03.02.1965
Sameinað þing: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í D-deild Alþingistíðinda. (3235)

93. mál, Tunnuverksmiðjur ríkisins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Spurningarnar, sem hér er óskað svars við, eru á þessa leið: „Hvað er fyrirhugað um tunnusmíði í Tunnuverksmiðjum ríkisina nú í vetur: a) í Akureyrarverksmiðjunni, b) í Siglufjarðarverksmiðjunni?“ Og í öðru lagi: „Hvað líður undirbúningi að byggingu tunnugeymslu fyrir Akureyrarverksmiðjuna?“ Þessar spurningar voru á sínum tíma sendar stjórn tunnuverksmiðjanna og óskað eftir, að hún léti uppi álit sitt á þeim og svaraði þeim, en eins og kunnugt er, þá er stjórn tunnuverksmiðjanna í höndum síldarútvegsnefndar. Frá þessari stjórn tunnuverksmiðjanna fékk ég svo ýtarlega greinargerð um málið 12. des. 1964, en hún var ekki flutt hér í þinginu, vegna þess að málið var ekki tekið á dagskrá vegna anna við fjárlagaafgreiðslu og ýmislegt annað, en hún lá þá fyrir og hefði getað verið flutt, ef hún hefði verið tekin á dagskrána. En síðan hef ég fengið viðbótarupplýsingar frá síldarútvegsnefnd eða stjórn tunnuverksmiðjanna, sem dagsett er 29. s.l. mánaðar, og ég held, af því að málið hefur lítið verið á dagskrá hér í hv. Alþingi að það sé rétt, að ég lesi upp meginhlutann í báðum þessum greinargerðum stjórnar tunnuverkamiðjanna og það skal ég leyfa mér að gera, með leyfi hæstv. forseta. Fyrri grg., frá 12. des., er í meginatriðum á þessa leið:

„Rétt þykir að hafa nokkurn formála, áður en fsp. er svarað. Tunnuefnið, stafurinn, þarf að vera úr sérstöku timbri. Trén, sem notuð eru í tunnuefnið, mega ekki vaxa of fljótt, heldur má ekki fleyta efninu, heldur verður að aka því til vinnslu og til þurrkunar. Aðallega er um tvenns konar efni að ræða: furu frá Noregi og greni frá Finnlandi og Svíþjóð. Grenið er yfirleitt dýrara og hefur því meginhluti stafsins hin síðari ár verið keyptur frá Noregi og á það að vera sams konar efni og Norðmenn nota til tunnuframleiðslu sinnar, en eins og kunnugt er, hafa tunnur til síldarsöltunar verið svo til eingöngu fluttar inn frá Noregi. Reynt hefur verið að fá tunnuefni frá Tékkóslóvakíu og Sovétríkjunum, en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur það ekki heppnazt. Efni til tunnustafs þarf að höggva á þeim tíma vetrarins, sem trén liggja í dái, sem kallað er, en af þessu leiðir, að efnið verður alltaf að kaupa ári fyrr, en úr því á að framleiða. T.d. var efni, sem framleitt var úr nú í vetur, keypt í fyrrahaust og um áramótin, áður en Tunnuverksmiðjan á Siglufirði brann.“

Um Akureyrarverksmiðjuna tekur stjórnin þetta fram:

