03.02.1965
Sameinað þing: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í D-deild Alþingistíðinda. (3228)

62. mál, kjarnorkufloti Atlantshafsbandalagsins

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Þeð er alkunna, að undanfarin tvö ár hefur ríkisstj. Bandaríkjanna stefnt að því að búa Atlantshafsbandalagið kjarnorkuvopnum. Hin opinberu áform hafa lengstum miðað að því, að NATO-löndin eignist í sameiningu kjarnorkuflota 25 skipa, er sigli um heimsins höf í gervi kaupskipa og sé hvert þeirra búið átta flugskeytum með kjarnahleðslu. Það er megintilgangur þessara áforma, að NATO-löndin fái íhlutunarrétt um notkun kjarnorkuvopna, enda er ráð fyrir því gert, að þessi 25 skip verði mönnuð sjóliðum frá mörgum löndum og kjarnorkuflotinn verði undir sameiginlegri yfirstjórn. Sérstaklega er þessari hugmynd ætlað að fullnægja óskum Vestur-Þjóðverja.

Vestur-Þýzk stjórnarvöld hafa lengi verið gráðug í kjarnorkuvopn og með þessum hætti yrði Þjóðverjum leyft að bregða fingri á kjarnorkugikkinn. Það er að vísu gert ráð fyrir, að Bandaríkin hafi neitunarvald, þegar ákveða skal, hvort hleypa skuli af, en Vestur-þýzkir stjórnmálamenn líta svo á, eins og reyndar mjög margir aðrir, að með þessu sé aðeins stigið fyrsta skrefið að því marki, að Þjóðverjar fái full yfirráð yfir kjarnorkuvopnum.

Kjarnorkufloti NATO hefur verið mjög á dagskrá í Evrópu og Ameríku seinustu mánuðina. Þessi áform hafa fyrir löngu komið til umræðu á þjóðþingum allra NATO-landanna, að Alþingi Íslendinga einu undanskildu. Og viðkomandi ríkisstj. hafa talið sér skylt að gera opinberlega grein fyrir viðhorfi sínu til málsins, án þess að sérstaklega væri eftir því spurt.

fsp., sem ég vil hér gera grein fyrir, var lögð fram í þinginu fyrir tæpum 3 mánuðum eða 10. nóv. s.l. Þá var að flestra dómi útlit fyrir, að endanleg ákvörðun um málið yrði tekin á ráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins, sem halda átti og haldinn var í desember. Nokkrum vikum síðar breyttust viðhorfin, er afráðið var að fresta um sinn öllum endanlegum ákvörðunum um málið.

Enginn mun þó halda því fram, að hugmyndin um kjarnorkuflota NATO hafi verið lögð á hilluna. Þvert á móti mun óhætt að fullyrða, að undirbúningur málsins er í fullum gangi og unnið er að því af kappi að samræma sjónarmið valdhafanna í London, New York og Bonn. Meira að segja bendir flest til þess, að á næsta ráðherrafundi NATO verði málið komið á úrslitastig. Íslenzka ríkisstj. hlýtur að hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir afstöðu sinni til þessara áforma eða annarra hugmynda, er fela í sér, að valdi yfir kjarnorkuvopnum sé dreift meðal NATO-þjóða, er ekki hafa kjarnorkuvopn í dag. Það er því fyllilega tímabært að spyrja, hver sé skoðun ríkisstj. á þessum áformum og hver verði afstaða hennar í verki, þegar á reynir?

Þegar rætt er um afstöðu NATO-ríkjanna til kjarnorkuflotans, eru það fyrst og fremst þrjár spurningar, sem hljóta að vakna:

Í fyrsta lagi: Hvaða álit hefur viðkomandi ríkisstj. á þessum áformum eða öðrum svipuðum? Er það líklegt til að auka friðarhorfur í heiminum að veita Vestur-Þjóðverjum íhlutunarrétt um beitingu kjarnorkuvopna? Hefur stofnun þessa flota jákvætt eða neikvætt gildi fyrir friðinn í heiminum? Og fyrsta spurningin, sem ég hef lagt hér fram, er því svo hljóðandi: Hver er afstaða ríkisstj. til fyrirhugaðs kjarnorkuflota Atlantshafsbandalagsins?

Í öðru lagi er það ljóst, að ríkisstjórnir NATO-þjóðanna geta ekki látið sér nægja að hafa skoðun á þessu máli. Þær verða einnig að taka afstöðu í verki. Þær hafa allar atkvæðisrétt í stofnunum Atlantshafsbandalagsins og hljóta að beita atkv. sínum í samræmi við skoðanir sínar. Þó væri hugsanlegt að vísu, að sumar ríkisstj. væru svo ósjálfstæðar á alþjóðavettvangi, að þær kysu að greiða ekki atkv. Með hliðsjón af þessum möguleika hefur mér fundizt óhjákvæmilegt að spyrja: Hvernig hyggst ríkisstj. beita atkv. Íslands á ráðherrafundi NATO, ef áformin um kjarnorkuflota Atlantshafsbandalagsins verða borin þar undir atkv.?

Í þriðja lagi verða flestar ríkisstj. að svara þeirri spurningu, hvort þær hyggjast taka þátt í stofnun kjarnorkuflotans til að öðlast þau réttindi og það vald yfir kjarnorkuvopnum, sem því fylgir. Að sjálfsögðu hef ég ekki lagt fram fsp. um þetta atriði, þar sem Íslendingar hafa þá sérstöðu að vera vopnlaus þjóð. Hinu er ekki að leyna, að í þessu sambandi hlýtur þriðja spurningin að vakna, ekki sízt eftir þá atburði, sem gerzt hafa hér á landi, eftir að fsp. mín var lögð skriflega fram.

Með hinum ólögmætu samningum ríkisstj. við Bandaríkin um nýjar hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði er ekki aðeins verið að gera olíuskipum kleift að athafna sig í firðinum, heldur fyrst og fremst herskipum. Af því leiðir ekki, að Hvalfjörður sé þegar orðinn herskipahöfn, enda hefur enginn haldið því fram. En skilyrðin eru þar með sköpuð til þess, að unnt sé að breyta Hvalfirði í herskipalægi á einni nóttu. Af þessum sökum er ekki óeðlilegt að spyrja, hvort hugsanlegt sé, að kjarnorkuflotanum yrði veitt aðstaða við strendur landsins. Eða vill hæstv. ríkisstj. gefa um það yfirlýsingu, að staðsetning og meðferð kjarnorkuvopna verði ekki aðeins bönnuð um alla framtíð á íslenzku landi, heldur og í landhelgi Íslands?