meira samræmi víð raunverulega aukningu þjóðartekna, og í ár verður ekki halli í greiðsluviðskiptunum við útlönd, en það hefur á hinn bóginn valdið því, að tekjur ríkissjóðs af aðflutningsgjöldum og söluskatti hafa ekki haldið áfram að vaxa eins mikið og áður. Hins vegar hafa ýmis útgjöld ríkissjóðs vaxið mjög á þessu ári frá því, sem var í fyrra. Má þar til dæmis nefna hinar auknu niðurgreiðslur innlendrar landbúnaðarvöru, sem ákveðnar voru á s.l. hausti til þess að koma í veg fyrir þá hækkun landbúnaðarvörunnar, sem fulltrúar framleiðenda og neytenda sömdu þá um. Þessar auknu niðurgreiðslur nema um 68 millj. kr. á þessu ári. Þá hafa útflutningsbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir aukizt um hvorki meira né minna en 73 millj. kr. á þessu ári, samanborið við árið 1963. Þær hafa með öðrum orðum næstum tvöfaldazt. Þessir tveir liðir einir hafa því hækkað um allt að 150 millj. kr. á yfirstandandi ári umfram það, sem var í fyrra, og þetta hefur gerzt samtímis því, sem tekjur ríkissjóðs hafa ekki vaxið nema tiltölulega lítið, einmitt vegna þess, að í ár hefur tekizt að koma í veg fyrir halla í greiðsluviðskiptunum við útlönd.

Í sambandi við söluskattshækkunina nú skiptir auðvitað ekki afkoma ríkissjóðs á undanförnum árum og ekki einu sinni á yfirstandandi ári höfuðmáli, heldur hitt, hvernig horfurnar eru á næsta ári. Liðinn tími er liðinn, og því, sem þá hefur gerzt, verður ekki breytt úr þessu. Söluskattshækkunin á að koma til framkvæmda á næsta ári, og aðalatriðið er auðvitað, hvort ríkissjóður þarfnast hinna auknu tekna á því ári eða ekki.

Þegar ákvörðun var tekin um það að láta hækkun innlendu landbúnaðarafurðanna ekki koma til framkvæmda á s.l. hausti, heldur auka niðurgreiðslur úr ríkissjóði, voru engar ráðstafanir gerðar til þess samtímis að auka tekjur ríkissjóðs, sem hinum auknu niðurgreiðslum svaraði. Þetta hlaut öllum að vera ljóst, stjórnarandstæðingum jafnt sem stuðningsmönnum ríkisstj., meðlimum verkalýðsfélaganna og forustumönnum þeirra jafnt sem atvinnurekendum. Ef ríkisstj. hefði ekki ákveðið að auka niðurgreiðslurnar á s.l. hausti, heldur hefði látið umsamda hækkun landbúnaðarverðsins valda hækkun verðlags, þá hefði vísitala framfærslukostnaðar af þeim sökum hækkað um 6 stig og kaupgjald þar af leiðandi um 3—4% síðar um haustið. Slíka þróun mála taldi ríkisstj. þó óheppilega vegna júnísamkomulagsins, sem hún hafði beitt sér fyrir milli launþegasamtakanna og vinnuveitenda. Sú mikla hækkun, sem raunverulega varð á verði innlendra landbúnaðarafurða í sept. s.l., skapaði hins vegar í raun og veru alveg nýtt viðhorf í íslenzkum efnahagsmálum vegna þess ákvæðis júnísamkomulagsins, að kaupgjald skyldi upp frá því á ný háð breytingum á framfærslukostnaðarvísitölunni. Síðan í september hefur öllum, sem fylgjast með aðalatriðum íslenzkra efnahagsmála, hlotið að vera ljóst, að í síðasta lagi nú fyrir áramótin yrði að taka mjög mikilvægar ákvarðanir varðandi þróun efnahagsmála á árinu 1965. Enginn, sem taka vill tillit til staðreynda, getur borið á móti því, að algerlega er útilokað að láta ástand það, sem ríkt hefur síðan í sept. s.l., haldast á árinu 1965. Ríkissjóður getur ekki á næsta ári haldið áfram að standa straum af hinum nýju níðurgreiðslum frá í sept., án þess að annaðhvort tekjur hans aukist eða gjöld hans minnki, þar eð um engan greiðsluafgang er að ræða á þessu ári, og ef ríkissjóður hætti niðurgreiðslum, mundi verðlag og vísitala framfærslukostnaðar og þá um leið kaup að sjálfsögðu hækka.