„Stjórn Tunnuverksmiðja ríkisins hefur á nokkrum fundum rætt um tunnusmíði á Akureyri, en enn þá hefur engin ákvörðun verið tekin. Til þess liggja tvenns konar ástæður. Sú fyrri er bruni Tunnuverksmiðjunnar á Siglufirði þann 9. jan. s.l. (1963) og sú síðari er síldarleysi fyrir Norðurlandi s.l. sumar og þar af leiðandi óvenjumiklar tunnubirgðir á Akureyri. Þegar tunnuverksmiðjan brann, var töluvert mikið efni ókomið til landsins, og var það flutt til Akureyrar. Horfið var að því ráði að flytja verkamenn tunnuverksmiðjunnar á Siglufirði til Akureyrar, til þess að bæta þeim að nokk það vinnutjón, sem þeir ella hefðu orðið fyrir vegna bruna verksmiðjunnar á Siglufirði, og enn fremur til þess að vinna úr því efni, sem var á leiðinni eða komið til Akureyrar, en annars hefði orðið að geyma til næsta árs og vafasamt, að góður geymslustaður væri fáanlegur. Framleiðslan á Akureyri var þess vegna mun meiri, en til hafði verið ætlazt og vegna síldarleysisins á Norðurlandi, sem alkunna er, liggja þar nú um 77 þús. tunnur, sem ekki komust í notkun. Rætt hafði verið um að flytja einhvern hluta þessara tunna til Suðurlands, en einnig þar hefur nú brugðizt síldarvertíð, hversu sem úr kann að rætast.

Tunnuframleiðslunni norðanlands hefur yfirleitt verið skipt þannig milli Akureyrar og Siglufjarðar, að unnið hefur verið úr allt að 1/3 efnisins á Akureyri og 2/3 á Siglufirði. Tunnuframleiðslan hefur yfirleitt verið frá 100–140 þús. tunnur árlega samtals. Þetta hefur verið gert með tilliti til þess, að ekki þyrfti að flytja tunnurnar langar leiðir og að tunnuframleiðslan á Akureyri væri notuð til síldarsöltunar við Eyjafjarðarhafnir, þ.e.a.s. á Ólafsfirði, Dalvík, Hrísey, Hjalteyri, Krossanesi og Húsavík. Tiltölulega lítill flutningskostnaður er til þessara staða, en flutningakostnaður frá Akureyri eða Siglufirði til Austurlandsins er oftast mikill og oft meiri en flutningur á tunnum frá Noregi til Austurlands.

Tunnur frá Noregi eða útlöndum hafa yfirleitt ekki verið fluttar til þessara hafna á Norðurlandi, að undanteknum tunnum undir þá síld, sem Svíar kaupa, en þeir hafa jafnan lagt til tunnur, salt, sykur o.s.frv. í þá síld, sem þeir kaup héðan.

Framleiðslukostnaður tunna á Akureyri hefur allajafna verið nokkru hærri, en á Siglufirði og hafa endurskoðendur ríkisreikninga, sem einnig endurskoða reikninga Tunnuverkamiðja ríkisins, oftlega fundið að þessu og jafnvel lagt til, að hætt yrði að framleiða tunnur á Akureyri. Vegna þessa aukakostnaðar, sem varð við vinnslu á Akureyri s.l. ár, hafa tunnur framleiddar þar sjálfsagt orðið nokkru dýrari en ella, en samkv. áætlun, sem gerð var s.l. vor af framkvæmdastjóra og verksmiðjustjóra tunnuverksmiðjanna, var verð tunnanna áætlað 214.25 kr. á lagerplássum á Akureyri. En á sama tíma er talið, að verð innfluttra tunna frá Noregi muni vera um 185 kr. cif. með tolli. Ef flytja þarf tunnurnar frá Akureyri, bætist að sjálfsögðu ofan á hið fyrrgreinda framleiðsluverð 214.25 kr., flutningsgjald, sem talið er að muni nema a.m.k. 20–25 kr. á tunnu.

Það er því eðlilegt, að nokkuð verði um það hugsað, hvort rétt sé vegna þeirra framleiðenda, sem tunnurnar eiga að nota, að framleiða tunnur umfram það, sem nú er fyrirliggjandi. Við þetta bætist, að húsrými til geymslu er ekki fyrir hendi á Akureyri nema að takmörkuðu leyti. Rétt er að geta þess, að tunnur framleiddar hér á landi hafa yfirleitt, að undanteknum 2 árum, verið dýrari, en innfluttar tunnur. Þessu hefur verið verðjafnað, þannig að allar tunnur hafa farið til saltenda á sama verði.

