10.02.1965
Sameinað þing: 26. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í D-deild Alþingistíðinda. (3247)

114. mál, hlustunarskilyrði útvarps á Norður- og Austurlandi

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Í tilefni af því, að hv. síðasti ræðumaður sagði, að leggja yrði höfuðáherzlu á að tryggja góð hlustunarskilyrði fyrir útvarp um land allt, áður en ráðizt yrði í dýrt sjónvarp fyrir suðvesturhluta landsins, vil ég segja þetta:

Ég held, að engum okkar, sem vorum í sjónvarpsnefndinni sælu, hafi komið það til hugar, að stefna bæri að því fyrst og fremst að gera sjónvarp fyrir suðvesturhluta landsins einan. Þvert á móti er öll áætlunin um sjónvarpsframkvæmdir í till. n. og þeirra sérfræðinga, sem að málinu hafa unnið, byggð á því, að sjónvarpið nái til allra landsmanna á tiltölulega skömmum tíma. Það er um tvær framkvæmdaáætlanir að ræða, ef ég man rétt, 5 ára áætlun og 7 ára áætlun. Samkv. álitsgerð og till. sjónvarpsn. er gert ráð fyrir, að allt landið hafi á öðru hvoru þessara tímabila fengið afnot af sjónvarpi. Og ég vil segja það sem mína skoðun, að ég tel það ekki koma til greina, að staðnæmzt verði við sjónvarpsframkvæmdir, eftir að tiltölulega takmarkaður hluti landsins hefur fengið afnot sjónvarps. Ég segi þetta vegna þess, að í fyrsta lagi mundi það vekja mikinn óróa og óánægju meðal annarra landsmanna og í öðru lagi vegna hins, að alls staðar þar, sem til sjónvarps hefur verið efnt, hefur það orðið vinsælast í strjálbýlinu og fólkið þar talið að því mestan feng. Í því sambandi get ég skýrt frá því, að á s.l. sumri átti ég þess kost að skoða finnska sjónvarpið, en Finnum hefur á tiltölulega mjög skömmum tíma, frá því árið 1958, þegar sjónvarp var fyrst tekið í notkun þar, tekizt að koma sjónvarpsefni til svo að segja allrar þjóðarinnar, rúmlega 90% landsmanna. Sjónvarpsmönnum þar í landi ber saman um, að það fólkið, sem mest hefur fagnað þessum nútímaþægindum og þessu merka menningartæki, sem sjónvarpið óneitanlega er, sé sveitafólkið og fólkið í smáþorpum vítt og breitt um landið.

Ég tel þess vegna, að við Íslendingar hljótum í þessu efni að hafa sama hátt á og grannþjóðir okkar. Allar Norðurlandaþjóðirnar hafa lagt á það megináherzlu að koma sjónvarpinu sem fyrst út um sveitir og þorp. Þetta hefur að sjálfsögðu verið miklu auðveldara hjá þjóð eins og Dönum en Norðmönnum, sem búa að mörgu leyti við svipaðar aðstæður og við.

Um sjónvarpið skal ég svo ekki segja meira. En ég vil segja það, í tilefni af því, sem hv. 5. þm. Austf. sagði, að í útvarpsráði hafa verið stöðugar umr., svo að segja öll þau ár, sem ég hef átt sæti í útvarpsráði, um nauðsyn þess að bæta hlustunarskilyrði á Austfjörðum. Það hafa verið sendir menn austur hvað eftir annað og yfirleitt verið vakandi áhugi á því í útvarpsráði og hjá útvarpsstjóra, að úr þessu yrði bætt. Það hefur að sjálfsögðu mikið verið gert til þess að bæta hlustunarskilyrðin á Austfjörðum. Því miður hefur það ekki tekizt að öllu leyti. Vonandi rætist úr þessu vandamáli, þegar hinn nýi 100 kw. sendir verður tekinn í notkun.

Undanfarið hafa einnig borizt miklar kvartanir um tíðar útvarpstruflanir á Vestfjörðum, og hefur verið talið, að lóranstöðin á Snæfellsnesi ylli því fyrst og fremst. Þetta vandamál Vestfirðinga, sem er tiltölulega nýtt, hefur einnig verið mjög rætt í útvarpsráði og við Þorvaldur Garðar Kristjánsson, sem eigum þar báðir sæti, höfum lagt á það mikla áherzlu, að allt verði gert, sem unnt er, til þess að bæta úr þessu. Með stækkun stöðvarinnar upp í 100 kw., sem verður nú alveg á næstunni, á að ráðast fram úr þessu vandamáli á Vestfjörðum. Og það er aðeins tímaspursmál, hvenær sú stöð verður til, þannig að ég vona, að Vestfirðingar þurfi ekki að bera kvíðboga fyrir slæmum hlustunarskilyrðum innan tiltölulega skamms tíma.