Öllum viti bornum mönnum hefur því hlotið að vera ljóst, að eitt af þrennu hlyti að gerast í síðasta lagi nú um áramótin. Í fyrsta lagi, að verðlag innlendra landbúnaðarafurða stórhækkaði, í öðru lagi, að lagðir yrðu á einhverjir nýir skattar til þess að standa undir hinum auknu niðurgreiðslum, og í þriðja lagi, að dregið yrði verulega úr útgjöldum ríkissjóðs. Að sjálfsögðu hefði svo einnig komið til greina að fara allar þessar leiðir að einhverju marki. Þessar þrjár leiðir hafa verið til umhugsunar og umræðu allar götur síðan í sept. s.l. Hver þeirra hefur sína kosti og sína galla. Án efa hefði það verið hyggilegast að leggja fyrst og fremst áherzlu á að draga úr útgjöldum ríkissjóðs og þá fyrst og fremst til ýmiss konar fjárfestingar, bæði í fjárlögum og utan fjárlaga. Það hefði verið í mestu samræmi við þá heildarstefnu, sem tvímælalaust ber að fylgja varðandi ríkisbúskapinn í veltuárum eins og þeim, sem nú eru á Íslandi, að takmarka opinberar framkvæmdir og reyna að hafa áhrif á alla aðra opinbera aðila og þá fyrst og fremst bæjar- og sveitarfélög um að gera slíkt hið sama, þar eð eftirspurn virðist vera eftir tiltæku vinnuafli og fjármagni í atvinnuvegum þjóðarinnar. En hér er hægara um að tala en framkvæma. Langmestur hluti útgjalda fjárlaganna er bundinn af sérstakri lagasetningu, svo sem tryggingalöggjöf og fræðslulöggjöf. Heildarfjárveitingar til opinberra framkvæmda eru á fjárlögum ekki meiri en 500—600 millj. kr., og þegar það er haft í huga, að verðhækkun landbúnaðarafurðanna á s.l. hausti kostar ríkissjóð hvorki meira né minna en 228 millj. kr. í auknum niðurgreiðslur á einu ári, þá gefur auga leið, hversu torvelt er að mæta allri aukningu niðurgreiðslnanna með lækkuðum útgjöldum einum saman.

Ýmsir þingmenn hafa sagt fullum fetum, bæði í þessum umræðum í kvöld og undanfarna daga hér á hinu háa Alþingi, að þeir telji, að leysa beri allan vandann með útgjaldalækkun hjá ríkissjóði, og látið eins og það sé bókstaflega enginn vandi. Engar ákveðnar tillögur hafa þó komið fram af þeirra hálfu um það, hvaða útgjöld ætti að lækka. Þau fáu atriði, sem nefnd hafa verið, nema nokkrum millj. kr., en eins og ég hef margsagt, nemur hækkun niðurgreiðslnanna í sept. s.l. 228 millj. kr. á næsta ári. Enginn hefur komizt neitt nálægt því að nefna möguleika á slíkum sparnaði. Það ætti og að vera augljóst mál, að ákvarðanir um nokkur hundruð millj. kr. lækkun á útgjöldum ríkisins verða ekki teknar í skyndingu, heldur þurfa þær langvarandi undirbúnings, ef þær eiga að vera framkvæmanlegar, og ef draga ætti úr opinberum framkvæmdum eða fresta þeim, þarf að vera um það víðtæk samstaða á Alþingi, þar eð opinberu framkvæmdirnar eru yfirleitt allar mjög nauðsynlegar í sjálfu sér og þess vegna ekki hægt að draga úr þeim eða fresta þeim, nema víðtækur skilningur sé á því, að önnur markmið í efnahagsmálum séu enn mikilvægari. Í þessu sambandi verður að segjast alveg umbúðalaust, að á Alþingi hefur ekki verið og er ekki samstaða um að hafa opinberar framkvæmdir öllu minni en þær hafa verið á þessu ári og eru fyrirhugaðar á næsta ári. Öllum skynsömum mönnum hlýtur því að vera ljóst, að allan vandann, sem við er að etja, hefði verið ógerningur að leysa eingöngu með útgjaldalækkun hjá ríkissjóði, en auðvitað má segja, að fyrst og fremst hefði átt að leggja áherzlu á þá leið. Ef ríkisstj. hefði gert það, er þó enginn efi á því, að það hefði sætt enn þá meiri andspyrnu hér á hinu háa Alþingi en sú leið, sem ríkisstj. leggur nú til að farin verði. Hver efast um það, hvað stjórnarandstaðan hefði sagt, ef ríkisstj. hefði lagt til að fresta verklegum framkvæmdum sem næmi tugum millj. kr., en án slíks hefði útgjaldalækkunarleiðin aldrei getað leyst vandann?