Eins og fyrr getur, hafði verið keypt tunnuefni til væntanlegrar framleiðslu á þessum vetri, áður en tunnuverksmiðjan á Siglufirði brann. Keyptir voru samtals 980 standarðar af timbri, 900 frá Noregi og 80 frá Finnlandi. Gerðar hafa verið ráðstafanir til, að hluti af þessu efni yrði fluttur heim um og eftir áramóti, og er gert ráð fyrir, að um 80 standarðar af tunnuefni frá Finnlandi komi um áramótin og 300–350 standarðar af tunnuefni frá Noregi um miðjan janúarmánuð. Enn þá hefur ekki verið ákveðið um frekari heimflutning á efni, en það hefur verið greitt eða tryggð greiðsla á því.

Síldarútvegsnefnd, sem einnig fer með stjórn Tunnuverksmiðja ríkisins, mun nú á næstunni taka ákvörðun um, hvernig tunnuframleiðslu verði hagað norðanlands í vetur, eftir því sem efni standa til.“

Um Siglufjarðarverksmiðjuna segir stjórn tunnuverksmiðjanna þetta:

„Eins og kunnugt er, brann Tunnuverksmiðjan á Siglufirði til kaldra kola 9. jan. s.l. (1964). Í Siglufirði var tunnuverksmiðjan starfrækt í stóru járngrindahúsi, og í því húsi var einnig allstór geymsla, nægjanleg fyrir tunnuefni og nokkuð af tunnum. Hins vegar vantaði þar verulegar geymslur fyrir smíðaðar tunnur, sem eru mjög rúmfrekar, en fyrir góðvild og aðstoð síldarverksmiðja ríkisins hafði tunnuverksmiðjan aðgang að hinu stóra geymsluhúsi verksmiðjanna, sem liggur handan við götuna og var það nægjanlegt til geymslu á þeim tunnum, sem framleiddar voru í verksmiðjunni og pláss þurfti fyrir umfram það, sem verksmiðjan sjálf hafði yfir að ráða. Nú hafa síldarverksmiðjur ríkisins þurft að nota þetta pláss meira síðustu árin, m.a. var komið þar fyrir vinnslustöð til að vinna mjöl úr soðkjarna og það er því augljóst, að þær mundu ekki geta látið í té það nauðsynlega pláss, sem þyrfti til geymslu tunna í Siglufirði. Þess vegna hafði verið í athugun um nokkurn tíma að byggja geymsluhús og var þá horfið að því ráði að byggja nýtt tunnuverksmiðjuhús úr steinsteypu, nokkru vandaðra en það, sem fyrir var og með betri vinnuskilyrðum, en jafnframt, að síldarútvegsnefnd keypti gamla verksmiðjuhúsið til nota fyrir tunnugeymslu, bæði undir framleiðslu tunnuverksmiðjanna og þeirra tunna, sem kynnu að verða fluttar inn. Þess vegna hafði verið undirbúin teikning og áætlun um byggingu tunnuverksmiðju á lóð, sem var til staðar. Kom það í góðar þarfir, er þessi mikli bruni varð, að áætlunin hafði verið gerð. Um fyrirhugaðan rekstur Siglufjarðarverksmiðjunnar vísast til greinargerðar verkfræðings þess, sem hefur yfirumsjón með byggingunni og er svo hljóðandi:

„Samkv. beiðni yðar hef ég tekið saman eftirfarandi yfirlit yfir byggingu tunnuverksmiðju á Siglufirði:

