18.11.1964
Sameinað þing: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í D-deild Alþingistíðinda. (3171)

35. mál, akbrautir milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar

Sverrir Júlíusson:

Herra forseti. Á þskj. 38 ber Matthías Á. Mathiesen fram fsp. um akbrautir milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, en vegna fjarveru Matthíasar Á. Mathiesens leyfi ég mér að taka fsp. upp.

Hv. Alþingi samþykkti þáltill. um umferðaröryggi á leiðinni milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar hinn 15. febr. 1961, er Matthías Á. Mathiesen, Sigurður Ingimundarson og Alfreð Gíslason bæjarfógeti báru fram. Þáltill. þessi var svo hljóðandi. með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta í samráði við vegamálastjóra gera athugun á því, á hvern hátt hægt sé að tryggja betur öryggi vegfarenda á leiðinni Reykjavík-Hafnarfjörður, en nú er gert og verði þær úrbætur, sem gerðar verða, miðaðar við lagningu tvöfaldrar akbrautar.“

Eftir að þál. þessi var samþykkt, hafa að vísu verið gerðar nokkrar öryggisráðstafanir á leið þessari og þá sérstaklega á Kópavogshálsi og með því að banna framúrakstur á vissum stöðum á leið þessari, þar sem þéttbýlið er mest. En betur má að gera, ef duga skal. Umferð á þessari leið er langsamlega mest á landi hér og hefur farið hraðvaxandi hin síðustu ár. Sýnir athugun vegamálaskrifstofunnar, hve umferðin er geysimikil og fer ört vaxandi hin síðustu ár. Samkvæmt þeim athugunum var umferðin yfir Fossvogslækinn haustið 1955 6.000 bílar á dag, 1957 7.000 bílar á dag, 1960 9.700 bílar á dag, 1961 9.800 bílar á dag, 1963 12.000 bílar á dag og nú í ár um 15.000 bílar á dag. Á það skal bent, að umferð á þessari leið er mjög jöfn allt árið vegna búsetu þess mikla fólksfjölda, er sækir atvinnu sína á aðra staði, bæði til hægri og vinstri, ef svo mætti segja og einnig vegna ört vaxandi athafnasvæða, er þessi ein höfuðumferðaæð liggur um og tengir aðrar leiðir við höfuðborgina. Tölur þessar sýna, hve aukning umferðarinnar hefur orðið mikil hin síðari ár, eða 24% frá síðasta árl. 53% frá árinu 1961, en 150% frá árinu 1955. Á öðrum hluta akbrautar þessarar, þ.e. um Kópavogsbrúna, er umferð nú á árinu 1964 7.000 bílar á dag. Eina umferðaræðin, sem hægt er að bera saman við leiðina á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, er akbrautin um Elliðaárnar, en um sumarmánuðina á s.l. sumri var umferðin þar 9.000 bílar á dag. Á þessari umferðaræð er mikil umferð allt árið, en þó langmest yfir sumarmánuðina. Það er athugandi, að leiðin um Elliðaárnar kvíslast fyrst í tvær og síðan á þrjár miklar umferðaræðar. Ef við lítum til höfuðstaðar Norðurlands, þá reyndist umferðin frá Akureyri austur um á s.l. sumri, þegar mest var, um 1.000 bílar á dag.

Það er því augljóst mál, að akbrautin milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar þarf sérstakra aðgerða við, bæði vegna öryggis vegfarenda og einnig vegna vaxandi athafnasvæða, er leið þessi liggur til. Á s.l. þingi bárum við Matthías Á. Mathiesen, Sigurður Ingimundarson og ég fram þáltill. um þetta mál og var svo hljóðandi þáltill. samþ. 30. apríl s.l. um umferðarmál í Kópavogi og Garðahreppi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta svo flótt sem auðið er, hefjast handa um undirbúning að staðsetningu og lagningu tvöfaldrar akbrautar frá Reykjavík um Kópavog og Garðahrepp til Hafnarfjarðar og lagningu nýs vegar ofan við núverandi byggð í Kópavogi og Garðahreppi í því skyni að beina umferðinni sem mest fram hjá þéttbýlinu.“

Þáltill. þessi skýrir sig sjálf. En brýn nauðsyn er á að hefjast handa svo fljótt sem verða má um lagningu tvöfaldrar akbrautar frá Reykjavík um Kópavog og Garðahrepp til Hafnarfjarðar og beina umferðinni frá þéttbýlinu, því að allt bendir til þess, að umferð á leið þessari sé engan veginn komin í hámark, heldur bendir margt til, að umferð á nefndri leið muni aukast verulega á næstu árum, m.a. þegar Reykjanesbrautin verður fullgerð, sem væntanlega verður á næsta ári, 1965 er færir hina ört vaxandi athafnabæi og byggðarlög á Suðurnesjum nær höfuðborginni og vegna þess hlutverks, sem Keflavíkurflugvöllur mun gegna í vaxandi mæli í millilandaflugi landsmanna.

Með tilvísun til þess, sem ég nú hef sagt, er fsp. á þskj. 36 borin fram við hæstv. samgmrh. Fsp. er svo hljóðandi með leyfi hæstv. forseta:

„1. Hvað líður undirbúningi að lagningu nýrra akbrauta frá Reykjavík um Kópavog og Garðahrepp til Hafnarfjarðar?

2. Er að vænta frekari bráðabirgðaráðstafana af hálfu vegamálastjórnarinnar til þess að bæta úr því umferðaröngþveiti, sem nú ríkir á leiðinni milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar?“