Varðandi hitt, hvort réttara hefði verið að láta verðlag landbúnaðarafurðanna hækka nú um áramótin eða hækka söluskattinn, eins og ríkisstj. hefur lagt til, er það að segja, að miðað við sömu áhrif á verðlag bætir hækkun söluskatts hag ríkissjóðs mun meir en afnám niðurgreiðslna. Afnám allra niðurgreiðslna frá því í sumar og haust hefði hækkað vísitöluna um 7.4 stig eða um 4 1/2%. Hætt er við, að atvinnuvegunum hefði reynzt erfitt að standa undir slíkri hækkun. En bein áhrif hækkunar söluskattsins á framfærslukostnaðarvísitöluna eru hins vegar ekki nema 2 1/2 stig eða 1 1/2%. Þess vegna valdi ríkisstj. þann kost.

Þetta eru meginatriði þess máls, sem fyrir liggur. Í sept. s.l. varð samkomulag um það milli fulltrúa bænda og neytenda að skrifa reikning á þjóðarbúið, sem á næsta ári nemur 228 millj. kr., vegna aukinna niðurgreiðslna. Auk þess tók ríkissjóður á sig í sambandi við samkomulagið önnur útgjöld vegna landbúnaðarins, sem nema allt að 30 millj. kr., og enn fremur aukast útflutningsbætur vegna samkomulagsins um allt að 25 millj. kr. Þennan næstum 300 millj. kr. reikning verður að greiða. Það þýðir ekkert að láta eins og hann sé ekki til, og það þýðir ekkert að reyna að skjóta sér undan að greiða hann. Hann er orðinn til í samræmi við löggjöf, sem á sínum tíma var sett með samþykki allra flokka, bæði þeirra, sem eru nú í stjórn, og hinna, sem eru nú í stjórnarandstöðu.

Það, sem ég hef verið að reyna að segja, er, að þennan reikning hefði á næsta ári mátt greiða með þrennum hætti: Mikilli verðhækkun landbúnaðarvaranna og þá um leið meiri kauphækkun en atvinnuvegirnir hefðu þolað, mikilli lækkun ríkisútgjalda, sem óframkvæmanlegt hefði verið að fá fullnægjandi samstöðu um, og í þriðja lagi með öflun nýrra tekna í ríkissjóð með hækkun skatta. Það er þessi þriðja leið, sem ríkisstj. vill fara. Stjórnarandstöðuflokkarnir vilja, að framleiðendur landbúnaðarvaranna fái reikninginn greiddan, en vilja hvorki, að landbúnaðarvörur hækki í verði, né heldur, að útgjöld ríkisins séu lækkuð eins og þyrfti, né heldur, að skattar séu hækkaðir til þess að greiða reikninginn. Það getur vel verið, að þeir menn séu til á Íslandi, sem taka þennan málflutning stjórnarandstöðunnar sem góða og gilda vöru og telja ríkisstj. ekkert hafa þurft að gera nú fyrir áramótin. Ég held þó, að þessir menn séu ekki mjög margir og þeim fari sem betur fer fækkandi.

En þótt deilt sé nú hart um hækkun söluskattsins, megum við samt ekki láta þessa deilu verða til þess, að við gleymum verkefnunum, sem fram undan eru á fyrri hluta næsta árs. Um mitt næsta ár eiga að fara fram nýir launasamningar á milli launþegasamtakanna og vinnuveitenda. Niðurstaða þeirra samninga mun algerlega skera úr um, hver heildarefnahagsþróunin verður á næsta ári og næstu árum. Júnísamkomulagið í ár sýndi ljóslega, hversu mikið getur áunnizt, þegar bæði ríkisvald, verkalýðsfélög og vinnuveitendasamtök einbeita sér að því að leysa vanda með raunhæfum kjarabótum, í stað þess að laun séu hækkuð í krónutölu með þeirri afleiðingu einni, að verðlagshækkun sigli í kjölfarið. Það er afar mikilvægt, bæði fyrir hag launþega og fyrir alla efnahagsþróun landsins, að áfram sé haldið á þessari braut og reynt sé að ná aftur samningum á næsta ári, er séu svipaðs eðlis. En til þess að svo megi verða, þurfa viðræður og athuganir að hefjast með góðum fyrirvara.

