28.04.1965
Sameinað þing: 44. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í D-deild Alþingistíðinda. (3322)

183. mál, dánar- og örorkubætur sjómanna

Fyrirspyrjandi (Geir Gunnarsson):

Herra Forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svör hans. Mér þykir miður, að við störf n., sem um sértryggingar sjómanna hefur fjallað, skuli ekki ákveðið miðað við það, að niðurstöður fengjust það snemma, að þær væri hægt að leggja fyrir það þing, er nú situr. Þáltill. var samþ. 4. marz, eins og ég áður greindi, svo að allnokkur tími hefur gefizt til þess að vinna að lausn þessa máls. Og miðað við þann hraða, sem verið hefur á afgreiðslu ýmissa stórmála hér á hv. Alþ. og koma mun á daginn nú á næstunni, ef að líkum lætur, fæ ég ekki séð, að ekki hafi gefizt nægur tími til að fá fram lausn í þessu máli og afgreiða það endanlega nú fyrir þinglok.

Hæstv. ráðh. nefndi, að þessi n. hafi verið skipuð hinn 30. júlí á s.l. ári, svo að það virðist hafa liðið alllangur tími, frá því að till. var samþ. og þangað til n. var skipuð. Hins vegar hefur ekki verið upplýst, hvenær þessi n. hóf störf, en vera má, að það hafi líka dregizt. En ég vænti þess, að hæstv. ráðh. geri sitt til þess, að þessu máli verði hraðað svo, að bundinn verði endir á það hróplega misrétti, sem nú á sér stað í þessum málum. Það er kominn tími til þess.