11.11.1964
Sameinað þing: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í D-deild Alþingistíðinda. (3159)

211. mál, umferðarkennsla

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mér þykir strax betra að heyra það, að hæstv. menntmrh. er ekki sannfærður um, að málið sé í himnalagi, því að ef hann væri ánægður með það eins og það er, væri lítilla umbóta von. En úr því að hann er það ekki, hygg ég, að það standi vonir til þess, að hann gefi þessu máli gætur. Þó að ábyrgðinni sé skotið á einhverja nefnd um að hafa ráðið til þessa starfs hálfan mann, þá vil ég segja það, að þar hefur verið farið öfugt að, því að það hefði gjarnan þurft tvo menn til þess að byrja á starfinu og geta svo dregið úr því, eftir að búið var að gefa út kennslubækur, semja þær, dreifa þeim og þjálfa kennarana, eftir það þurfti ekki annað en halda kennslunni við og sjá um, að hún væri innt af hendi af einhverjum aðila, t.d. þjálfuðum kennurum í skólakerfi landsins. Þá væri þetta miklu minna verk. En til að byrja með máttu allir sjá, að þetta væri miklu meira en hálfs manns starf. Það verður því ekki undan því vikizt, að þarna hefur verið farið mjög öfugt að. Starfið er auðvitað viðamest og vandasamast í byrjun og kannske þýðingarmest, hvernig af stað væri farið. Ég er, eins og ég áðan sagði, mjög hræddur um, að meðan svona er að þessu búið, að þetta skuli vera hálfs manns starf, þá sé starfið lítið rækt, án þess að um vanrækslu sé að ræða af þess manns hendi. Við vitum það sjálfir, þegar við gegnum þremur eða fjórum hálfs manns störfum, að það verður eitthvað að verða út undan og gjarnan þá helzt það, sem liggur ekki næst okkar vinnustað, það, sem ætti að rækja með heimsóknum út um land. En hér mun vera um það að ræða, að viðkomandi maður hafi 3, ef ekki 4 hálfs manns störf.

Ég held því, að það, sem þurfi sérstaklega að gera, sé a.m.k. að helga einum manni þetta starf og gera þær línur skýrar, hvort hann hefur rétt til þess að ráðstafa kennslustarfinu í hinum einstöku skólum á hendur þess kennara, sem hann teldi bezt til þess færan að inna það af hendi, svo að það sé ekki lauslega á hendi hvers skólastjóra að sjá um, að einhver af kennurum víki að þessu máli einhvern tíma í sinni kennslu, því að þá dettur það niður á milli alveg og verður ekki gert og að það sé alveg ljóst, hvort skólarnir eiga að inna kennsluna af hendi eða hvort þeir eiga bara að bíða eftir því, að umferðarkennarinn komi. Ég er alveg sannfærður um það, að við marga skóla, a.m.k. smærri skóla úti um land, er í sumum tilfellum enginn kennari fær um að inna þessa kennslu af hendi, svo að gagn sé að. Og þá bíður hún eftir því, að umferðarkennarinn komi, og taki hann sér viku í hverjum skóla, — minna hygg ég að dygði ekki, — þá veit ég það, þó að hann slægi ekki slöku við og ætti engu öðru að sinna, þá verður hann í mörg ár að heimsækja alla skólana.