28.04.1965
Sameinað þing: 44. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í D-deild Alþingistíðinda. (3321)

183. mál, dánar- og örorkubætur sjómanna

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þál. Alþ. frá 4. marz 1964 fjallar um athugun á því, hvernig megi tryggja, að allir íslenzkir sjómenn njóti sérstakrar slysatryggingar, eigi lægri en 200 þús. kr., ef um fulla örorku eða dauða er að ræða. Hinn 13. maí 1964 samþ. Alþ. aðra ályktun um sjómannatryggingar. Sú ályktun fjallaði um skipun n., sem athuga skyldi, hvort unnt væri að breyta núverandi sjómannatryggingum í eina heildartryggingu. N. samkv. þessu var skipuð 30. júlí 1964 og var Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur skipaður formaður n. Þessari n. hefur einnig verið falið að framkvæma þá athugun, sem ályktunin frá 4. marz gerði ráð fyrir: Þetta er svar við fyrri lið fsp. — En um síðari liðinn er þetta að segja, að þar eð n. hefur ekki lokið athugunum þeim, sem um ræðir í þessum ályktunum Alþ. frá 13. maí og 4. marz 1964, eru ekki líkur til þess, að niðurstöður þessara athugana geti verið lagðar fyrir Alþ. það sem nú situr. Það hefur verið rætt við n. um afgreiðslu málsins, en að setja henni þrengri tímamörk, en hún sjálf telur eðlilegt og nauðsynlegt, tel ég ekki rétt og þess vegna er ekki annað um málið að segja heldur en það, að það er enn í athugun hjá nefndinni.