Mér virðast einkum vera fjögur atriði, sem athuga þurfi í sambandi við lausn þessara mála.

Í fyrsta lagi er mikilvægt, að reynt sé að halda áfram viðleitni í áttina til styttingar vinnutímans, eins og gert var í síðustu samningum. Öllum ber saman um, að vinnutími hér á landi sé lengri en góðu hófi gegnir og sé því eðlilegt, að aukin velmegun þjóðfélagsins komi fram í styttri vinnutíma. Þar við bætist, að stytting vinnutímans getur stuðlað að aukinni framleiðni og þar af leiðandi orðið miklu kostnaðarminni fyrir þjóðfélagið en beinar launahækkanir, sem hefðu ekki á sama hátt í för með sér aukna framleiðni.

Annað atriði er endurskoðun skattalöggjafarinnar. Það er óþarfi að undirstrika, hversu ábótavant núverandi skattakerfi er. Það, sem gera þarf í þessum málum, er þrennt. Í fyrsta lagi þarf að endurskoða núgildandi tekjuskatts- og útsvarsstiga. Athuga þarf, hvernig skattbyrðin skiptist á gjaldendur eftir tekjuflokkum og fjölskyldustærð, og þarf í því sambandi að taka tillit til allrar skattbyrðarinnar, þ.e. útsvara, tekjuskatts og nefskatta, sem greiddir eru, svo sem tryggingagjalds. Í öðru lagi þarf að athuga, hvort ekki sé tímabært og nauðsynlegt að breyta skattakerfinu í þá átt að auka fasteignaskatta og breyta tekjuöflun sveitarfélaganna úr útsvörum í fasteignaskatta að verulegu leyti. Hér á landi eru fasteignaskattar miklu lægri en sennilega í nokkru öðru landi veraldar. Bendir margt til þess, að erfitt sé að koma hér á réttlátu og heilbrigðu skattakerfi án hækkunar á fasteignasköttum. Hins vegar hafa fasteignaskattar hér verið lágir svo lengi, að erfitt er að gera hér snöggar breytingar. Þess vegna væri að öllum líkindum skynsamlegast að framkvæma slíkar breytingar í áföngum og ætla sér til þess góðan tíma. Í þriðja lagi þarf svo að gera ráðstafanir til þess, að álagning verði réttlátari en verið hefur og torveldara fyrir skattgreiðendur að skjóta sér undan skattgreiðslu. Margvíslegar ráðstafanir hafa þegar verið gerðar í þessa átt, og verður að halda þeim áfram.

Þriðja atriðið, sem athuga ætti í sambandi við væntanlega launasamninga, er lækkun tolla. Tollar eru hér á landi mjög háir og miklu hærri en víðast hvar annars staðar í heiminum. Frá almennu efnahagssjónarmiði væri mjög skynsamlegt að lækka tolla. Við þurfum á því að halda, að aðrar þjóðir lækki tolla á útflutningsvörum okkar, en því getum við varla komið til leiðar, nema við séum reiðubúnir til þess að lækka tolla á þeim vörum, sem við flytjum inn. Enn er þess að geta, að hinir háu tollar valda ríkissjóði í raun og veru miklum erfiðleikum vegna smygls, sem þeir hafa í för með sér. Þá eru tollarnir auðvitað mikill baggi á herðum launþega, þar sem þeir valda hærra vöruverði en annars þyrfti að eiga sér stað.

