02.12.1964
Sameinað þing: 16. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í D-deild Alþingistíðinda. (3191)

208. mál, bifreiðaferja á Hvalfjörð

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Hvalfjörður er einn versti farartálmi í samgöngukerfi Íslendinga og verður því erfiðari sem þjóðin byggir meira á bifreiðaflutningum, bæði á vörum og farþegum. Segja má, að Hvalfjörður taki klukkustundar skatt af öllum þeim, sem þurfa að ferðast annars vegar á milli Vesturlands, Vestfjarða, Norðurlands eða Austurlands og hins vegar Reykjavíkur, Suðvesturlands og Suðurlands. Hefur því mikið verið um það hugsað, hvernig hægt væri að komast hjá því erfiða ferðalagi, sem akstur fyrir Hvalfjörð ávallt hefur verið og er í raun og veru enn, þrátt fyrir miklar vegarbætur. Ýmsar hugmyndir hafa verið uppi um þetta. Í fyrsta lagi sú að stórbæta veginn fyrir Hvalfjörð og stytta aksturinn þannig, sem mundi verða mjög dýrt. Í öðru lagi að gera brú yfir fjörðinn. Í þriðja lagi að gera göng undir fjörðinn. Og í fjórða lagi að setja bifreiðaferju á Hvalfjörð.

Fyrir allmörgum árum var allmikið um bifreiðaferju hugsað, unnin undirbúningsvinna og keypt tvö skip, sem átti að nota í þeim tilgangi, en þó fór það mál út um þúfur. Fyrir tæplega 2 árum var málið tekið upp aftur hér í þinginu í formi þáltill., sem var þess efnis, að ríkisstj. væri falið að láta gera áætlun um bifreiðaferju á Hvalfjörð og leggja hana fyrir Alþingi.

Nú virðist vera vaxandi áhugi á þessu máli, víðar, en hér á þingi, eins og sjá má af því, að nýlega hefur verið um það skrifað opinberlega af mönnum, sem hafa kynnt sér slík mál erlendis og telja, að þetta sé tiltölulega greitt fyrirtæki, sem ætti að standa vel undir stofnfé og koma að miklu gagni. Er þar fullyrt, að verkefnið sé mjög vinnanlegt, að ferjan mundi kosta um 10 millj. og fáist smíðuð í Noregi með lánum á 80% af kostnaðarverði til 10 ára. Er talið, að ein ferja, sem nota þyrfti á Hvalfirði, muni ekki kosta ýkjamiklu meira en nýjustu mótorbátar, sem til landsins eru keyptir.

Umferðartalning sýnir, að ört vaxandi umferð er um Hvalfjörð, og fór hún á s.l. sumri upp í rúmlega 600 bíla á dag.

Tíminn, sem mundi sparast við ferju, er um klukkustund. Byggðir eins og Akranes og Borgarnes mundu í einni svipan færast nær Reykjavík og má ganga út frá því vísu, að samgöngubótin ein muni stórauka umferðina og allt það gagn, sem er af slíkri umferð.

Fsp. er á þá leið, að óskað er upplýsinga um, hvað líði gerð áætlana um bifreiðaferju þessa, sem þingið fól ríkisstj. að láta gera með þál. 19. apríl 1983.