28.10.1964
Sameinað þing: 7. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í D-deild Alþingistíðinda. (3134)

24. mál, Áburðarverksmiðja

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. heldur því fram, að það hafi orðið mikill fjárhagslegur ávinningur við það að leggja niður áburðareinkasölu ríkisins og fela áburðarverksmiðjunni verzlun með áburðinn. Og hann var með tölulestur mikinn í því sambandi og komst upp í nokkrar millj., sem hann sagði að þessi hagnaður hefði orðið. Ég verð að segja það, að mér finnst þetta allt nokkuð vafasamt og ástæða til að efast um, að þetta sé í raun og veru eins og fram kemur í tölum hæstv. ráðh., því að hann tók það fram, að allt væri þetta miðað við það, hvað kostnaður við reksturinn væri núna í höndum áburðarverksmiðju ríkisins og hvað hann hefði orðið, ef áburðareinkasalan hefði starfað áfram. Nú skilst mér, að það liggi ekkert fyrir um það, hvað hefði orðið með óbreyttu fyrirkomulagi. Það getur enginn okkar sagt um það, hvað kostnaður hefði orðið við rekstur áburðareinkasölunnar, ef hún hefði starfað áfram.

En það var nú ekki síður annað, sem kom mér til þess að biðja um orðið. Í ríkisreikningum er einn liðurinn að sjálfsögðu áburðarsalan, Áburðarsala ríkisins. Hún er hér talin með öðrum ríkisstofnunum og mér sýnist síðasti ríkisreikningur, sem við fengum nýlega í hendur, reikningurinn fyrir næstliðið ár, 1963, benda til þess, að þetta sé orðin gróðalind fyrir ríkið, salan á áburði. Árið 1962 segir í ríkisreikningi, að brúttóhagnaður af vörusölu áburðarsölunnar hafi orðið 1 millj. 347 þús. og nokkrar krónur að auki. Og þá er rekstrarhagnaður áburðarsölunnar 325 þús. kr. En svo færast menn mjög í aukana, því að samkv. reikningnum 1963 er brúttóhagnaður af vörusölunni kominn upp í 3 millj. 992 þús. kr. Hann er sem sagt nærri þrisvar sinnum hærri en 1962, þ.e.a.s. álagningin á þessa vöru, verzlunarálagningin á þessa vöru. Nú hefur vörusalan orðið eitthvað töluvert meiri síðara árið en hið fyrra. Ég hef nú ekki gögn, sem sýna það, en það er samt af þessu ljóst, að álagningin hefur verið hækkuð alveg stórkostlega. Enda sýnir rekstrarútkoman það samkv. ríkisreikningnum síðasta. Rekstrarhagnaður af áburðarsölunni árið 1963 hefur orðið 2 millj. 136 þús. kr. Það er 6–7 sinnum meira en árið áður. Og þessi hagnaður er talinn hér á ríkisreikningi með öðrum tekjum af rekstri ríkisstofnana. Þar er náttúrlega áfengis- og tóbaksverzlun langsamlega hæst, því að hún skilar í ríkissjóð 357 millj. á því ári. En svo kemur áburðarsalan þar næst á eftir. Hún skilar rúmlega 4 sinnum meiri rekstrarhagnaði í ríkissjóð en Innkaupastofnun ríkisins. Það er á 3. millj., sem ríkið tekur þarna af áburðarsölunni. Ég held, að það hafi aldrei verið til þess ætlazt, að þetta yrði gróðavegur fyrir ríkið, að útvega bændum áburð, en það er orðið það.

Mér finnst ástæða til að gera athugasemd við þetta. Og hér þarf áreiðanlega að verða breyting á. Áburðarverksmiðjan og áburðarsalan á að vera þjónusta við landbúnaðinn, en ekki gróðalind fyrir ríkissjóð að annast þennan rekstur.