Fjórða atriðið, sem ég tel að verði að koma til athugunar í sambandi við undirbúning launasamninganna, er endurskoðun stefnunnar, sem fylgt er í landbúnaðarmálum. Hinn sívaxandi stuðningur við landbúnaðinn úr ríkissjóði er orðinn eitt af helztu efnahagsvandamálum þjóðarinnar. Enginn ágreiningur er um það, að Íslendingar eiga að stunda landbúnað. Hins vegar getur íslenzkur landbúnaður eflaust ekki orðið samkeppnisfær við landbúnað helztu útflutningsþjóða á landbúnaðarvörum. Þess vegna er óhjákvæmilegt og sjálfsagt að vernda íslenzkan landbúnað fyrir samkeppni af hálfu helztu landbúnaðarþjóðanna, en landbúnaðurinn verður þá að endurgjalda þá vernd með því að leggja allt kapp á að halda framleiðslukostnaði eins lágum og mögulegt er, jafnframt því sem framleiðslan sé fyrst og fremst miðuð við þarfir innanlandsmarkaðsins. Á hvoru tveggja er þó mikill misbrestur. Landbúnaðarframleiðslan vex hröðum skrefum, án þess að þörf sé fyrir aukninguna innanlands. Hún er þess vegna flutt út. En útflutningsverð á kjöti er um það bil 2/3 hlutar af því, sem kostar að framleiða það hér innanlands, og útflutningsverð mjólkurafurða er ekki nema 1/3 hluti af framleiðslukostnaðinum innanlands. Á næsta ári mun ríkissjóður greiða yfir 180 millj. kr. í bætur á útfluttar landbúnaðarvörur, og er það um 10% af heildarverðmæti allrar landbúnaðarframleiðslunnar. Miðað við það, að bændur séu um 6000 að tölu, lætur nærri, að útflutningsbæturnar úr ríkissjóði nemi um 30 þús. kr. á hvern bónda í landinu, og það er ekki aðeins, að greiða þurfi þetta mikla fé með þeirri aukningu landbúnaðarframleiðslunnar, sem flutt er út, heldur er hátt í 200 millj. kr. samhliða varið samkv. fjárlögum til þess að auka landbúnaðarframleiðsluna. Alla stefnuna í landbúnaðarmálunum þarf þess vegna að endurskoða vandlega. Gera verður skynsamlega framtíðaráætlun um stækkun býla og aukna tækni í landbúnaðinum, sem lækki framleiðslukostnaðinn, samtímis því sem framleiðslan sé í ríkara mæli en nú á sér stað miðuð við þarfir innanlandsmarkaðsins, þannig að þörfin á útflutningsbótum minnki. Þá verður og að endurskoða reglurnar, sem nú gilda um verðlagningu landbúnaðarafurðanna. Þær hafa verið gallaðar frá upphafi og eru nú að ýmsu leyti orðnar algerlega úreltar.

Ég er mjög eindregið þeirrar skoðunar, að stytting vinnutíma, endurbætur í skatta- og tollamálum og skynsamlegar breytingar á stefnunni í landbúnaðarmálum mundu vera íslenzkum launþegum miklu raunverulegri og varanlegri kjarabót en óraunhæf hækkun kaupgjalds í krónum. Ég tel það fyrst og fremst

vera hagsmunamál launþeganna sjálfra, að í kjölfar launasamninganna á miðju næsta ári sigli ekki ný verðbólgualda. Ef laun hækka ekki meira en efnahagskerfið þolir, eru ótvíræð skilyrði fyrir hendi fyrir áframhaldandi vaxandi velmegun hér á landi, ört vaxandi þjóðarframleiðslu samfara sterkri stöðu út á við.

Ég sé þó enga ástæðu til þess að draga dul á það, að ýmsir erfiðleikar eru fram undan í íslenzku efnahagslífi. Svo virðist sem hver hópurinn af öðrum telji nú kominn tíma til að skara eld að sinni köku. Þetta á sér oft stað í góðæri, og það er skuggahliðin á góðærinu, því að hætt er við, að í heild verði kröfurnar svo miklar, að ekki geti allir fengið allt, sem þeir vilja, heldur verði allir fyrir tjóni, ef þeir reyna allir að knýja kröfur sínar fram. Á þessu hefur verið vaxandi skilningur á þessu ári. Það er mjög mikilvægt, að hann verði ekki minni á næsta ári.

Þetta eru vandamálin, sem þarf að einbeita sér að, þegar storminn, sem nú hefur verið um söluskattshækkunina, lægir, og hann lægir áreiðanlega innan skamms. En þá verða allir þeir, sem áhuga hafa á því, að jafnvægi haldist í íslenzku efnahagslífi, að halda vöku sinni.

Ég lýk þessum orðum mínum með einlægri ósk um það, að sem fyrst á næsta ári megi hefjast samstarf ríkisstjórnar, launþegasamtaka og vinnuveitendasamtaka um að undirbúa þess konar launasamninga á miðju næsta ári, sem tryggi launþegum raunverulegar kjarabætur vegna vaxandi þjóðarframleiðslu og sterkrar gjaldeyrisstöðu. Í íslenzkum efnahagsmálum yrðu ekki meiri gæfuspor stigin á næsta ári en þau, að áframhaldandi friður héldist með launþegasamtökunum og vinnuveitendasamtökunum á grundvelli ráðstafana til verndunar jafnvægis í efnahagsmálum og þess konar breytinga á kjörum, sem eru ekki verðbólgureykur einn, heldur traust undirstaða aukinnar velmegunar, vaxandi afkomuöryggis og bætts menningarlífs. — Góða nótt og gleðileg jól.