21.04.1965
Sameinað þing: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í D-deild Alþingistíðinda. (3308)

170. mál, starfsfræðsla

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni þess, sem hæstv. menntmrh. sagði nú síðast. Ég fæ ekki betur skilið, en hæstv. ráðh. væri með einhverjar óljósar dylgjur í garð Ólafs Gunnarssonar sálfræðings með því, sem hann las hér upp. Ég skal ekki fara frekari orðum um það, en aðeins spyrja hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. í heild: Hvers vegna hefur ríkisstj. getað notað starfskrafta Ólafs Gunnarssonar sálfræðings fram á þennan dag, ef hann var ekki að einhverju leyti hæfur til þess? Þá er um sök að ræða hjá hæstv. ríkisstj., ef hún hefur í höndum einhver gögn fyrir því, að hann sé ekki hæfur til þessara starfa, en þrátt fyrir það hafa hans starfskraftar verið notaðir fram til þessa dags og verkið, sem hann hefur unnið, af öllum viðurkennt gott verk.