11.11.1964
Sameinað þing: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í D-deild Alþingistíðinda. (3156)

211. mál, umferðarkennsla

Fyrirspyrjandi (Jón Skaftason) :

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að mótmæla þeim misskilningi, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh. hér áðan, þar sem hann talaði um það, að greinarhöfundur, Baldvin Þ. Kristjánsson, væri í grein þeirri, sem ég las upp úr örstuttan kafla áðan, að ráðast sérstaklega á Jón Oddgeir Jónsson eða kennarastétt landsins, eins og hann vildi túlka það. Þvert á móti er það auðséð öllum, sem þessa grein vilja lesa, að greinarhöfundur ber hið mesta lof á Jón Oddgeir Jónsson og kennarastéttina, en deilir aðeins á, að Jóni Oddgeir sé ekki veitt sú starfsaðstaða af hálfu hins opinbera, sem hann þyrfti að hafa til þess að geta sinnt þessum málum, svo að nægjanlegt megi teljast. Þessu til sönnunar langar mig til þess að lesa upp úr sömu grein örstuttan kafla, þar sem þetta kemur ákaflega skýrt fram. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það breytir engu um kurfshátt og vesaldóm viðkomandi stjórnarvalda, að til þessa hálfsdagsjobbs valdist einn hæfasti og áhugasamasti slysavarnamaður landsins, sem auk þess er þekktur að röskleik og dugnaði. En starfskröftum sínum heilum og óskiptum var honum ekki af hálfu ríkisvaldsins búin aðstaða til þess að fórna á altari öryggis í umferðarmálum, þó að algerlega óframkvæmd, víðtæk umferðarlöggjöf, ný af nálinni, biði örlaga sinna, eins og telja má þó víst að þeim manni hefði verið harla ljúft. Þegar svo til viðbótar þessari óhrjálegu staðreynd leggst ömurleg starfsaðstaða þessa manns á vegum hins opinbera í þjónustu eins mikilvægasta velferðarmáls þjóðfélagsins, mun nú sennilega flestum hugsandi mönnum finnast mælirinn sæmilega fullur.“