21.10.1964
Sameinað þing: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í D-deild Alþingistíðinda. (3120)

15. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka, þessari n. fyrir störf hennar. Ég skal játa það, að hún fullyrðir lítið í þessu nál. N. hefur unnið talsvert mikið verk og skrifar ekki óskynsamlega um málið. Það er mikill misskilningur, sem kom hér fram hjá hv. 5. landsk., að þetta sé eitthvert áhlaupaverk, sem maður eigi að taka föstum tökum. Satt að segja var hans fyrri ræða hógværari og skynsamlegri, en grunnhyggni kom ákaflega skýrt fram í þessari seinni ræðu. Það á kannske að vaða í að reisa grasmjölsverksmiðju og sútunarverksmiðju og skipasmíðastöð án þess að hafa gert nokkrar áætlanir, talað við nokkra menn, sem hafa, almennilega vit á þessum hlutum. Það er nefnilega ekkert áhlaupaverk að byggja upp iðnað og það er miklu betra að fara hægar og gera meira af viti. Víst þyrfti að koma upp skipasmíðastöð á Siglufirði, það er alveg rétt. En það þarf að hafa skynsamlega fjárfestingu um leið. Það er ekki til neins að reisa skipasmíðastöð á Siglufirði og svo séu þær reistar hér og þar annars staðar á landinu og verði svo miklu fleiri en þær þurfa að vera. Það þarf að vera lýðræðislegt skipulag í fjárlestingarmálum. En það er ekki nóg að taka þetta föstum tökum, eins og t.d. Stalín sálugi gerði með landbúnaðinn í Rússlandi, það var ekki til fyrirmyndar. Það þarf að byggja þetta upp á heilbrigðan og skynsamlegan hátt og ekki flana í neina vitleysu. Ég veit, að þessi n. hefur margt á prjónunum, sem hún talar ekki um í þessu nál. Ég fór til formannsins í vor og bað hann um að fara í kaupstaðina í Norðurlandskjördæmi vestra og Hólmavík, því að það var sama sagan þar. Þá voru þeir búnir að skrifa og fá svör frá sumum og þeir gerðu þetta. Ég bað þá að tala við iðnaðarmennina og bæjarstjórnirnar og þeir gerðu það. Ég veit, að þeir hafa haft mikið gagn af þessu. Þetta er ekkert áhlaupaver, og það er miklu betra að fara rólega og gera skynsamlega hluti heldur en gana áfram í einhverja vitleysu.

Það kom herfilegur misskilningur fram hjá hv. 5. landsk., að hann taldi, að það bæri vott um eitthvert voðalegt neyðarástand og eymd, að það leituðu sér fleiri menn atvinnu frá Skagaströnd og Hofsósi, en öðrum stöðum. Þetta liggur einfaldlega í því, að þar eru fleiri sjómenn. Skagstrendingar sigldu 5 skipum fyrir Horn í fyrra hingað suður og voru tvo mánuði að fiska fyrir sunnan og aldrei slík reisn á þeim eins og þá. Landfólkið fór og vann við bátana. Þessir menn öfluðu á tveimur mánuðum fyrir allt að 20 millj. í erlendum gjaldeyri, yfir 200 þús. á nef. Það hefði verið svolítið betra fyrir þá að liggja heima í bólum sínum, eða fá 1–2 tonn í róðri heima stöku sinnum og fara svo suður og betla um aðstoð. Það, sem er merki um dugnað og manndóm og framtak, það á að vera merki um eymd og ræfildóm hjá þessum hv. þm.

Hitt er annað mál, að við þurfum að gera atvinnulífið fjölbreyttara og það eru ekki allir, sem geta farið að heiman. Þetta fólk þarf að hafa vinnu. Það er kvenfólkið, sem þarf að hafa vinnu heima,og þeir, sem ekki geta farið. Og við megum ekki slá því föstu, að það sé eitthvað táknrænt um eymd og vesaldóm, þegar menn hafa manndóm og dugnað til þess að fara að afla sér tekna og hafa tvöfalt kaup við það, sem þeir geta haft heima eða jafnvel meira. Þetta hefur verið svona frá alda öðli. Það er ekki neinn fiskur fyrir Norðurlandi að ráði í marz og apríl, nema ef þessi hv. þm. vildi þá breyta fiskigöngunum. Annars er gott að fá, svona sendingar út í byggðirnar, unga, efnilega og hávaðasama menn. En þetta var ólán hjá okkur, að það fór öll síld þarna austur fyrir, svo að mér hefur dottið í hug, hvort hv. 3. þm. Reykv. vildi ekki senda Austfirðingum einn til þess að dreifa síldinni, svo að hún færði sig eitthvað fyrir Norðurlandið, þannig að við fengjum eitthvað af henni. Ég náttúrlega fullyrði ekkert um þetta, en það er alls ekki ómögulegt, að það dreifðist þá eitthvað síldarflotinn.

Vitanlega er geysilegt áfall fyrir okkur að missa af síldarvinnunni, það liggur í augum uppi. En við þurfum ekki að halda, að við vinnum þessum kauptúnum neitt gagn með því að vera að væla og berja lóminn, þannig að allir bankar verði lokaðir fyrir mönnum og hver einasti framtakamaður sé hræddur frá því að setjast að í þessum byggðarlögum. Þetta er stórhættulegur hlutur, að búa til einhverja eymd, sem er ekki fyrir hendi. Ég get sagt ykkur, að það var eins og hver önnur vitleysa að banna dragnótaveiðar í þessum flóum. Ég hafði samband bæði við oddvitann í Höfðakaupstað og eins einn af aðalmönnunum á Sauðárkróki um það í fyrravetur að leyfa bátunum dragnót. Þeir fóru að veiða í dragnót og þeir mokuðu upp kola og í sumar var næg atvinna á Sauðárkróki og Skagaströnd. Nei, það þýðir ekki að vera alltaf að mála einhverjar skrípamyndir á vegginn og segja einhverja vitleysu. En vitanlega þarf að taka raunhæft á þessum hlutum. Það, sem gera þarf, er að fresta afborgunum af fiskiskipunum. Það eru fleiri svæði en Norðurl. v., það er alveg eins Norðurl. e. og hluti af Vestfjörðum og kannske víðar. Það þarf að fresta afborgunum af skipunum, mér finnst of langt gengið að fresta vaxtagreiðslunum og svo þarf að breyta hlutatryggingasjóðslögunum eða reglunum um hlutatryggingasjóðinn. Reglurnar eru þannig, að það er miðað við 5 ára meðaltal og ef meðaltalið fer lækkandi, minnkar þetta alltaf. Það þarf að hafa þetta það verulegt, þar sem þess gerist þörf, að það sé eitthvert gagn að því. En við fengum áfall með línunni í fyrra fyrir Norðurlandi. Það aflaðist ekkert. En þá voru reglurnar þannig, að það fékkst hér um bil ekkert úr hlutatryggingasjóði, þetta 20–40 þús. kr. á bát, þegar við töpuðum 300–400 þús. kr. á línunni þennan tíma. Þessu þarf að breyta, en því verður ekki breytt með hávaða og látum.

Svo vil ég þakka iðnmrh. fyrir það góða samstarf, sem hann hefur haft við þessa n., og ég álít, að hennar starf sé að byrja, og efast ekki um, að hún eigi eftir að gera mikið gagn. En það er mesti misskilningur, að það sé eitthvað skaðlegt, þó að litið sé á landið allt, en ekki bara eitt kjördæmi, ef eitthvað á að gera til gagns í þjóðfélaginu.