03.02.1965
Sameinað þing: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í D-deild Alþingistíðinda. (3230)

62. mál, kjarnorkufloti Atlantshafsbandalagsins

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Hv. þm. virðast ekki þurfa að óttast, að hæstv. ráðh. þreyti þá með málæði. Svar hans var eins stutt og unnt var að hugsa sér, enda má með sanni segja, að fæst orð hafi minnsta ábyrgð.

Ég held, að fullyrða megi, að till. Bandaríkjamanna hafi legið nokkuð ljóslega fyrir. Þetta hefur haft það í för með sér, að þegar umr. urðu um utanríkismál bæði í Noregi og Danmörku, á þjóðþingum þar í landi, hafa orðið umr. um þetta mál, ég hef fulla vitneskju um, að umræður ráðandi manna í þeim löndum voru töluvert ákveðnari, en kom fram hjá hæstv. ráðh. Það er skemmst frá að segja, að í norska þinginu lýstu bæði forsrh. og utanrrh. yfir andstöðu sinni við þessi áform og afstaða þeirra byggðist fyrst og fremst á þeirri skoðun, að hér væri um að ræða dreifingu kjarnorkuvopna. Ég vil ekki eyða tíma mínum til að rekja umr. í danska þinginu, en þar kom einnig fram, sérstaklega frá formanni Róttæka flokksins, mjög eindregin andstaða við kjarnorkuflotann. Danski utanrrh. lýsti því yfir, að afstaða Dana til kjarnorkuflotans væri ótvírætt neikvæð. Ég spurði hér, hvaða álit íslenzka ríkisstj. hefði á þessu máli, hvort hún teldi, að þessi áform mundu auka friðarhorfur í heiminum. Svör fengust ekki við þessari spurningu og má kannske til sanns vegar færa, að þeir, sem sjaldan eða aldrei hafa sjálfstæðar skoðanir á utanríkismálum, hafi þær ekki fremur í dag. Enda mun sannast mála, að það er vissara fyrir hæstv. ríkisstj. að móðga ekki þá, sem hafa tekið að sér að hugsa fyrir Íslendinga og hafa skoðanir á alþjóðamálum fyrir Íslendinga.

Í öðru lagi spurði ég, hver væri afstaðan í verki. Ég skil það ósköp vel, að sú afstaða komi mjög ógreinilega fram, þar sem engin skoðun er á málinu. Hitt ætti að vera ljóst, að hér er um stórmál að ræða. Þátttaka okkar í NATO er hugsuð til að vernda okkur sjálfa, að því er manni skilst og til að vernda friðinn í heiminum. Ef ríkisstj. telur, að þessi kjarnorkufloti sé vel til þess fallinn að vernda friðinn, mundi hún væntanlega segja já. En ef hún teldi, eins og margir aðrir, að líkur væru á, að þessi floti yki á stríðshættuna, hlyti hún að svara nei. En sá, sem er afstöðulaus, sá sem ekki þorir að taka neina afatöðu af ótta við að móðga, segir auðvit.ð ekki eitt eða neitt.

Mér þykir leitt, að ég skyldi ekki fá nein svör við hinni þriðju og seinustu spurningu, en ég skal að vísu viðurkenna, að hún var ekki lögð fram skriflega. Hún fjallaði um langmikilvægasta atriðið hvað okkur Íslendinga sjálfa snertir, sem sagt um það, hvort ekki sé hugsanlegt, að náin tengsl séu milli tveggja mála, annars vegar hinna nýju framkvæmda Bandaríkjamanna í Hvalfirði og hins vegar hins fyrirhugaða kjarnorkuflota. Meðan ríkisstj. og hæstv. utanrrh. vill ekki lýsa því yfir, að staðsetning kjarnorkuflota verði bönnuð um alla framtíð á landi og í landhelgi Íslendinga, er ekki óeðlilegt, að sá grunur leynist með þjóðinni, að um ótvíræð tengsl sé að ræða.