Byrjað var á grunni verksmiðjunnar í aprílmánuði s.l. og var grunnurinn tilbúinn um miðjan ágúst. Verk þetta var unnið á tímavinnugrundvelli og annaðist Gísli Þorsteinsson byggingameistari yfirstjórn verksins. Í byrjun ágúst var samið við byggingameistarana Þórarin Vilbergsson, Bjarka Árnason og Guðmund Þorláksson um áframhald byggingarinnar og skyldu þeir hafa lokið sínum hluta verksins fyrir 1. des. 1964, og stóðu þeir fyllilega við þau tímamörk. Um miðjan október var hafizt handa um að múrhúða bygginguna að innan, og var því lokið 1. des. 1964. Þegar múrhúðun hússins lauk, var byrjað að setja niður vélar og leggja nauðsynlegar lagnir fyrir rafmagn, hita, vatn og skolp og stendur það verk yfir nú. Ekki er hægt að segja fyrir með vissu, hvenær það verk verður það langt komið, að hægt verði að hefja starfrækslu verksmiðjunnar, en stefnt er að því, að það verði um miðjan janúarmánuð. Að vísu verður ekki hægt að reka verksmiðjuna fyllilega, eins og áformað er að gera í framtíðinni, t.d. verður brennsluofn fyrir spæni ekki tilbúinn og nota verður leiguhúsnæði til geymslu á efni og tunnum. Um miðjan október var byrjað á undirstöðum geymsluhússins og tókst að ljúka við undirstöðurnar að mestu leyti, en enn þá hefur ekki tekizt að fylla í grunninn, en fyllingarefni verður að sækja út í Siglufjörð. Áfallinn kostnaður við verksmiðjuhúsið er nú 4.9 millj, kr. og áætlaður kostnaður við það, sem ólokið er, 1.850 þús. kr., eða samtals 8 millj. 550 þús.

Um geymsluhúsið er það að segja, að eins og áður er getið, eru undirstöður geymsluhússins að mestu fullbúnar, en eftir er að fylla í hluta af grunninum og steypa gólfplötur. Vegna slæmrar veðráttu hefur ekki verið hægt að vinna við þetta verk síðan um miðjan nóvember. Gengið hefur verið frá pöntun á öllu stáli og bárujárni í geymsluhúsið. Kemur það efni væntanlega til landsins í janúarmánuði. Lausleg kostnaðaráætlun fyrir geymsluhúsið er upp á 5 millj. kr.“

Eins og fyrr getur um tunnuframleiðslu á Norðurlandi almennt, hefur reynslan sýnt það, að innlenda framleiðslan hefur allajafna orðið nokkru dýrari, en innfluttar tunnur. Undantekning eru 2 ár, af þeim orsökum, að tunnuefni var þá keypt inn að hausti til, eins og venja er, en gengisfelling eða innflutningsálag kom á innfluttar tunnur, sem keyptar voru sumarið eftir. Þetta gildir fyrir sumrin 1958 og 1961. En það eru einu árin, sem innanlandssmíðaðar tunnur hafa verið ódýrari heldur en þær innfluttu, af þessum annarlegu ástæðum. Innlenda tunnuframleiðslan hefur verið byggð á því, að ekki þyrfti að flytja tunnurnar á milli staða eða a.m.k. að mjög litlu leyti. Það skapast því að sjálfsögðu ný viðhorf við tunnuframleiðsluna á Norðurlandi, ef svo fer fram með söltun á þessum stöðum sem var s.l. sumar og að nokkru leyti sumarið 1963.“

Um tunnugeymslu á Akureyri segir svo að lokum:

