03.02.1965
Sameinað þing: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í D-deild Alþingistíðinda. (3231)

62. mál, kjarnorkufloti Atlantshafsbandalagsins

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson) :

Herra forseti. Án þess að ég sjái ástæðu til þess að rekja hér á nokkurn hátt það, sem fram hefur komið um þetta mál á þjóðþingum Dana og Norðmanna, vil ég aðeins taka það fram, að þau orð, sem hv. þm. viðhafði um umr. um málið á þessum þingum, gefa alls ekki rétta mynd af því, sem þar fór fram. Ég vil aðeins mótmæla þessu almennt.

Á hinu vil ég vekja athygli, að við Íslendingar einir NATO–þjóða höfum þá sérstöðu, að við höfum engan her. Við erum vopnlaus þjóð og við höfum engin áform um að stofna okkar eigin her. Þess vegna tökum við ekki þátt í viðræðum um myndun hvorki kjarnorkuherja né annarra herja. Við höfum þess vegna verið algerlega utan þessara umr. og engin afskipti haft af þeim og höfum ekki nein áform um að taka þátt í samningaviðræðum um þetta mál.

Um afstöðu til till., sem fram kynni að koma innan Atlantshafabandalagsins, verður ekkert sagt, meðan ekki er vitað, hvort sú till. kemu, og þaðan af síður, hvernig hún verður. Og enn síður get ég gefið hér nokkra yfirlýsingu um, hvaða afstöðu Íslendingar muni um alla framtíð hafa til kjarnorkuvopna, því að ef ég færi að lýsa hér einhverju yfir um, að Íslendingar mundu banna eitt eða annað í þessu sambandi. þá væri sú yfirlýsing næsta lítils virði, vegna þess að hún væri ekki bindandi fyrir ríkisstj., sem kynnu að koma hér á eftir, auk þess sem aðstaða kynni að breytast þannig í framtíðinni, að það, sem er góð og gild vara í dag, það er ekki víst, að það verði það eftir nokkurn tíma. Af þessum ástæðum vil ég engar yfirlýsingar gefa í sambandi við framtíðarafstöðu til þessa máls.