11.11.1964
Sameinað þing: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í D-deild Alþingistíðinda. (3151)

211. mál, umferðarkennsla

Fyrirspyrjandi (Jón Skaftason) :

Herra forseti. Hin tíðu umferðarslys, sem hafa orðið á götum landsins á undanförnum árum, hafa að sjálfsögðu vakið fólk til umhugsunar um, hvort ekki væri hægt að gera öryggisráðstafanir, sem til þess væru fallnar að draga úr þessum hörmulegu slysum. Á árinu 1958 voru sett hér á landi ný umferðarlög. Mér er kunnugt, að við undirbúning þeirra laga var leitað ráða og álits hinna færustu manna og sú n., sem undirbjó þetta frv., eyddi í það talsverðri vinnu og tíma. Í 83. gr. umferðarl., nr. 26 frá 1958, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Kennsla í umferðarreglum skal fara fram í barna- og unglingaskólum. Menntmrh. setur reglugerð um tilhögum kennslunnar og prófkröfur.“

Í samræmi við þetta var svo á árinu 1960 sett reglugerð nr. 51 um umferðarkennslu í skólum landsins. Í 3. gr. þeirrar reglugerðar segir þannig: „Í barna- og unglingaskólum skal umferðarfræðsla vera einn þáttur skyldunámsins.“ Og enn fremur í 9. gr. sömu reglugerðar segir: „Í Kennaraskóla Íslands og Íþróttakennaraskóla Íslands skal umferðarfræðsla vera skyldunámsgrein.“ Enn fremur: „Halda skal námskeið fyrir kennara, sem réttindi vilja öðlast til að kenna börnum og unglingum umferðarmál.“

Að sjálfsögðu var ákvæðum laganna og ákvæðum reglugerðarinnar, sem ég var hér áðan að lesa, fagnað mjög af öllum almenningi, sem taldi, að kennsla í umferðarmálum væri vel til þess fallin að reyna að fyrirbyggja hin tíðu umferðarslys. Lögin út af fyrir sig og reglugerðin, sem sett hefur verið á grundvelli þeirra, er að mínu viti mjög skýr og góð og tel ég, að þar þurfi engu að breyta. Hins vegar eru menn ekki á eitt sáttir um framkvæmd þessara ákvæða og því er borin fram sú fsp., sem hér er rædd og er í tveim liðum. En fyrri liður hennar hljóðar þannig:

„Hvernig hefur verið framkvæmt ákvæði 83. gr. umferðarl., nr. 28 frá 2. maí 1958, um kennslu í umferðarmálum í barna- og unglingaskólum landsins?“

Og b-liður:

„Hversu miklu fé hefur verið varið úr ríkissjóði til þessarar fræðslu, frá því að lögin tóku gildi?“

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þessa fsp.