02.12.1964
Sameinað þing: 16. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í D-deild Alþingistíðinda. (3194)

208. mál, bifreiðaferja á Hvalfjörð

Forsrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Hér er vissulega um mjög athyglisvert mál að ræða og má raunar segja, að furðulegt sé, að ekki hafi orðið úr framkvæmdum, eins langt og er síðan fyrst var farið að tala um það. Ég skal sízt draga úr því, að málið sé kannað til hlítar, en mér heyrðist hv. fyrirspyrjandi gera ráð fyrir einu atriði, sem mér virðist vera óvíst með öllu. Hann sagði, að það mundi a.m.k. spara klukkutíma fyrir hvern bíl að fara þetta á ferju.

Ég hjó ekki í það hjá hæstv. samgmrh., hvort nokkuð var að þessu atriði vikið í upplýsingum vegamálastjóra. Ég tók ekki eftir því. En spurningin er, hvað tekur langan tíma að fara yfir fjörðinn á ferju með nauðsynlegri bið á undan, komast af stað, fara yfir fjörðinn og þeir vafningar, sem eru við það að komast í land aftur, þangað til hægt er að leggja af stað. Ég hygg, að einmitt þetta atriði, að menn efuðust um, hversu tímasparnaðurinn yrði mikill, hafi átt verulegan þátt í því, að á fyrri stigum málsins hafi ekki orðið úr framkvæmdum. Það má vera, að þetta standi öfugt í mínu höfði, en þó er mér nær að ætla, að ég hafi heyrt þá röksemd.

Það er auðvitað ljóst, að sparnaðurinn fer nokkuð eftir því, hvað utarlega ferjan verður látin fara yfir fjörðinn, hvort hægt er að láta hana fara, eins og dr. Benjamín Eiríksson talaði um, rétt fyrir innan Saurbæ á Kjalarnesi og rétt fyrir innan Innri-Hólm eða hvort þarf að fara alla leið inn undir Kalastaðakot eða Katanes og Eyri annars vegar. Þetta eru auðvitað mjög mikilsverð atriði, en það má ekki gera ráð fyrir því, að allur aksturstíminn sparist, eða segja, að aksturstíminn sparist. Það kemur í staðinn töluverður tími, sem fer í að fara yfir fjörðinn, þótt á ferju sé. Þetta liggur auðvitað í augum uppi og er óþarft að taka fram. En það er ekki hægt að gera neinar áætlanir um málið, svo að vit sé í, nema þetta sé haft í huga. Og það er jafnnauðsynlegt að gera sér grein fyrir þessu strax í upphafi, eins og þeim tölulegu upplýsingum, sem þegar lágu fyrir, af því að það er alveg rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði, að venjulega er ekki verið að spyrja um það, hvort einhver brú borgar sig eða einhver vegaspotti borgar sig, heldur hvaða samgöngubætur verða af málinu. Og það stendur í mínum huga svo, að á fyrri stigum málsins hafi menn talið, að eins og þá stóð á og með þeim tækjum, sem þá var um að ræða til flutnings yfir fjörðinn, þá yrði samgöngubótin tiltölulega lítil, tímasparnaðurinn yrði ekki líkt því eins mikill og hv. fyrirspyrjandi gerði ráð fyrir. Aðrir vita betur um þetta en ég, en ég taldi rétt að vekja athygli á þessu hér.