02.12.1964
Sameinað þing: 16. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í D-deild Alþingistíðinda. (3201)

215. mál, Aflatryggingasjóður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þær upplýsingar, sem hér hafa nú verið gefnar um aflatryggingasjóð, leiða alveg glögglega í ljós, að það hefur farið þannig, eins og ég og nokkrir fleiri bentu á, þegar lögum um aflatryggingasjóð eða hlutatryggingasjóð var síðast breytt, að með þeirri breytingu var stefnt inn á þá braut að láta bátaútgerðina í landinu standa að mjög verulegu leyti undir rekstrarhalla togaraflotans. Nú er málunum þannig komið, að bátaútgerðin í landinu er stórkostlega skattlögð á hverju ári með útflutningsgjöldum, sem renna í sérstaka svonefnda jöfnunardeild í aflatryggingasjóði, en fé þessarar jöfnunardeildar hlýtur og verður, eins og málum er háttað, að renna svo að segja að öllu leyti til stuðnings togaraútgerðinni. Reynslan er sú, að togararnir, eða sú útgerð, greiðir tiltölulega lítið af heildargreiðslunum í sjóðina, en fær hins vegar yfirgnæfandi meiri hluta af greiðslunum úr sjóðnum. Ég tel, að með þessu hafi verið farið inn á mjög varhugaverða braut og óeðlilega, að ætla að skattleggja bátaútgerðina í landinu á þennan hátt til þess að leysa vandamál togaraútgerðarinnar.

Það er orðið mjög aðkallandi mál, að það verði sett niður sérstök rannsóknarnefnd til þess að athuga um rekstrarvandamál togaraflotans. Ég flutti um það mál till. fyrir nokkru. Hæstv. ríkisstj. gat þá ekki fallizt á það, en ég held, að reynslan síðan hafi sýnt, að það er orðið aðkallandi mál, að það verði sett nefnd af hálfu Alþingis til að athuga um vandamál togaraflotans.

En þessi leið, sem nú er farin, nær engri átt. Og það sem verra er, það er ekki aðeins viðvíkjandi aflatryggingasjóði, heldur á þetta sama sér stað einnig í sambandi við vátryggingakerfið. Það vátryggingakerfi fiskiskipaflotans, sem nú er í gildi, byggist í rauninni alveg á því sama. Það er verið að skattleggja bátaflotann í landinu alveg stórkostlega til þess að færa yfir fé til togaraútgerðarinnar.

Hér er auðvitað engin aðstaða til þess í þessum fyrirspurnatíma að ræða þetta alvarlega mál, en ég vil vænta þess, að þessar upplýsingar, sem hér hafa verið gefnar, verði til þess, að hæstv. ríkisstj. fallist á, að það er orðin óhjákvæmileg nauðsyn að taka þessi mál fyrir og létta þessum útgjöldum, sem nú hvíla á bátaútgerðinni í landinu, af þeirri útgerð, en takast hins vegar á við vandamál togaraflotans á raunhæfari hátt, því að það er alveg augljóst mál, að áfram getur ekki orðið haldið á þessari braut, sem farin hefur verið.

Viðvíkjandi þeim uppástungum, sem fram hafa komið, að leysa öll vandamál togaraflotans nú með því að hleypa togurunum inn í landhelgina, þá álít ég, að það sé mikill misskilningur. Það þarf allt annað og meira að koma til heldur en það, þó að ekkert sé við því að segja, að það mál sé athugað ofan í kjölinn, hvað hægt er að gera í þeim efnum fyrir okkar útgerð almennt. En það er enginn vafi á því, að við leysum ekki vandamál togaranna á þann hátt. Til þess að leysa þau þurfa að koma önnur ráð.