11.11.1964
Sameinað þing: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í D-deild Alþingistíðinda. (3155)

211. mál, umferðarkennsla

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðh., að hér hefur verið farið að mínum dómi vel af stað, þegar á það er litið, að um algert nýmæli er að ræða og sömuleiðis það, sem hann sagði, að hér stendur margt til bóta. Ég fagna þeim ummælum hæstv. ráðh. að vilja vinna að því, að starf þess manns, sem að þessum málum hefur unnið, skipulagningu umferðarkennslu í skólum, skuli eftirleiðis gert að fullu starfi. Ég tel þess fulla þörf og mikið öryggi fyrir því, að þessi mál fái áfram að þróast í rétta átt.

Eitt atriði vildi ég aðeins minnast á í þessu sambandi, því að ég held, að það skipti miklu máli, þegar um framkvæmd laga um umferðarkennslu í skólum er að ræða og það er sá losarabragur, sem enn er á kennslu og kennslutilhögun í þessum málum í skólunum. Mér skilst, að umferðarkennsla í skólum sé ekki nema að einhverju örlitlu leyti sett sem föst námsgrein á námsskrá, það sé um of lagt á vald einstakra kennara, hvernig þessi kennsla er rækt. Þeim er sem sé, að nokkru leyti a.m.k., ætlað að kenna umferðarreglur með hinum og öðrum námgreinum, meira eða minna óskyldum þessu máli. Þetta er óheppilegt og ég vil aðeins benda á það hér, að það er full þörf á því, einmitt til þess að bæta úr því, sem enn kann að fara aflaga, að koma þessu máli, kennslu í skólunum, í fastara og ákveðnara horf, þannig að um verði að ræða skyldunámsgrein á borð við hverja aðra. En ég vil um leið taka það fram, að ég er andvígur því, að hér verði búin til ný námsgrein til viðbótar öllum öðrum og til aukins álags fyrir börnin í skólunum. Hér verður að synda milli skers og báru, afnema eitthvað, sem hægt væri að afnema og koma þessari þörfu kennslu í fast horf í staðinn.