02.12.1964
Sameinað þing: 16. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í D-deild Alþingistíðinda. (3205)

215. mál, Aflatryggingasjóður

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil vegna þeirra umræðna, sem nú hafa farið fram, leyfa mér að minna á það, að snemma á þessu þingi, sem nú situr, fluttum við 6 þm. úr Framsóknarfl. á þskj. 38 till. til þál. um endurskoðun l. um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, Þessi till. hefur nú nýlega verið til umr. á þingfundi. Till. er þess efnis, að Alþingi kjósi 7 manna milliþinganefnd til þess að endurskoða lögin um aflatryggingasjóð og gera breytingar á þeim, eftir því sem henni þykir ástæða til. Það er gert ráð fyrir, að n. hafi í starfi sínu samráð við Fiskifélag Íslands, Alþýðusamband Íslands, Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Landssamband ísl. útvegsmanna og Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda, enn fremur, að hún geri sér sérstaklega far um að kynna sér skoðanir útvegsmanna og sjómanna í einstökum landshlutum varðandi málið og reynslu þeirra af starfsemi hlutatryggingasjóðs og aflatryggingasjóðs.

Ég ætla, að þær umræður, sem nú hafa farið fram og þær upplýsingar, sem gefnar hafa verið, renni stoðum undir þá skoðun okkar flutningsmannanna, að þörf sé á að samþ. till. á þskj. 38, að endurskoðunar á þessum lögum sé þörf og raunar ekki aðeins vegna togaramálsins, sem sérstaklega hefur verið minnzt á hér, heldur einnig af öðrum ástæðum. Ég ætla ekki að fara nánar út í það mál, hverjar þær aðrar ástæður eru eða hver þau önnur atriði l. eru, sem okkur þykir ástæða til að láta endurskoða, enda þetta mál ekki til umr. nú. Ég vildi aðeins vegna þessara umr. leyfa mér að minna á þessa till., að hún liggur fyrir þinginu og að ástæður til þess að samþ. hana eru nú stöðugt að verða skýrari.