03.02.1965
Sameinað þing: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í D-deild Alþingistíðinda. (3229)

62. mál, kjarnorkufloti Atlantshafsbandalagsins

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Spurt er, hver sé afstaða ríkisstj. til fyrirhugaðs kjarnorkuflota Atlantshafsbandalagsins. Á fundi í NATO-ráðinu í árslok 1960 skýrðu Bandaríkjamenn frá hugmyndum sínum um fyrirhugaðan kjarnorkuflota Atlantshafsbandalagsríkja. Á fundinum urðu mjög litlar umr. um málið og engar framhaldsumr. fóru fram um hugmyndirnar sjálfar innan NATO. Nokkur aðildarríki ræddu hins vegar þessar hugmyndir sín á milli, en önnur tóku engan þátt í þeim viðræðum. Atlantshafsbandalagið var látið vita um þessar viðræður, en það hafði engin afskipti af þeim.

Við Íslendingar höfum ávallt verið vopnlaus þjóð og við höfum engin áform um eigin vopnabúnað og var það því afstaða okkar til málsins að taka ekki þátt í viðræðum þessara einstöku ríkja um hugmyndir Bandaríkjastjórnar. Á ráðherrafundi NATO í s.l. desembermánuði skýrðu fulltrúar þeirra ríkja, sem tekið höfðu þátt í viðræðum um málið, frá gangi þeirra. Viðræðurnar hafa ekki leitt til neins samkomulags og er ekki vitað til þess, að nokkur drög að samkomulagi séu fyrir hendi.

Þá er spurt, hvernig ríkisstj. hyggist beita atkv. Íslands á ráðherrafundi NATO, ef áform um kjarnorkuflota Atlantshafsbandalagsins verður borið þar undir atkv? Ekkert liggur fyrir í NATO um þetta mál, sem greiða þarf atkvæði um og líkur fyrir, að svo verði á næstunni, eru vægast sagt mjög litlar. Komi hins vegar til einhvers samkomulags milli einstakra aðildarríkja NATO, er með öllu óvitað, í fyrsta lagi, hvernig slíkt samkomulag verður, í öðru lagi, hvort aðilar samkomulagsins óska að tengja það NATO og í þriðja lagi, með hverjum hætti þeir óska að tengja það Atlantshafsbandalaginu. Hér ber því allt að sama brunni, engin till. liggur fyrir, ekki líkur á henni að svo stöddu og ef hún kemur, alger óvissa um, hvernig hún verður. Ekkert verður því um það sagt, hvernig Ísland mundi greiða atkv., ef til þess kæmi, á meðan málið liggur ekki skýrar fyrir, en þetta.