10.02.1965
Sameinað þing: 26. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í D-deild Alþingistíðinda. (3248)

114. mál, hlustunarskilyrði útvarps á Norður- og Austurlandi

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Þar sem ég er annar af fyrirspyrjendunum, vil ég aðeins leggja orð í belg og fyrst og fremst þakka menntmrh, fyrir greinargóð svör. En ég vil enn fremur leggja svolítið frekari áherzlu á þær kvartanir, sem nú ber mikið á, á Austurlandi, um erfiðleika á að njóta útvarpsins. Það hefur í mörg ár verið, svo sem kunnugt er, endurvarpsstöð á Eiðum og t.d. um Fljótsdalshérað hefur yfirleitt heyrzt allvel til útvarps. En núna um jólin brá svo við, að það var miklum erfiðleikum bundið og raunar ómögulegt, sum kvöldin, að njóta dagskrár útvarpsins. Og þetta var nú eiginlega alveg nýtt fyrir mér. En hins vegar eru skilyrðin þó miklu verri víða annars staðar, sérstaklega á fjörðunum. Ég var einnig staddur nokkra daga í Neskaupstað í janúarmánuði, og þá var það einmitt þetta mál, sem var efst í huga manna þar; það voru einmitt þessi ómögulegu skilyrði til að njóta útvarpsins. Það var að vísu upplýst, að útvarpsefni hefði verið flutt til Austurlandsins með landssímanum og það hefðu verið sérstakir örðugleikar á því einmitt núna um jólaleytið eða frá því um miðjan desember og eitthvað lengur, en á því mundi nú verða einhver bót, og ég býst við, að það sé rétt, að það sé nú orðið eitthvað betra hvað þetta snertir. En þetta hefur nú gengið víða á Austurlandi í svo mörg ár, að það er eðlilegt, að farið sé að gæta mjög óþolinmæði. Og það, sem hefur gert, að það hefur borið hvað mest á þessu núna, er annars vegar þetta, að segja mætti að keyrði um þverbak núna um jólaleytið og svo áætlanir þær, sem fyrir hendi eru um að koma upp sjónvarp, því að það finnst mörgum, að fyrst verði að sjá fyrir því, að allir landsmenn geti notað útvarpsins á viðunandi hátt.

Það voru í alvöru uppi raddir um það austur frá, að kominn væri tími til að fara að leita til norskra sérfræðinga til þess að vita, hvort ekki væri hægt að ráða bót á þessum vanda, að koma viðhlítandi útvarpi til manna á Austfjörðum. Ég vil vekja athygli á því, að það kann að vera talsverðum örðugleikum bundið að koma útvarpi héðan og alveg sérstaklega vegna þess, að Austurlandið liggur svo mjög opið fyri útvarpsstöðvum frá Evrópu. Af þeim ástæðum er eðlilegt, að það séu miklu meiri truflanir af erlendum útvarpsstöðvum þar heldur en t.d. á Vestfjörðum, því að þeir þurfa ekki að óttast Grænlendingana, sem eru í þeirra næsta nágrenni.

Ég vil nú vænta þess, að þessar umr. og aðrar kvartanir, sem hafa verið mjög háværar nú að undanförnu, verði til þess, að þetta mál verði tekið fastari tökum af þeim, sem um flutning útvarsefnis eiga að sjá, heldur en enn hefur verið gert og við megum vænta þess, að það líði ekki í mjög langur tími. þangað til hægt verður að njóta útvarps á Austurlandi, eigi lakar en á öðrum stöðum hér. Ég vil aðeins skjóta því í hérna að einnig, að ég heyrði líka nefnda hugmynd að relsa endurvarpsstöð í Færeyjum fyrir íslenzka útvarpið, því að þaðan mundi vera auðveldara að senda inn á hvern fjörð eystra.

En þessar ábendingar taka nú sérfræðingarnir eins og þeim sýnist. Ég segi frá því, af því að það hefur mikið verið bollalagt um það meðal fólks eystra, hvernig á þessu væri hægt að ráða bót. En að lokum, um leið og ég þakka ráðh. fyrir svörin, óska ég eftir, að úrbætur fáist sem, allra fyrst.