21.10.1964
Sameinað þing: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í D-deild Alþingistíðinda. (3123)

15. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hér hefur borið á góma erfiðleika, sem ýmis sjávarþorp eiga við að etja norðanlands og vestan vegna aflaskorts og nefndi hæstv. ráðh. m.a. tvö þorp á Vestfjörðum, Hólmavík og Drangsnes. Það eru allískyggilegar tölur, sem komu fram um fólksflutninga þaðan vegna, atvinnuleysis og verður af þessu séð, að ekki er ástandið betra í þessum þorpum en norðar. Hann nefndi m.a. hafnarskilyrði á Dranganesi og þar mundi vera talið útilokað að gera viðunandi höfn. Ég skal ekki dæma um það. Ég vil þó minna á hitt, að Drangsnesbúar hafa í nokkur ár óskað eftir lítilfjörlegum endurbótum á hafnarmannvirkjunum hjá sér, til þess að það væri hægt að afgreiða skip, en hafa ekki fengið þær. Svona ráðastafanir ætti að vera hægt að framkvæma þær eru ekki svo stórar í sniðum. Mér er kunnugt um það, að á Vestfjörðum er aðallega um erfiðleika að ræða af þessum sökum á Hólmavík, Drangsnesi, Súðavík og Flateyri. Og það er ekki hægt að gleyma því, þegar minnzt er á þessi mál, hversu alvarlegir hlutir hafa gerzt fyrir fáum dögum í einu af þessum þorpum, Flateyri, þar sem tveir bátar farast og sjö menn drukkna úr þessu litla þorpi. Ég ætla ekki að ræða það frekar, ég tel ekki rétt, að einstakir þm. komi með beinar till. um skjóta aðstoð fyrir þetta fólk, því að ég vænti þess fastlega og treysti hæstv. ríkisstj, til þess að eiga frumkvæðið að því sjálf. Ég treysti því algerlega. Mér er kunnugt um, að stjórn atvinnubótasjóðs mun hlaupa undir bagga að einhverju leyti, en hún hefur lítil fjárráð, og það dregur ekki langt.

Nýlega hefur okkur þm. Vestf. borizt í hendur bréf frá Útvegsmannafélagi Vestfjarða, þar sem farið er fram á lengingu á stofnlánum bátaútvegsmanna. Ég vænti þess, að þeirri málaleitun verði tekið vel og þetta er ein ráðstöfunin þeim til aðstoðar, sem eiga við aflaskort að búa og erfiðleika, að etja. En aðalatriðið í þessum málum er auðvitað að koma til hjálpar nógu fljótt, þótt ekki sé í stórum stíl.

Ég skal viðurkenna, að það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, það er erfitt að taka einstök atriði út úr, heldur þarf að skoða þetta í heild. Og ég lái honum ekki, þó að hann hafi ekki tilbúnar till. í heild í þessum málum. En ég vil aðeins benda á eitt í sambandi við þetta. Það er það, að við megum ekki bíða eftir því, að fólkið sé farið úr þessum þorpum. Það þarf að gera skyndiráðstafanir, það þarf að gera bráðabirgðaráðstafanir, þó að ekki liggi fyrir rökstuddar till. um heildarráðstafanir, áður en fólkið fer, til þess að það fari ekki. Hitt er of seint. Það þarf að byrgja brunninn, áður en barnið er dottið í hann, að ég tali ekki um Flateyri sérstaklega, heldur þessi þorp, sem drepið hefur verið hér á hvað Vestfirði snertir og ætla ég, að eins sé um önnur kauptún á Norðurlandi og Vestfjörðum. Á þetta vildi ég leggja áherzlu og vænti hins bezta af hæstv. ráðh., að hann athugi þessa möguleika, að bíða ekki með einhverjar bráðabirgðaráðstafanir, sem að gagni geta komið, — bíða ekki eftir heildarráðstöfunum í þessum efnum.