03.03.1965
Sameinað þing: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í D-deild Alþingistíðinda. (3261)

128. mál, skólamál

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það er náttúrlega engum efa bundið, að mikil verkefni bíða okkar í skólamálum dreifbýlisins. Það hefur því miður allt of lengi dregizt að gera ráðstafanir til þess að framfylgja fræðsluskyldunni í sveitunum, þannig að munur á skólagöngu sveitabarna og kaupstaðarbarna er óhæfilega mikill. Að vísu eru ýmis vandkvæði á því að koma að öllu leyti sama skólafyrirkomulagi á í sveitum og kaupstöðum, m.a. verður því varla við komið að hafa heimangönguskóla alls staðar á landinu, þó að slíkt væri æskilegt og því verður að leggja mikla áherzlu á að hraða byggingu heimavistar barnaskóla og gera sameiningu skólahverfa að veruleika. Barnafræðslumál fjölmargra sveita verða ekki leyst með öðru móti betur. En því miður hefur orðið mjög mikill dráttur á framkvæmdum á þessu sviði og ég verð að líta á það sem forgangsverkefni í skólamálum, að úr þessu verði bætt með örari barnaskólabyggingum í sveitum og þar með meira fjármagni til þessara mála, en verið hefur undanfarin ár. Það verður að gera allt, sem unnt er, til þess að sveitabörn geti notið sambærilegrar skólagöngu og gerist í kaupstöðunum. Það er nefnilega af sú tíð, sem áður var, að hægt sé að halda uppi viðunandi heimafræðslu á sveitaheimilunum. Til þess er fámennið á heimilum of mikið, vinnutíminn of langur og fræðslukröfur bæði meiri og víðtækari, en áður var. Þess vegna er það, að sem fullkomnust skólaganga er jafnnauðsynleg í sveitum sem bæjum.

Ég geri mér vonir um, að skilningur sé hvarvetna vaxandi á þessu og ég hef m. a. orðið var mikils áhuga hjá fræðsluyfirvöldum um úrbætur á þessu sviði og vænti þess, ekki sízt eftir að hafa heyrt hæstv. ráðh. tala hér áðan, að sá áhugi leiði til raunhæfra framkvæmda. En þá má ekki heldur slaka á um nauðsynleg fjárframlög, á meðan verið er að kippa þessum málum í lag.

Ég vil einnig víkja að aðstöðu sveitaæskunnar til framhaldsnáms. Ég held, að misréttið í skólamálum sé sýnu meira áberandi, að því er tekur til aðstöðunnar til framhaldsnáms, til miðskóla- og gagnfræðanáms. Þar er um mjög alvarlegt misrétti að ræða, sem bitnar á unglingum dreifbýlisins. Því verður varla haggað, að svo sé, þrátt fyrir þær tölur, sem hæstv. ráðh. var að lesa hér upp áðan. Ástæðan er fyrst og fremst skortur á héraðsskólum. Þeim verður að fjölga á næstu árum, ef hægt á að vera að jafna þennan mun á aðstöðu unglinga í sveitum og sjávarþorpum annars vegar og unglinga í kaupstöðum og stærri kauptúnum hins vegar. Það er hreinn misskilningur og raunar ekkert nema kák, ef menn halda, að það sé hægt að bæta aðstöðu sveitaæskunnar á einhvern annan hátt, en þann að fjölga héraðsskólunum. Aðsóknin að héraðsskólunum sýnir og sannar, að þeim verður að fjölga, það verður að gera stórt átak til þess að fjölga héraðsskólunum og að mínu áliti þarf að byggja a. m. k. sjö nýja héraðsskóla á næstu árum, hæfilega stóra og viðráðanlega skóla fyrir þessi héruð og þá landshluta, sem nú hafa engan vísi að slíkum skólum eða engan aðgang að gagnfræðaskólum, sem það nafn sé gefandi. Það leysir ekki þennan vanda, þótt reistir verði sameinaðir barna- og unglingaskólar. Það er spor í rétta átt og sjálfsagt mál að vinna að því, að börn og unglingar geti lokið skyldunámi í sameinuðum barna og unglingaskóla, en slíkir skólar verða aldrei gagnfræðaskólar. Það verður að reisa marga fleiri gagnfræðaskóla í þágu sveitaæskunnar, þ.e.a.s. héraðsskóla með heimavist. Það þarf enginn að óttast, að slíkir skólar verði ekki sóttir. Þeir verða áreiðanlega alltaf fullsetnir, enda má geta þess, sem raunar er alkunna, að það er ekki einungis sveitafólk, sem óskar að koma börnum sínum í héraðsskóla, heldur fjöldi foreldra í kaupstöðum, sem gjarnan vildu láta börn sín ganga í héraðsskóla í sveit. Enginn héraðsskóli hefur verið byggður í landinu s.l. 16 ár eða síðan Skógaskóli tók til starfa. Þess vegna þarf stórt átak til að jafna þennan mikla halla, sem orðinn er, og verkefnið verður þeim mun erfiðara sem lengra líður.

Ég hef því talið rétt, að nú þegar verði farið að vinna að undirbúningi áætlunar um fjölgun héraðsskóla á næstu árum og flyt ásamt fleiri þm. frv. til l. um sjö nýja héraðsskóla, en það má teljast lágmarksþörf, eins og nú standa sakir, að mínum dómi. En hvort þörf sé einhverra bráðabirgðaráðstafana í þessum málum, á meðan verið er að framkvæma frambúðaráætlun í héraðsskólamálum, skal ég láta ósagt, en skoðun mín er sú, að fjölga þurfi héraðsskólum í landinu um allt að því helming.