18.11.1964
Sameinað þing: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í D-deild Alþingistíðinda. (3186)

214. mál, héraðslæknar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er verið að ræða, er það umfangsmikið, að ég tel, að það sé hentara að lengja ekki mjög umræðurnar á þessu stigi, eins og ég vék að áðan. En ég vil aðeins að gefnu tilefni taka það fram, að ég mun fyrir mitt leyti leggja mikla áherzlu á, að frv. um nýja læknaskipun geti fengið skjótan framgang hér í þinginu og það þurfi ekki að dragast nema mjög stuttan tíma, að það verði hægt að leggja málið fyrir Alþingi. Ég veit að vísu, að þetta er það umfangsmikið mál, að það er til nokkuð mikils ætlazt af þingmönnum að afgreiða það skjótlega. En á það ber hins vegar vegna þess, hve málið er aðkallandi, að leggja mikla áherzlu.

Í sambandi við það, sem hv. 3. þm. Vestf. vék að, þá tel ég, að það sé alveg eðlilegt, að það mál sé athugað í sambandi við hugsanlegar greiðslur úr ríkissjóði vegna kostnaðar af sjúkraflutningum, á meðan svo stendur á sem nú er og beinlínis stafar af læknisleysinu. Ég hef einnig haft til athugunar endurskoðun á l. um læknisvitjanasjóði og reynt að koma þeim málum inn í nýjan farveg í samráði við sjúkrasamlögin og Tryggingastofnun, og vona ég, að það geti einnig, þegar þar að kemur, bætt nokkuð úr þeim vanda, sem hér er um að ræða og snertir nokkuð svipað mál og hér er vikið að.