31.03.1965
Sameinað þing: 36. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í D-deild Alþingistíðinda. (3297)

135. mál, sölunefnd varnarliðseigna

Utanrrh. ( Guðmundur I. Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi kvartaði undan því, að hula og leynd hefði hvílt yfir störfum Sölunefndar varnarliðseigna og hefði það skapað hinar og þessar kynjasögur. Þm. sagði, að hann hefði ekki vitað, undir hvaða ráðuneyti sölunefndin heyrði og þess vegna vissi hann ekki, hvert hann hefði átt að beina spurningunum og því beint þeim til ríkisstj. í heild. Ég vil vekja athygli á því, að um það bil 20 ára skeið hefur ríkisstj. gefið út handbók fyrir utanrrn. Í þessari handbók er þess getið, að utanrrn. skipi sérstaka Sölunefnd varnarliðseigna og þess getið, hverjir í n. séu. Handbókin var einnig gefin út, meðan hv. fyrirspyrjandi átti sæti í ríkisstj. og var hann því einn útgefandi bókarinnar, þó að hann kvarti nú undan því, að hann hafi ekki hugmynd um, hvað í þessu riti hans stóð, svo að hann viti ekki, hvern á að spyrja um efni þess. Þá kvartaði hv. þm. undan því, að hula væri um það, hverjar tekjur Sölunefndarinnar væru og hvað um tekjurnar yrði. Ég býst við, að allir nema sennilega þessi hv. þm. einn viti það, að á hverju ári, þegar fjárl. eru afgreidd, er liður í fjárl., þar sem ríkissjóði eru áætlaðar til tekna tekjur af Sölunefndinni. Þennan lið samþykkja allir þm. með sínu atkvæði, líka hv. fyrirspyrjandi, þó að hann virðist hingað til ekki hafa orðið þess var. Sömuleiðis eru í ríkisreikningunum á hverju ári tilfærðar þær tekjur, sem ríkinu eru innborgaðar af Sölunefndinni og þennan ríkisreikning samþykkja þm. líka með atkv. sínu hér á hv. Alþ. á hverju ári. Svo kemur einn af hv. þm. og segir: Það er hula og leynd yfir því, hverjar tekjur sölunefndarinnar eru og hvað um þær verður.

Ég ætla ekki að hafa þennan formála lengri, en skal þá snúa mér að spurningunum sjálfum.

Það er í fyrsta lagi spurt, hverjir séu nú aðal- og varamenn í sölunefnd svonefndra setuliðseigna og hverjir hafi átt sæti í n., þ.e.a.s. Sölunefnd setuliðseigna, s.l. 10 ár. Sölunefnd setuliðseigna var skipuð samkv. brbl. frá 26. apríl 1944, en brbl. þessi voru síðan staðfest með l. nr. 54 frá 1945, um heimild fyrir ríkissjóð til þess að kaupa eignir Setuliðsins á Íslandi. N. skyldi annast ráðstöfun og sölu eigna þeirra, sem ríkissjóður keypti af setuliðinu á Íslandi. Í Sölunefnd setuliðseigna áttu sæti eftirtaldir menn: Skúli Thorarensen, formaður, tilnefndur af ríkisstj., Daníel Ágústínusson, tilnefndur af Framsfl., Björn Bjarnason, tilnefndur af Sósfl., Helgi Eyjólfsson, tilnefndur af Sjálfstfl., og Sigurjón Á. Ólafsson, tilnefndur af Alþfl. Þessi n. lauk störfum á árinu 1948. Þá var Helga Eyjólfssyni húsasmíðameistara falið að taka við störfum n. til bráðabirgða, en 7. maí 1949 voru skipaðir meðstjórnendur Gunnlaugur E. Briem skrifstofustjóri og Gunnlaugur Pétursson deildarstjóri. En 2. júní 1955 leggur þáv. utanrrh., dr. Kristinn Guðmundsson, Sölunefnd setuliðseigna niður og síðan hefur sú n. ekki verið endurvakin.

Þó að hv. fyrirspyrjandi tali um Sölunefnd setuliðseigna, býst ég varla við, að hann hafi átt við þessa n., heldur aðra, sem síðar var til komin, en með öðru nafni, því að þann 2. júní 1955 skipar dr. Kristinn Guðmundsson sérstaka nefnd til að annast yfirtöku og sölu þeirra verðmæta, sem varnarliðið og varnarliðsmenn þurfa ekki að nota lengur og óska að selja. Nefndina nefnir ráðh. Sölunefnd varnarliðseign, og hann skipar í n. Hermann Jónasson, Gunnlaug Briem og Hannes Guðmundsson. 6. febr. 1956 er Hannes Guðmundsson leystur frá störfum, en Haukur Snorrason ritstjóri kemur í n. í hans stað. Eftir lát hans er Tómas Vigfússon byggingameistari skipaður í n. 22. maí 1958. Síðan hafa engar breytingar verið gerðar á skipun n. Varamenn eru engir.

