18.11.1964
Sameinað þing: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í D-deild Alþingistíðinda. (3183)

214. mál, héraðslæknar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Það er ljóst, eins og fram kom hjá hv. 1. þm. Vesturl., að læknisþjónustan í dreifbýlinu hefur verið mikið vandamál og vaxandi vandamál að undanförnu, sem m.a. kemur fram í því, að svo og svo mörg læknishéruð eru læknislaus og hefur ekki reynzt kleift að fá lækna skipaða í þessi héruð.

Þetta mál hefur verið til meðferðar í dómsmrn. og milli landlæknis og mín, en með bréfi, dags. 22. maí s.l., skipaði ég 8 manna n., sem var falið það verkefni að framkvæma endurskoðun á læknaskipunarlögunum, nr. 18 9. apríl 1955 og læknisþjónustu dreifbýlisins almennt í því skyni að finna lausn á þessu aðkallandi vandamáli, sem stafar af skorti á læknum til héraðslæknisstarfa, einkum í hinum fámennari og afskekktari héruðum landsins.

Í n. voru Sigurður Sigurðsson landlæknir, formaður n., Benedikt Tómasson skólayfirlæknir, varamaður formannsins, Óskar Þórðarson yfirlæknir, formaður Læknafélags Íslands, Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri í félmrn., Jón Thors fulltrúi í dóms- og kirkjumrn., fulltrúi frá Háskóla Íslands, en meðan hann var ekki tilnefndur fyrst í stað af læknadeild, fól ég prófessor Sigurði Samúelssyni að taka þátt í störfum n., og hinn 7. júlí tilnefndi læknadeild Háskóla Íslands prófessor Kristin Stefánsson til að taka sæti í n., og var hann 13. s. m. skipaður til þess og prófessor Sigurður Samúelsson jafnframt varamaður hans.

Þessi n. var skipuð með það fyrir augum, að í hana, fengjust þeir menn, sem kynnu gleggst skil á þessu máli og líklegastir væru til að leggja fram till. til úrbóta í þessu mikla vandamáli. Ég átti viðræður við þessa nefndarmenn og lagði mikla áherzlu á, að þeir flýttu, eftir því sem verða mætti, störfum n., og einnig það, að þeir könnuðu til hlítar ráð, sem ætla mætti að dygðu í þessu máli.

Nú hefur þessi nefnd skilað áliti og hún mun hafa leitazt við að afla sér ýtarlegra upplýsinga um ástæðurnar fyrir læknaskortinum í dreifbýli landsins. Hún hefur í því sambandi leitað álits allmargra héraðslækna og fengið skriflegar umsagnir þeirra. Hún hefur einnig leitað upplýsinga Björns Pálssonar flugmanns um skipulagningu á flugþjónustu til læknisvitjana og sjúkraflutninga. Hún hefur samið frv. til nýrra læknaskipunarlaga, sem hún 7. þ. m. skilaði til mín og þessum till. hennar fylgir að sjálfsögðu ýtarleg og rökstudd grg. í þessu máli.

Nánari athugun á þessu frv. er um það bil að komast á lokastig í dómsmrn. og innan ríkisstj. Ég geri ráð fyrir að geta mjög bráðlega lagt fyrir þingið frv. til nýrra læknaskipunarlaga, þar sem stefnt er að því að reyna að ráða bót á þeim mikla vanda, sem hér er við að glíma. Með hliðsjón af þessu vildi ég mega ætla, að hv. fyrirspyrjandi telji ekki ástæðu til á þessu stigi málsins að fjölyrða frekar um málið, en það beri þá heldur að með þeim hættl, þegar frv. mjög innan tíðar yrði lagt fram, að venjulegar umr. hæfust þá um málið í deildum.