„Árið 1946 keyptu Tunnuverksmiðjur ríkisins Tunnuverksmiðjuna á Akureyri af Bæjarsjóði Akureyrar, og er tekið fram í afsali, að kaupandi fær á bráðabirgðaleigu, þar til Hafnarstræti verður breikkað til austurs, þó ekki skemur en til 10 ára, góða lóðarræmu meðfram því að austan móts við lóð sína. Bæjarsjóður lét á sínum tíma verksmiðjustjórn í té ágæta lóð úti á Oddeyri og er ýtarleg áætlun um byggingu verksmiðju og geymsluhúss þar gerð af Almenna byggingarfélaginu. Sótt var um byggingar- og fjárfestingarleyfi og fékkst fjárfestingarleyfi með vissum skilyrðum til að hefja bygginguna, en þeim skilyrðum var ekki hægt að fullnægja. Þá kom einnig til greina að flytja verksmiðjuna til Dagverðareyrar og fékk stjórn Tunnuverksmiðjunnar tilboð frá Landsbanka Íslands um þá eign. Það mál var ýtarlega rannsakað og rætt við bæjarráð Akureyrar 18. ágúst 1960, en bæjarráð var því andvígt, að verksmiðjan yrði flutt þangað. Einnig var rætt við Verkamannafélag Akureyrar, sem einnig lagðist á móti því, að verksmiðjan yrði flutt. Eftir nokkrar frekari rannsóknir var fallið frá þessari hugmynd. Þá voru einnig gerðar ýtarlegar rannsóknir um byggingu geymsluhúss við núverandi verksmiðjuhús á Akureyri af Almenna byggingafélaginu, en niðurstöður þess voru þær, að lóðin væri ekki nægilega sterk, þ.e.a.s. uppfyllingin á bryggjunni, til þess að byggja þar hús, sem fyrirhugað var. Síðan var fsp. send til bæjarstjórnar Akureyrar 1961 um það, hvaða fyrirgreiðslu mætti vænta til byggingar geymsluhúss við verksmiðjuna, eins og hún er nú. Í svarinu er bent á, að Tunnuverksmiðjur ríkisins hafi fengið til ráðstöfunar rúmgóða lóð á bezta stað á Oddeyri og sú lóð standi enn til boða, en jafnframt er þess getið, að hafnarnefnd og bæjarstjórn muni þó athuga um að veita þá aðstöðu, sem unnt sé, til byggingar geymsluhúss við verksmiðjuna, þar sem hún nú stendur.

Eins og fyrr var getið, var talið, að bryggjan, þar sem helzt kom til mála að byggja geymsluhúsið, vær ekki nógu örugg, eins og húsið þá var fyrirhugað. Nú er í athugun að byggja þarna geymsluhús af léttari gerð, fyrir minna magn af tunnum, en upphaflega var gert ráð fyrir. Formlega hefur ekki verið tilkynnt, hvaða fyrirgreiðslu bæjarstjórn Akureyrar muni láta té, en talið er, að til mála komi að fylla upp núverandi bátakví, sem er fyrir framan verksmiðjuna og mundu þá sennilega skapast skilyrði til að byggja tunnugeymslu af léttar gerð fyrir 30–40 þús. tunnur, sem ætti að verða til mikilla úrbóta.“

Þetta var sú skýrsla, sem ég fékk frá stjórn tunnuverksmiðjanna í vetur, en síðan hefur, eins og ég sagði, komið viðbótarskýrsla, sem ég skal einnig leyfa mér að lesa kafla úr. Hún er dagsett 29. f. m. Þar segir svo:

„Í framhaldi af svari voru, dags. 12. des. 1964, við fsp. sjútvmrh. um tunnuverksmiðjur ríkisins á Akureyri og Siglufirði, viljum við taka fram eftirfarandi:

Á fundi stjórnar Tunnuverksmiðja ríkisins 7. jan. s.l. var samþykkt að hefja rekstur tunnuverksmiðjunnar á Akureyri þann 1. febr. n.k. og verða framleiddar þar um 20 þús. tunnur, þar sem ekki virðist mögulegt að fá geymslupláss fyrir meira magn. Á sama fundi var samþykkt að hefja rekstur tunnuverksmiðjunnar Siglufirði svo fljótt sem unnt væri og er nú ráðgert, að framleiðsla hefjist þar í byrjun febrúarmánaðar.“

Út af tunnugeymslu á Akureyri tel ég rétt að lesa bréf, sem, samið er og sent af Einari Ásgrímssyni verkmiðjustjóra tunnuverksmiðjanna til formanns stjórnarinnar, en bréf hans barst, eftir að fyrri skýrslan hafði verið gefin. Bréf verksmiðjustjórans, sem nú er tæknilegur framkvæmdastjóri, er dags. 11. des. og hljóðar svo:

