11.11.1964
Sameinað þing: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í D-deild Alþingistíðinda. (3157)

211. mál, umferðarkennsla

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hér er spurt um framkvæmd á allþýðingarmikilli löggjöf, löggjöf, sem hefur mörg nýmæli að flytja og löggjöf, sem hefði mikla þýðingu, ef hún væri vel framkvæmd. Eftir spurningunni að dæma og upplýsingum, sem fyrirspyrjandi hefur gefið, mætti ætla, að framkvæmdin sé slök og í molum. Eftir skýrslu hæstv. menntmrh. mætti ætla, að hér væri allt í himnalagi. En það, sem mestu máli skiptir, er ekki það, hvort hægt er að gefa snotra skýrslu um framkvæmdina, heldur hitt, hvernig hún er í skólum landsins. Ég hygg, að það hefði mátt segja sér það fyrir fram, að það væri miklu meira en hálfs manns starf að heimsækja alla skóla landsins og koma á kennslu í umferðarmálum sem algeru nýmæli, þegar þeirri námsgrein er þá ekki ætlað rúm á námsskrám skólanna. Ég hygg, að það sé sanni nær, að þessi framkvæmd sé lítils virði, ef nokkurs, ekki vegna þess, að maðurinn hafi vanrækt sitt starf, því að honum er ekki ætlað annað en að sinna þessu hálfan vinnudag og hann á að heimsækja alla skóla landsins og annast þar kennslu, því að með því að ætla sérstökum kennara þetta, verður það til þess, að kennarar skólanna og skólastjórar geta ekki haft þetta með höndum og þetta dettur niður á milli.

Ég mundi vilja spyrja hæstv. menntmrh. að því, hvað er búið að heimsækja marga skóla af þessum sérstaklega ráðna umferðarkennara í umferðarmálum. Hvað er búið að heimsækja marga skóla, hve margir hundraðshlutar eru það af skólunum og hve langt mundi verða, þangað til hann mundi verða búinn að heimsækja alla skóla landsins? Hefur þessi kennari rétt til þess að grípa inn í kennslu og taka við kennslu af kennurum skólanna eða skólastjóra, þegar hann kemur í heimsókn, eða þarf hann að fara bónleiður til búðar hjá skólastjórum og kennurum, ef þeir vilja ekki þoka með sína kennslu fyrir hans kennslu? Og er búið að koma nokkru lagi á það, að kennararnir við skólana annist kennsluna sem þætti í kennslu sinna námsgreina? Er nokkurt skipulag komið á það? Er nokkur von til þess, að kennararnir víki úr sinum kennarastól og fái umferðarkennaranum tíma, ef engin orð hafa komið um það frá fræðslumálastjóra? Ég held ekki.

Það væri sannarlega ekki of mikið, þó að það kæmi annaðhvort bréf frá menntmrh. eða fræðslumálastjóra um það, að fulltrúi fræðslumálastjórnarinnar í þessum málum skuli hafa rétt til þess að taka til kennslu, þegar hann kemur og önnur kennsla skuli þá þoka fyrir kennslu hans á meðan. Ég er afar hræddur um, að hér sé of mikil sjálfsánægja á ferðinni hjá hæstv. menntmrh. og það sé þá ætlazt til þess, að menn uni því, að það taki 15–20 ár að koma þessari kennslu í framkvæmd. En það er ég ekki ánægður með.