31.03.1965
Sameinað þing: 36. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í D-deild Alþingistíðinda. (3288)

217. mál, bótagreiðslu Aflatryggingasjóðs

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti: Ég hef leyft mér að leggja fram fsp. á þskj. 285 um bótagreiðslur úr aflatryggingasjóði og beini ég fsp. til hæstv. sjútvmrh. Spurt er um það, hve miklar bætur hafi verið greiddar úr aflatryggingasjóði s.l. 5 ár, hvert árið um sig og í heild: a) á Vestfjarðasvæðið, b) á Norðurlandssvæðið, c) á Austfjarðasvæðið, d) til Vestmannaeyja, e) á Faxaflóasvæðið og f) til útgerðarstaðanna á Snæfellsnesi.

Fsp. ber samkv. þingsköpum að svara að viku líðinni og nú er a.m.k. mánuður liðinn síðan þessi fsp. var borin fram og vekur það mér nokkra furðu, að svo langan tíma skuli hafa þurft til þess að fá svör við jafnsjálfsögðum spurningum sem bótagreiðslum úr aflatryggingasjóði s.l. 5 ár til báta á þar tilgreindum svæðum. Svör við slíkum spurningum ættu að vera fljótfengin úr góðu og greinilegu bókhaldi opinbers sjóðs.

Lög um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins voru sett fyrir 16 árum, þ.e.a.s. 1949. Hlutverk sjóðsins skyldi frá öndverðu vera að bæta aflahluti útgerðar, þegar almennan aflabrest bæri að höndum. Sjóðurinn skiptist í byrjun í tvær deildir, síldveiðideild og almenna fiskideild. Réttinda úr síldveiðideild skyldu njóta öll síldveiðiskip bátaflotans og réttinda úr almennu fiskideildinni skip, sem stunduðu þorskveiðar, ef skipshöfnin væri ráðin upp á hlut eða hundraðshluta af aflaverðmæti. Bótatímabil skyldi miðast við vertíðaskipti. Landinu skyldi skipt í bótasvæði, þannig að í sama flokki yrðu þau veiðisvæði, sem líkust hafa skilyrði fyrir sama aflamagni á hverri vertíð. Það skyldi samkv. l. teljast almennur aflabrestur, ef meðalafli skipa í einhverjum bótaflokki yrði minni en 75% af meðalveiðimagni og skyldi þá koma til aðstoðar sjóðsins. Fiskifélagi Íslands var strax falið að annast afgreiðslu sjóðsins. Tekjur sjóðsins áttu að vera 11/2% af útflutningsgjaldi sjávarafurða. Um bótagreiðslur úr sjóðnum voru settar þær meginreglur, að skip, sem aflaði 45% af meðalveiðimagninu á bótasvæði sínu, skyldi fá 40% bætur af því, sem á vantaði meðaltalið, en síðan lækkandi hundraðshluta í bótum, eftir því sem aflinn nálgaðist meir 75% af meðalveiðimagni svæðisins.

Nánar vinnst ekki tími til að gera grein fyrir meginefni l. um aflatryggingasjóð bátaútvegsins frá 1949, en hlutverk sjóðsins var það að hlaupa undir bagga og afstýra áföllum og stöðvun útgerðar, þegar almennan aflabrest bæri að höndum í einhverri verstöð, veiðisvæði eða landshluta. Síðan þessi lög voru sett, hefur þeim verið breytt á ýmsan hátt og er næsta vafasamt frá mínu sjónarmiði, að þær breytingar hafi allar orðið til bóta. Sumar hafa vafalaust verið það. Togaradeild hefur verið bætt við. Bótasvæðum og bótareglum hefur verið breytt og nafninu breytt úr hlutatryggingasjóði í aflatryggingasjóð, hvernig sem sjóður á nú að geta tryggt afla. En hvað sem þessu líður, er það staðreynd, að óánægja fer vaxandi yfir bótagreiðslum úr sjóðnum. Þær þykja orðið mjög tilviljanakenndar og jafnvel ranglátar. Bætur geta t.d. orðið mjög litlar á svæði, þar sem aflamagnið hefur verið lítið árum saman og breytingar á aflamagninu hafa verið litlar frá ári til árs. Bætur geta hins vegar orðið miklar á svæði, þar sem mikið aflamagn hefur verið s.l. 4–5 ár og það aflamagn myndar þannig hátt meðalaflamagn, sem svo er miðað við, þegar þetta aflamagn fer lækkandi. Þannig getur svo farið, að bátur af slíku veiðisvæði, sem ég núna seinast vitnaði til, fái hundrað þús. kr. í bætur, þó að bátur með miklu minna aflamagn, t.d. norður á Hólmavík eða Drangsnesi, þar sem aflaleysið hefur herjað árum saman, fái litlar eða engar bætur úr sjóðnum. Þetta er auðvitað lítt viðunandi og þarf leiðréttingar við. Fsp. er einkum til þess fram borin, að fá áreiðanlegar tölur um, hvert bótagreiðslur sjóðsins hafa runnið á undanförnum árum. Hafa þær farið nær einvörðungu til aðstoðar útgerð á aflaleysissvæðunum? Ef svo reynist, er allt í lagi og óánægjuraddirnar á misskilningi byggðar. Eða er það á hinn veginn: Hafa bótagreiðslur einnig runnið til verstöðva og veiðisvæða, þar sem aflabrögð hafa verið í betra lagi og ekki þannig beint þurft aðstoðar við? Ef svo skyldi reynast, hefur aðstoðargetu sjóðsins verið drepið á dreif og notin orðið miklu minni, en skyldi af starfsemi hans. Sýni upplýsingar hæstv. ráðh., að svo hafi reynzt, ber að hraða endurskoðun l. um aflatryggingasjóð og breyta þeim þannig, að hann veiti hjálp sína, þar sem hjálpar er mest þörf hverju sinni, eins og honum var í upphafi ætlað. — Ég vænti svo að fá að heyra svör hæstv. ráðh. um þetta mál.