„Um tunnugeymslu á Akureyri: Á árunum 1958 og 1959 og 1960 athugaði Almenna byggingafélagið h/f möguleika til að leysa þörf tunnuverksmiðjunnar á Akureyri fyrir timbur- og tunnugeymslu. Voru þær athuganir miðaðar við 70 þús. tunna geymslu, þ.e.a.s. 25x72 m á stærð eða 1.800 m2 að grunnfleti. Niðurstöður þeirra athugana eru í stórum dráttum eftirfarandi: 1) Undirstöður yrðu mjög dýrar undir svo stóra byggingu á bryggjunni sunnan við núverandi verksmiðjuhús. Skipulagsstjóri ríkisins og skipulagsnefnd Akureyrar voru talin vera mótfallin byggingu geymslunnar á þeim stað. 2) Kostur fékkst hjá bæjarstjórn Akureyrar fyrir hentugri lóð undir nýja tunnuverksmiðju á Oddeyri norðan við Útgerðarfélag Akureyring, og eiga Tunnuverksmiðjur ríkisins enn kost á þeirri lóð. Teiknaði Almenna byggingafélagið h/f tunnuverksmiðjubyggingar fyrir þá lóð, 660 m2 verksmiðjubyggingu og 1.800 m2 geymslu. Tunnuverksmiðjur ríkisins hafa ekki bolmagn til að ráðast í nýbyggingu þessa. 3) Athugaðir voru möguleikar á að nýta, húsakostinn á Dagverðareyri, sem þá var falur. Var ljóst, að stofnkostnaður tunnuverksmiðjunnar yrði tiltölulega hagstæður á Dagverðareyri, en rekstrarkostnaður mun meiri, en á Akureyri, um fyrirsjáanlega framtíð. Var af síðast nefndri ástæðu horfið frá þeim hugmyndum að flytja tunnuverksmiðjuna að Dagverðareyri.

Að áliti undirritaðs eru nú 3 kostir fyrir hendi: Í fyrsta lagi að byggja nýja verksmiðju á Oddeyri. Verksmiðjubyggingarnar, eins og þær eru teiknaðar, eru fullgild húsakynni fyrir ýmsan annan atvinnurekstur og mundu því standa í fullu verði, þótt tunnusmíði yrði lögð niður á Akureyri. Eða í öðru lagi að byggja 30–35 þús. tunnageymslu sunnan við núverandi verksmiðju. Áætlaður kostnaður er um 2½–3 millj. kr. Þótt skipulagsyfirvöldum yrði sú bygging þvert um geð, má telja öruggt, að bæjarstjórn Akureyrar mundi veita heimild fyrir byggingunni. Eða í þriðja lagi að leggja tunnuverksmiðjuna á Akureyri niður og er sá kosturinn skynsamlegastur að áliti undirritaðs, vegna þess að flest atvinnufyrirtæki á Akureyri skortir starfsmenn að staðaldri allt árið og vegna þess að enginn markaður er á Akureyri fyrir síldartunnur.

Um geymslurými á Akureyri í vetur er þetta að segja: Með því að flytja 2.800 tunnur úr húsi Tómasar Björnssonar h/f og 2.800 kúta úr tunnuverksmiðjunni, hvort tveggja út að Dagverðareyri, er hægt að skipa á land timbri á Akureyri. Á þá tunnuverksmiðjan völ á geymslurými umfram þær 77 þús. tunnur, sem liggja frá síðasta vetri, fyrir 20 þús. tunnur, og ef til vill fyrir 20 þús. tunnur í viðbót, ef sláturhúsið og Krossanes sjá sér fært að leigja húsnæði.“

Þetta eru þær skýrslur, sem ég hef fengið frá stjórn tunnuverksmiðjanna og ég taldi rétt að lesa þær upp báðar í meginatriðum, því að eins og ég sagði í upphafi, hefur þetta mál sjaldan borið á góma hér á hv. Alþingi, en ég tel ýmsa þætti málsins vera þess eðlis, að þeir eru íhugunarefni og ekki alveg auðveldir til lausnar. Fyrir liggur þó nú ákveðið, að hafizt er handa um smíði tunna á Akureyri, 20 þús. í viðbót við þær 77 þús. tunnur, sem liggja á staðnum og hafin verður smíði á Siglufirði, undireins og aðstæður þar leyfa. Um framtíðarskipulag á verksmiðjunni á Akureyri og tunnugeymslu í því sambandi hefur ekki verið tekin ákvörðun.