Þá er í öðru lagi spurt: Hvernig er vali manna i Sölunefnd setuliðseigna háttað og hvaða stjórnarvöld ákveða menn í n.? Sölunefnd setuliðseigna var skipuð í samræmi við ákvæði l. nr. 54 frá 1945, en Sölunefnd varnarliðseigna er skipuð af utanrrh. án tilnefningar og eins og ég sagði áðan, hafa nöfn þeirra manna, sem verið hafa í Sölunefnd varnarlíðseigna, frá byrjun ætíð verið birt í handbók utanrrn.

Í þriðja lagi er spurt, hvort Sölunefnd setulíðseigna starfi samkv. l. og undir hvaða ráðuneyti starf hennar heyri. Ég vitna enn sem fyrr um Sölunefnd setuliðseigna til l. frá 1945, en Sölunefnd varnarliðseigna, sem skipuð var af utanrrh. á sínum tíma, er skipuð til framkvæmda á l. nr. 110 frá 1951.

Í fjórða lagi er spurt, hvaða tekjur hafi orðið af starfi Sölunefndarinnar ár hvert, síðan hún hóf sölustarfsemi sína. Bókfærðar tekjur Sölunefndanna og tek ég hér bæði Sölunefnd setuliðseigna og varnarliðseigna, hafa numið frá 1947 til ársloka 1963 alls 148.250.407.11 kr. Tekjurnar frá ári til árs sundurliðast þannig: Tekjur til 20. 5. 1948: 4.515.455.43 kr. Tekjur frá 20. 5. til 31. 12. 1948 1.350.044.90 kr. Tekjur 1949 1.547.340.46 kr. Tekjur 1950 1.964.953.50 kr. Tekjur 1951 1.027.652.45 kr. Tekjur 1952 440.480.74 kr. Tekjur 1953 1.154.266.64 kr. Tekjur 1954 2.310.320.42 kr. Tekjur 1955 5.231.427.76 kr. Tekjur 1956 6.963.815.07 kr. Tekjur 1957 8.157.768.82 kr. Tekjur 1958 14.074.909.27 kr. Tekjur 1959 24.390.050.85 kr. Tekjur 1960 30.021.902.23 kr. Tekjur 1961 20.011.335.84 kr. Tekjur 1962 14.443.074.40 kr. Og tekjur 1963 10.645.608.34 kr. Samanlagt nema þessar bókfærðu tekjur því 148.250.407.11 kr. Ég skal geta þess, að af þessari upphæð hafa um 113 millj. verið borgaðar í ríkissjóðinn, rúmar 30 millj. eru inneignir í vörzlum sölunefndarinnar, það eru útistandandi skuldir og fasteignir. Lager er þar ekki meðtalinn, en afskriftir eru eitthvað 4–5 millj., sem þarna liggja á milli.

Í fimmta lagi er spurt um laun sölunefndarmanna. Árslaun nm. s.l. ár voru: Formaður 46.377.08 kr., aðrir nm. 34.951.82 kr.

Spurt er um fjölda starfsmanna n. Við skrifstofustörf vinna tveir auk framkvstj. Við afgreiðslu, flutning og dreifingu vinna að jafnaði 10–12 manns.

Spurt er, hvernig sé háttað verðlagningu og bókhaldi vegna söluvörunnar við afhendingu í hendur n. og við endursölu til landsmanna. Kaupverð á vörum ákvarðast með samningi milli n. og fulltrúa varnarliðsina í hverju tilfelli og fer að sjálfsögðu eftir ástandi vörunnar. Vörurnar eru færðar samkv. innkaupareikningi. Við endursölu eru vörurnar metnar í samræmi við hliðstætt vöruverð í landinu og seldar því verði. Þó eru fólksbifreiðar og margs konar smærri tæki seld hæstbjóðanda eftir uppboði.

Í áttunda lagi er spurt: Hverjir annast endurskoðun á bókhaldinu? Endurskoðun annast endurskoðunarskrifstofa Björns Steffensens og Ara Ó. Thorlacius.

Þá er spurt, hvort Sölunefndin hafi komið sér upp eigin vöruskemmu og verzlunarhúsnæði eða hafi leiguhúsnæði til afnota og þá um leiguupphæð. N. hefur byggt vöruskemmu á Grensásvegi 9 í Reykjavík, verzlunar- og vörugeymsluhús, sem er nýtekið í notkun. Húsið er byggt með hliðsjón af því, að ef starfsemi sölunefndarinnar leggst niður, sé húsið hentugt fyrir aðra starfsemi ríkisins. Gólfrými þess er alls 4.300 fermetrar. N. leigði áður húsnæði á Suðurlandsbraut 2, ca. 2.000 fermetra, fyrir sem svaraði 20 kr. á fermetra á mánuði og að Skúlatúni 4 ca. 1.000 fermetra fyrir mjög svipað gjald.

Loks varðandi fsp, um sjónvarpsviðskipti Sölunefndarinnar frá Keflavíkurflugvelli skal tekið fram, að alls hafa verið keypt þaðan 35–40 sjónvarpstæki, frá því að sjónvarpsstöðin var fyrst sett upp á vellinum.

Hygg ég, að ég hafi þá svarað öllum þeim spurningum, sem fyrir mig hafa verið lagðar, enda þótt svörin við flestum þeirra megi teljast lítt þörf, þar eð hér er um ekkert annað að ræða en upplýsingar, sem áður hafa komið fram og margsinnis opinberlega og allir eiga aðgang að.