21.04.1965
Sameinað þing: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í D-deild Alþingistíðinda. (3305)

170. mál, starfsfræðsla

Fyrirspyrjandi (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. báðum fyrir svör þeirra. Ekki er ég samt alls kostar ánægður með þær framtíðaráætlanir, sem komu fram í þessum svörum og ég er ekki viss um, að það hafi verið rétt ályktað hjá fundi þeim, sem hæstv. menntmrh. fékk sér til ráðuneytis 1962, að hafna samvinnu við Reykjavíkurborg um fastan forgöngumann um starfsfræðslu og hafna þar með brautryðjandanum, sem verið hefur í starfsfræðslumálum, hjá okkur. Finnst mér sannast þar, að laun heimsins eru löngum vanþakklæti eða a.m.k. lítið þakklæti.

Ég veit, að það er rétt, að á Norðurlöndum yfirleitt hafa ráðuneytin, sérstaklega vinnumálaráðuneytin, yfirstjórn starfsfræðslunnar. Þau hafa fjölmennu starfsliði á að skipa, sem samhæfir starfsfræðsluna og útbýr fræðsluefni handa þeim, sem vinna að þessum málum í hinum ýmsu landshlutum og skólum landsins. Samvinna er höfð við atvinnurekendur og verkalýðssamtök og stéttasamtökin yfirleitt um þessi mál. En þetta kostar mikið fé, a.m.k. á okkar mælikvarða. Þessar þjóðir hafa kostað miklu fé til þessara efna á okkar mælikvarða. En hér hefur tekizt, enn sem komið er, að koma upp Starfsfræðsludögum með ótrúlega ódýrum hætti, eins og fram kom í skýrslu hæstv. landbrh. og það hefur tekizt af því, að forustumanni þeirra mála hefur tekizt að setja af stað áhugahreyfingu fyrir þessum málum. Hann hefur haft þann mikilsverða forgöngumanns hæfileika að geta vakið áhuga bæði til námsþátttöku og til ókeypis leiðbeiningastarfs úrvalsmanna. Hann hefur kunnað að láta hjólin snúast án mikilla peninga. Þetta geta sumir, en þetta geta ekki allir. Og það er ekki ætíð ljóst, hvernig á mannamuninum í þessum efnum stendur, en staðreyndirnar eru vottar.

Í fyrradag var haldinn Starfsfræðsludagur á Sauðárkróki. Þangað komu, þó að færð væri slæm, ungmenni bæði frá Ólafsfirði og Blönduósi, auk annarra, sem áttu skemmra að sækja, svo að dagurinn var fjölmennur. Kunnáttumenn og fræðendur komu til þessa móts bæði frá Akureyri og Reykjavík án þess að selja tíma sinn og vinnu. Og þannig hefur verið að þessum dögum unnið í landi okkar enn sem komið er. Þetta sýnir m.a., að málefnið á hug manna. Menn hafa unnið að því sem vormenn, litið á það sem voryrkju. Ég fyrir mitt leyti leyfi mér að skora á þá, sem með stjórn landsins fara, að styðja þessa voryrkju vel og virkja starfsfræðsluáhugann. Og ég teldi ástæðu til, að hæstv. ríkisstj. athugaði, hvort ekki væri hægt að fá Ólaf Gunnarsson til þess að breyta ákvörðun sinni um að fara úr landi.